Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Tengsl áþreifanlegs og óáþreifanlegs menningararfs

Mynd: - / Hönnunarsafn Íslands

Tengsl áþreifanlegs og óáþreifanlegs menningararfs

31.01.2021 - 15:00

Höfundar

Ólöf Gerður Sigfúsdóttir fjallar um sýninguna 100% ull á Hönnunarsafni Íslands, þar sem hið óáþreifanlega mætir hinu áþreifanlega í sýningu um hráefni sem allir þekkja, ullina.

Ólöf Gerður Sigfúsdóttir skrifar:

Ég brá mér inn á Hönnunarsafn Íslands á leið minni um Garðabæ á dögunum, safn sem ég heimsæki alltof sjaldan en er samt í alfaraleið. Hönnunarsafnið hefur það hlutverk að skrásetja og varðveita þann þátt íslenskrar menningarsögu sem lýtur að hönnun og handverki með kerfisbundinni söfnun hönnunargripa. Safneignin telur nú um 900 verk og endurspeglar allar tegundir hönnunar, s.s. vöruhönnun, grafíska hönnun, arkitektúr og fatahönnun. Hönnun er nokkuð ungt fag á Íslandi en hefur farið mjög vaxandi á undanförnum tveimur áratugum, ekki síst eftir að farið var að kenna hönnun á háskólastigi með tilkomu hönnunardeildar í Listaháskólanum árið 2001 en einnig með stofnun Hönnunarmiðstöðvar 2008 og Hönnunarmars í kjölfarið. Hönnunarsafn Íslands, sem stofnað var 1998 og upphaflega rekið sem deild innan Þjóðminjasafnsins, er svo enn ein stoðin í að byggja upp fagsamfélag hönnuða hér á landi og auka vitund almennings um fagið. Á undanförnum árum hefur safnið lagt aukna áherslu á fræðsludagskrá í tengslum við sýningar með viðburðum, námskeiðahaldi og öflugu samstarfi við skóla í nýju og glæsilegu fræðslurými.

Í safninu stendur nú yfir sýningin 100% ull í sýningarstjórn Signýjar Þórhallsdóttur og Birgis Arnar Jónssonar. Þátttakendur eru af ólíkum sviðum hönnunar og handverks en eiga það sameiginlegt að nýta íslenska ull í afurðir sínar. Yfirbragð sýningarinnar er fágað og stílhreint og fölblár pastellitur sýningarborða og sýningarpalla tónar vel við steingrátt gólfið og daufa lýsinguna. Hér hefur augljóslega verið hugað vel að útliti sýningarinnar með sýningarhönnuninni sjálfri enda erum við jú á hönnunarsafni. Sýningin er römmuð inn með handskrifuðum textum og sjónlýsingum á veggjum sem grafíski hönnuðurinn og rithöfundurinn Rán Flygenring teiknaði. Með því að nota þetta sjónræna form í stað hefðbundinna merkimiða eða límstafa á veggjum er hér lögð áhersla á lifandi frásagnarmáta og línulega frásögn hvers verks þar sem framleiðsluferlið er rakið frá upphafi til enda í snilldarlegri útfærslu Ránar. Þetta er afbragðsgóð leið til að miðla miklum upplýsingum í þéttu formi án þess að taka of mikið pláss eða að of mikill tími fari í lestur á veggjum, eins og oft vill verða á söfnum.

Á sýninguna hafa verið valin verk sex hönnuða, handverksfólks og fyrirtækja sem sérhæfa sig í meðhöndlun og úrvinnslu íslensku ullarinnar. Þetta eru Ásthildur Magnúsdóttir vefari, Magnea Einarsdóttir fatahönnuður, verslunin Kormákur & Skjöldur, fyrirtækið Kula by Bryndís, samstarfsverkefnið Ró og ullarvinnslufyrirtækið Ístex. Óneitanlega vakna strax spurningar um hagsmunatengsl þegar maður sér þennan sýnendahóp. Allir sýnendur nema einn eru með fyrirtækjarekstur og eiga því eflaust viðskiptahagsmuni af því að vera valdir til þátttöku á sýningunni. Hönnun er auðvitað listgrein sem á í beinni tengslum við markaðinn en margar aðrar listgreinar og í raun er viðtekin venja að sýna verk undir frægum hönnunarmerkjum á hönnunarsöfnum víða um heim. Þetta er engu að síður fín lína sem í hverju tilfelli fyrir sig þarf að feta af varkárni og meðvitund. Hér eru verk Ásthildar Magnúsdóttur nauðsynlegt mótvægi við þessa tilfinningu um fyrirtækjakynningu og í raun bjargar sýningarstöð hennar sýningunni frá því að líkjast meira kaupmessu en sýningu á opinberu safni.

Mynd með færslu
 Mynd: - - Hönnunarsafn Íslands

Sýningin gerir einmitt þessi tengsl ullarinnar við framleiðslu og vöruþróun að miðpunkti, þar sem framleiðsluferlið er rakið frá kind að fullbúinni neytendavöru. Útgangspunktur sýningarinnar er að sýna vægi ullarinnar í vöruskipta- og hagkerfi landsins langt aftur í aldir, þessa klassíska og náttúrulega efniviðar með sína óendanlegu möguleika. Ullin er jú samofin menningarsögu landsins allt aftur til landnáms og hefur gegnt lykilhlutverki í handverks- og iðnaðarsögu þjóðarinnar um aldir. Ullarvörur voru um langt skeið ein helsta útflutningsvara Íslendinga og á miðöldum var vaðmál, sem ofið var úr ull og mælt í álnum, mikilvægur gjaldmiðill. Sýningin er römmuð inn með þessa áhugaverðu sögu í forgrunni, sem er í senn iðnaðarsaga, landbúnaðarsaga, hönnunarsaga, handverkssaga, menningarsaga, tæknisaga og viðskiptasaga. Við fræðumst um hvernig vinnsla á ull fór fram á heimilum samhliða bústörfum allt til loka 19. aldar. Þá færðist hún yfir í vélvæddar verksmiðjur sem leiddi til blómlegrar framleiðslu á fatnaði og vefnaðarvöru á 20. öld en síðar hallaði undan fæti þegar ekki var lengur hagstætt að vinna ullina hér á landi í nothæft hráefni í textíl. Þannig varpar sýningin áhugaverðu ljósi á þær aðstæður sem hönnuðir og handverksfólk hér á landi býr við varðandi takmarkanir á staðbundinni framleiðslu og nýtingu þessa merkilega hráefnis. Í dag er ullin í langflestum tilfellum send til textílframleiðenda erlendis sem senda síðan ofið efni aftur hingað til lands þar sem það er sniðið og saumað í fullbúna flík. Þannig vekur sýningin upp spurningar um möguleika á sjálfbærni og umhverfisvænni hönnun. Hér leikur Ásthildur og hennar þáttur í sýningunni aftur lykilhlutverk í að koma möguleikunum til skila. Segja má að hún sé eins konar fulltrúi ullarinnar sjálfrar á sýningunni. Sérlega áhugavert fannst mér að sjá þær ólíku tegundir ullar sem Ásthildur vinnur með. Í miðpunkti sýningarinnar er svokallaður röggvarfeldur, sem hún var þrjá mánuði að vinna og fræðast má betur um í myndskeiði á vefsíðu safnsins. Við fáum upplýsingar um framleiðsluferlið frá upphafi til enda, hvaða bóndi ræktar kindurnar tvær sem veita ullina í feldinn, af hvaða bæ þær eru og svo framvegis. Við fáum einnig að kynnast ólíkum gerðum af togi, þráðum, þeli og lyppum sem Ásthildur vinnur með. Við sjáum muninn á ull af venjulegu fé og feldfé, hvað felst í þrinnuðu togi, tvinnuðu togi og einspuna togi og við lærum um aukaafurðir eins og lanólín sem fellur til við framleiðslu ullarinnar en er þó ekki nýtt hér á landi þar sem réttu tólin og tækin til þess skortir. Hér myndast afar mikilvæg tenging milli áþreifanlegs menningararfs og óáþreifanlegs þar sem hefðir, venjur og verklag koma í ljós við það eitt að efnislegur gripur er tekinn til sýningar. En það er einmitt ekki síður hlutverk safna að viðhalda og miðla þessum óáþreifanlegu ferlum sem felast í vinnulagi og handverki frekar en beinhörðum og efnislegum gripum og þannig eiga söfn sinn þátt í að viðhalda þekkingunni sem felst í slíkjum venjum og siðum. Minna fer fyrir þessari mikilvægu fúnksjón safnsins í verkum annarra þátttakenda sýningarinnar þar sem framleiðsluferlið er vélrænt og fer í flestum tilfellum fram í erlendum verksmiðjum. Í þeim verkum er frekari áhersla lögð á hina endanlegu afurð, hönnunarafurðina sjálfa.

Miðað við hversu mikil áhersla er lögð á framleiðsluferli hvers verks á sýningunni, þar sem ferðalagi ullarinnar frá kind til hráefnis, þaðan til vöruþróunar og lokst til fullunninnar vöru eru gerð góð skil, hefði verið rökrétt að fjalla meira um hvers vegna þessi iðnaður hvarf næstum með öllu eftir þá gullöld sem hér ríkti á síðari hluta 20. aldar þegar fyrirtæki á borð við Álafoss og Gefjun voru upp á sitt besta. Áhugavert hefði verið að læra meira um forsögu þessa iðnaðar og hvers vegna svo er komið fyrir honum í dag sem raun ber vitni. Þeirri sögu eru gerð ágæt skil á Iðnaðarsögusafninu á Akureyri, og hér hefði samstarf með láni á gripum og þekkingarmiðlun milli safna verið vel til þess fallin að þétta þennan hluta sýningarinnar. Þá er það einnig eitt af hlutverkum opinberra safna að efna til gagnrýninnar umræðu um álitamál í samfélaginu og eins og segir í kynningartexta þá eru skiptar skoðanir á íslensku ullinni og nýtingarmöguleikum hennar. Hér hefði safnið getað nýtt tækifærið til að skapa frekari umræðu um þær takmarkanir sem framleiðsluferlinu fylgir hér á landi og því vanbúna atvinnuumhverfi sem hönnuðir, sem vilja sérhæfa sig í ull, búa við. Það er virkilega sorglegt að sjá hvernig komið er fyrir ullariðnaðinum hér á landi, staða sem skrifast fyrst og fremst á iðnaðinn og nýsköpunarumhverfið, því ekki vantar hugvitið eða vel færa hönnuði til að vinna úr hráefninu, eins og sýningin ber vitni um.

Tengdar fréttir

Pistlar

Raunveruleiki og sviðsetning í Listasafninu á Akureyri

Pistlar

Gott ár fyrir myndlist þrátt fyrir heimsfaraldur

Pistlar

Hressandi höggmyndalist á Gerðarsafni

Pistlar

Frásagnarvald safna