Sveitarfélög ekki á einu máli um Hálendisþjóðgarð

16 af 23 sveitarfélögum eru ekki hlynnt stofnun þjóðgarðs
Mynd með færslu
 Mynd: Hólmfríður Dagný Friðjónsd - RÚV
Þau sveitarfélög sem eiga aðild að óstofnuðum Hálendisþjóðgarði eru ekki einhuga í afstöðu sinni. Sum hafna áformunum alfarið eða setja fyrirvara um breytingar á frumvarpinu. Önnur styðja áformin heilshugar.
Fylgjandi stofnun þjóðgarðs
Hlutlaus
Andvíg
Smelltu á nöfn sveitarfélaganna til að lesa meira.
 
 
Akrahreppur og Skagafjörður
 
Árborg
 
Ásahreppur
 
Bláskógabyggð
 
Flóahreppur
 
Grímsnes og Grafningshreppur
 
Hrunamannahreppur
 
Húnavatnshreppur
 
Húnaþing vestra
 
Múlaþing
 
Mýrdalshreppur
 
Rangárþing eystra
 
Rangárþing ytra
 
Skeiða- og Gnúpverjahreppur
 
Eyjafjarðarsveit
 
Hornafjörður
 
Skaftárhreppur
 
Skútustaðahreppur
 
Þingeyjarsveit
 
Borgarbyggð
 
Fljótsdalshreppur
 
Norðurþing

Þau sveitarfélög sem eiga aðild að óstofnuðum Hálendisþjóðgarði eru ekki einhuga í afstöðu sinni. Sum hafna áformunum alfarið eða setja fyrirvara um breytingar á frumvarpinu. Önnur styðja áformin heilshugar.

Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfisráðherra mælti fyrir frumvarpi sínu um stofnun Hálendisþjóðgarðs í byrjun desember. Hann sagði að Hálendisþjóðgarður væri stærsta framlag Íslendinga til náttúruverndar og að þjóðgarðurinn væri mikilvægur fyrir byggðirnar í landinu.

Tuttugu sveitarfélög eiga aðalskipulagsáætlun innan marka þjóðgarðsins.  Fréttastofa óskaði eftir afstöðu þeirra gagnvart áformunum. Auk þess eiga Norðurþing, Flóahreppur og Árborg aðild að þjóðgarðinum vegna upprekstrarréttinda á afrétt og aðkomu í gegnum Vatnajökulsþjóðgarðs. Því eru þau með í þessarri yfirferð.  Flest sveitarfélaganna gefa upp afstöðu sína en þó ekki öll. Afstaða hvers og eins sveitarfélags verður birt við hvert sveitarfélag. Hún byggist í flestum tilfellum á bókunum sveitarstjórna.  Þessi yfirferð einskorðast við afstöðu sveitarfélaga sem eiga aðild að Hálendisþjóðgarði en tekur ekki til annarra sveitarfélaga eða hagsmunafélaga eða samtaka. 

Nú hafa 63 umsagnir borist til umhverfis og samgöngunefndar vegna frumvarpsins. Þær má sjá hér. Frestur til að senda inn umsögn rennur út um mánaðamótin. Meðal þeirra sem sem leggjast gegn áformunum er Samband íslenskra sveitarfélaga sem segir það ótímabært. Landvernd fagnar frumvarpinu auk fleiri félagasamtaka.

Þónokkur félagasamtök og félög og einstaklingar hafa veitt frumvarpinu umsögn eða hyggjast gera það áður en frestur rennur út eftir helgina. Á meðfylgjandi korti hér að ofan var reynt að skýra afstöðu sveitarfélaga sem aðild eiga að þjóðgarðinum. Þau sveitarfélög sem ekki hafa gefið afstöðuna upp eru merkt sem hlutlaus. 

Mynd með færslu
 Mynd: Sigurður Kristján Þórisson - RÚV
Hér má sjá mörk Hálendisþjóðgarðsins á korti.

Grímsnes- og Grafningshreppur

Um miðjan desember bókaði sveitarstjórn Grímsnes- og Grafningshrepps bókun þess efnis að til þess að málið hljóti brautargengi þurfi að skapa um það víða sátt. Það sé það stórt í sniðum að skynsamlegt sé að leiða það til lykta með víðri sátt. 

DCIM\100MEDIA\DJI_0561.JPG
 Mynd: Lögreglan á Suðurlandi

„Af umræðunni um frumvarp umhverfisráðherra um Miðhálendisþjóðgarð má ljóst vera að ekki hefur tekist að vinna málinu það brautargengi sem til þarf, ef skapa á víðtæka sátt um verkefnið. Það er mat sveitarstjórnar Grímsnes- og Grafningshrepps að málefnið um stofnun þjóðgarðs á miðhálendinu sé svo stórt í sniðum að ekki sé skynsamlegt að leiða það til lykta nema um það ríki þjóðarsátt og í því felist tækifæri og ávinningur fyrir komandi kynslóðir. Jafnframt mætti hugsa sér, að það sé einmitt hlutverk komandi kynslóða að leggja mat á þau tækifæri og ákveða sjálfar hvort og hvenær sett verða lög um Miðhálendisþjóðgarð – að fenginni meiri og betri reynslu af starfsemi þeirra þjóðgarða sem þegar eru við lýði, og fylgt hafa misfellur sem nauðsynlegt virðist að jafna. Aðeins þannig er líklegt að umræðan þroskist, hugmyndin þróist og sárin grói eftir þann „utanvegaakstur“ sem stundaður hefur verið í umræðunni um þjóðgarða,“ segir í bókuninni.

Bláskógabyggð

Bláskógabyggð hefur tekið hvað harðasta afstöðu sveitarfélaga gegn stofnun þjóðgarðsins og er andstaða íbúa mikil í sveitarfélaginu. Sveitarstjórn hefur haft sig mikið í frammi í umræðunni og sent frá sér bókanir vegna þjóðgarðsins, seinast nú um miðjan janúar. 

Mynd með færslu
Ásta Stefánsdóttir sveitarstjóri Bláskógabyggðar Mynd: RÚV - Guðmundur Bergkvist

„Sveitarstjórn Bláskógabyggðar hefur á fyrri stigum lýst andstöðu sinn við fyrirhugaðan hálendisþjóðgarð. Sveitarstjórn fellst ekki á það að 64,5% af því landsvæði sem fellur innan sveitarfélagamarka Bláskógabyggðar verði gert að þjóðgarði með því stjórnfyrirkomulagi sem boðað er í fram komnu frumvarpi. Skipulag og stjórnsýsla svæðisins mun færast frá lýðræðislega kjörnum fulltrúum sveitafélagsins, til fulltrúa annarra sveitarfélaga, félagasamtaka og embættismanna. Umsjón, rekstur og ákvörðunartaka er varðar eignir sveitarfélagsins á hálendinu mun færast úr höndum sveitarstjórnar og íbúa sveitarfélagsins til fulltrúa annarra sveitarfélaga, félagasamtaka og embættismanna. Sveitarstjórn hefur ítrekað bent á að ekki liggur fyrir greining og samanburður á rekstri þjóðgarða annars vegar og þjóðlendna hinsvegar. Aldrei í ferlinu hefur af hálfu umhverfisráðherra verið bent á vankanta núverandi kerfis þjóðlendulaganna, hvort sem litið er til þjóðhagslegrar hagkvæmni eða náttúruverndar,“ segir í bókun sveitarstjórnar.

Í hlekknum hér má einnig lesa athugasemdir sveitarstjórnarinnar við einstaka atriði frumvarpsins.

Sveitarstjórn hefur ítrekað bent á að ekki liggur fyrir greining og samanburður á rekstri þjóðgarða annars vegar og þjóðlendna hinsvegar. Aldrei í ferlinu hefur af hálfu umhverfisráðherra verið bent á vankanta núverandi kerfis þjóðlendulaganna hvort sem litið er til þjóðhagslegrar hagkvæmni eða náttúruverndar. Því má leiða líkur að því að raunverulegur tilgangur með stofnun hálendisþjóðgarðs og Þjóðgarðastofnunar sé að færa völd yfir stórum hluta landsins á fáar hendur, ráðherra og embættismanna. Sveitarstjórn telur það ekki góða þróun að sífellt fleiri ákvarðanir er varða hagsmuni og samfélagsgerð sveitarfélaga séu háðar samþykki embættismanna og starfsmanna ríkisstofnana. Þá telur sveitarstjórn að það sé langt frá því að vera skynsamlegt að stofnaðar verði nýjar ríkisstofnanir af þessari stærðargráðu á þeim tímum sem við nú lifum. Ætla má að stofnun þjóðarðs á hálendinu og ný ríkisstofnun, Þjóðgarðastofnun, útheimti gríðarlega fjármuni ef vel á að vera og það verður að teljast gagnrýnivert að ekki liggi fyrir ítarleg fjármálaáætlun er varðar málefnið. Í skýrslu þverpólitísku nefndarinnar kom fram að ítarleg fjármögnunaráætlun sem taki til uppbyggar og reksturs innviða þyrfti að fylgja frumvarpi um þjóðgarðinn, sveitarstjórn hefur ekki séð slíka áætlun. Þá verður það að teljast umhugsunarvert að á sama tíma og mikill rekstrarvandi blasir við núverandi þjóðgörðum telji ráðuneytið sem fer með málaflokkinn það skynsamlegt setja tæp 40% af Íslandi undir slíkt rekstrarform.

Þá bendir sveitarstjórn á að fjölmörg ný svæði hafa verið friðlýst á sl árum sem kalla á mikið fjármagn. Mikilvægt er að þeim friðlýsingum fylgi nægt fjármagn ef friðlýsingin á að þjóna tilgangi sínum. Sveitarstjórn Bláskógabyggðar hvikar hvergi frá fyrri bókunum sínum og leggst alfarið gegn stofnun þjóðgarðs á hálendinu. Sveitarstjórn skorar á önnur sveitarfélög í landinu að gera slíkt hið sama og sýna þannig samstöðu í að standa vörð um sveitarstjórnastigið og lýðræðislegan rétt íbúa til að hafa áhrif á og koma að ákvörðunum er varða sitt nærumhverfi.“ segir í bókuninni.

Sveitarstjórnin tekur fram í svari sínu að þau séu ekki á móti náttúruvernd, heldur telji að „núverandi fyrirkomulag, sem byggir á þjóðlendulögum og góðu samstarfi við forsætisráðuneytið sem fer með þann málaflokk, sé fyrirkomulag sem henti vel og sátt hafi náðst um. Sveitarstjórn er andvíg því að stjórnun og skipulags svæðisins færist frá því að vera í höndum sveitarfélagsins, til annarra sveitarfélaga, fulltrúa frjálsra félagasamtaka (sem skortir lýðræðislegt umboð) og embættismanna ríkisins. “

Hrunamannahreppur

Í Hrunamannahreppi eru skiptar skoðanir á milli sveitarstjórnarfulltrúa. Þrír fulltrúar leggjast gegn áformunum og þar með meirihluti sveitarstjórnar en tveir fulltrúar eru fylgjandi. Í desemberbyrjun bókaði sveitarstjórnin eftirfarandi:

Mynd með færslu
 Mynd: Ásdís Olsen

„Afstaða Sigurðar Sigurjónssonar, Bjarneyjar Vignisdóttur og Jóns Bjarnasonar sveitarstjórnarfulltrúa í Hrunamannahrepppi og þar með meirihluti sveitastjórnar um frumvarp Umhverfisráðherra um stofnun Hálendisþjóðgarðs. Afstaða okkar er skýr, við leggjumst gegn frumvarpi umhverfisráðherra um Hálendisþjóðgarð,“ segir í svarinu. 

Afstaða þeirra þriggja er svipuð og sveitarstjórnar Bláskógabyggðar, það er að segja að sátt sé um lög um þjóðlendur, og að málið hafi ekki verið unnið með réttum hætti og „alls ekki í sátt við sveitarfélög og alla þá fjölmörgu hópa sem sýnt hafa hálendinu áhuga með viðkomu, uppbyggingu, eða allri þeirri starfsemi sem nú er viðhöfð. Að vinna eigi málið á þessum hraða í gegnum þing og þjóð þegar málið hefur aldrei fengið þinglega meðferð og því hefur Alþingi aldrei lagt línurnar um hvernig fyrirhugaður þjóðgarður ætti að taka mið af. Ráðherra hefur vissulega fundað með fulltrúum sveitarfélaga en lítið sem ekkert hlustað á athugasemdir þeirra. Það samráð sem ráðherra hefur sýnt við málið hefur því mistekist og því miður hefur ráðherra aukið ágreining milli aðila. Hraði málsins og aðferðafræði við málið á vegum hins opinbera er fordæmalaus,“ segir í bókuninni.

Afstaða Halldóru Hjörleifsdóttur og Kolbrúnar Haraldsdóttur er eftirfarandi: „Við erum hlynntar Hálendisþjóðgarði á grundvelli eftirtöldum rökum: Við teljum mikil tækifæri fólgin í stofnun Hálendisþjóðgarðs. Það myndi styrkja hinar dreifðari sveitir landsins og aukin atvinnutækifæri með tilheyrandi jákvæðum áhrifum inn í samfélögin. Verkefninu myndi fylgja aukin náttúruvernd og umsjón með viðkvæmum svæðum, uppbygging innviða og stýring á álagi. Við teljum að stofnun Hálendisþjóðgarðs útiloki ekki þá vinnu sem mörg sveitarfélög hafa unnið á hálendinu, heldur myndi efla þá vinnu enn frekar.  Miklar endurbætur hafa verið gerðar á frumvarpi um Hálendisþjóðgarð síðan það kom fyrst fram  í kjölfar samtals milli umhverfisráðuneytis og sveitarfélaga. Að nokkru hefur verið  komið á móts við athugasemdir sveitarfélaga m.a. að skipulagsmálin verði áfram í þeirra höndum og hefur það að okkar mati fengið góða lendingu í frumvarpinu. Við teljum að með stofnun Hálendisþjóðgarðs sé náttúrunni best borgið á heildina litið þar sem skapast yfirsýn og samræming á verkferlum og vinnubrögðum hringinn í kringum landið,“ segir í áliti þeirra.

Skeiða- og Gnúpverjahreppur

Líkt og í Hrunamannahreppi er sveitastjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps ekki á einu máli í afstöðu sinni gagnvart þjóðgarðinum. Einn fulltrúi leggst alfarið gegn áformunum, einn fulltrúi styður þau en þrír fulltrúar styðja þau en segja að of hratt sé farið og segja að málið sé ekki tímabært.

Mynd með færslu
 Mynd:

Í byrjun desember lögðu fulltrúar sveitarstjórnar, Björgvin Skafti Bjarnason oddviti, Einar Bjarnason og Matthías Bjarnason, fram eftirfarandi bókun:

„Við styðjum hugmynd um Hálendisþjóðgarð og teljum felast í því mörg tækifæri ef vel er að verki staðið og þokkaleg sátt náist um málið. Þó er að okkar viti of hratt farið og teljum að við  séum ekki tilbúin í stofnun Þjóðgarðs að svo stöddu. Þetta þarfnast mikið meiri undirbúnings og sameiginlegrar vinnu með sveitarstjórnum og hagsmunaaðilum um land allt,“ segir í bókun þeirra.

Anna Sigríður Valdimarsdóttir lagði fram eftirfarandi bókun: „Ég styð frumvarp um Hálendisþjóðgarð og tel það framfaraskref í nýtingar- og verndunarstefnu fyrir hálendi Íslands. Ég tel að þjóðgarðurinn eigi að tryggja jafnvægi milli nýtingar og verndunar, stuðla að enn frekari endurheimt vistkerfa og samræmi í uppbyggingu þeirra innviða sem útivist og ferðaþjónusta krefst innan þess svæðis. Hefðbundnar nytjar, svo sem búfjárbeit, eiga að vera tryggðar áfram svo fremi sem téð nýting sé sjálfbær. 

Þá kemur stofnun Hálendisþjóðgarðs til með að dreifa fjölbreyttum störfum um landsbyggðina á jaðri hans sem hlýtur að teljast styrkur fyrir viðkomandi sveitarfélög.  Í ljósi ofangreinds, sé ég mörg tækifæri við stofnun Hálendisþjóðgarðs, hvort sem er fyrir aðildarsveitarfélögin eða þjóðina alla.“

Ingvar Hjálmarsson lagði fram svohljóðandi bókun: „Ég er alveg á móti þessum stóru hugmyndum um Miðhálendisþjóðgarð. Hef áður bókað um það hér á fundi sveitarstjórnar. Þetta er að mínu viti of hratt farið og ég tel að við  séum ekki tilbúin í stofnun þjóðgarðs að svo stöddu. Þetta þarfnast mikið meiri undirbúnings og sameiginlegrar vinnu með sveitarstjórnum og hagsmunaaðilum um land allt.“

Sveitarfélagið Árborg

Árborg á ekki land að þjóðgarðinum en er aðili að þjóðgarðinum vegna upprekstrarréttinda innan marka hans. Bæjarráð tók afstöðu til málsins á fundi sínum nú um miðjan janúar. Þar er tekin afstaða gegn áformunum. Í bókuninni segir:

„Bæjarráð Svf. Árborgar telur að frumvarp til laga um Hálendisþjóðgarð sé ekki tilbúið til afgreiðslu eins og það liggur fyrir nú. Hér er um að ræða stórt og viðamikið mál sem þarfnast mun meira samráðs svo tímabært sé að taka ákvörðun um stofnun þjóðgarðs á hálendinu. Bæjarráð telur ekki ásættanlegt að skipulagsvald sveitarfélaga skerðist, enda eitt öflugasta verkfæri sveitarfélaga og íbúa þeirra til þess að hafa áhrif á þróun byggðar og landnotkun. Með tilliti til aðkomu sveitarfélaganna að málefnum miðhálendisins, þekkingar þeirra og nálægðar, þjónar það ekki hagsmunum sveitarfélaganna að fella 30-40% af landinu öllu undir miðstýringarvald ríkisins.“ segir í bókuninni.

Þá segir jafnframt að bæjarráðið óttist að verði frumvarpið að lögum muni skipulagsvaldið flytjast yfir til stjórnar Þjóðgarðsstofnunar.

„...sem þá kemur til með að stýra og fjalla um þætti eins og landnýtingu og mannvirkjagerð, auk annara innviða, án aðkomu sveitarfélaga. Ennfremur telur bæjarráð að heppilegra hefði verið að stofna til samtals við einstök sveitarfélög varðandi frekari þörf á vernd hálendisins. Ef sú leið hefði verið valin væri auðveldara að meta kosti og galla einstakra friðlýsingarmöguleika eða útfærslur þjóðgarðs á hluta umrædds svæðis. Bæjarráð telur einnig mikla óvissu ríkja um fjármögnun verkefnisins og því raunveruleg hætta á að ekki takist að byggja upp innviði þjóðgarðsins svo sómi sé að,“ segir í bókuninni.

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Þór Ægisson - RÚV

Flóahreppur

Flóahreppur líkt og Árborg á aðild að Hálendisþjóðgarðinum vegna upprekstrarréttinda á afrétt innan þjóðgarðsmarka. Sveitarstjórn ræddi afstöðu sína á fundi þann 12. janúar. Sveitarstjórnin er hlynnt því að vernda náttúruna en hefur þó ýmsar athugasemdir við meðferð málsins. 

„Sveitarstjórn Flóahrepps leggur áherslu á að gæta þarf að þeirri auðlind sem hálendið er. Náttúran er takmörkuð auðlind sem ber að fara vel með. Stofnun þjóðgarðs eykur líkur á auknum fjölda ferðamanna um svæðið og ekki er fyrirséð að nægilegt fjármagn fylgi verkefninu til þess að tryggja uppbyggingu innviða og starfsmannahald í samræmi við aukið umfang. Sveitarstjórn Flóahrepps hefur ákveðnar efasemdir um það fyrirkomulag sem kynnt er í frumvarpinu. Hætt er við að fyrirkomulag stjórnsýslunnar verði þunglamalegt og seinvirkt. Sveitarstjórn hefur efasemdir um það fyrirkomulag að einum aðila, í þessu tilfelli sitjandi umhverfisráðherra hverju sinni, sé afhent vald til þess að taka ákvarðanir og veita starfsleyfi sem mögulega geta verið þvert gegn vilja og andstætt ákvörðunum lýðræðislega kjörinna fulltrúa sveitarfélaga eða félagasamtaka. Eins leggur sveitarstjórn mikla áherslu á samráð og víðtæka sátt um setningu reglugerða í tengslum við stofnun og rekstur hálendisþjóðgarðs. Gerður er fyrirvari um að áhrifasvæði þjóðgarðsins nái út fyrir skilgreind þjóðgarðsmörk og setji þannig hömlur á framkvæmdir og aðra starfsemi utan þjóðgarðs. Bókunin er samþykkt með 5 atkvæðum,“ segir í fundargerð sveitarstjórnarfundar frá 12. janúar 2021. 

Ásahreppur

Í nýjustu bókun hreppsnefndar er gerð grein fyrir andstöðu við þjóðgarðinn. Hreppsnefnd Ásahrepps ályktaði um málið á fundi sínum um miðjan desember og lagði fram eftirfarandi:

Mynd með færslu
 Mynd: Bjarni Rúnarsson - RÚV

„Hreppsnefnd Ásahrepps mótmælir fyrirliggjandi frumvarpi um Hálendisþjóðgarð og skorar á Alþingi að vísa þessu þingmáli frá. Hreppsnefnd Ásahrepps getur engan veginn fallist á að svo stór hluti sveitarfélagsins verði gerður að þjóðgarði. Hreppsnefnd Ásahrepps getur ekki fallist á að skipulagsvald og stjórnsýsla svæðisins færist frá hinum lýðræðislega kjörnu fulltrúum sveitarfélagsins til fulltrúa annarra sveitarfélaga, félagasamtaka og embættismanna. Það hefur sýnt sig að undanförnu hvernig getur farið, s.s. vinnubrögð og ákvarðanir sem nýlega hafa verið uppi á borðum Vatnajökulsþjóðgarðs. Þar er vísað til hugmynda um opnun umferðar vélknúinna ökutækja inn í Vonarskarð. Í því máli hefur umdæmisráð og stjórn gengið þvert á gildandi aðalskipulag Ásahrepps og hunsað vilja hreppsnefndar Ásahrepps.  Þar sem þetta mál er í gerjun þessa dagana, er enginn trúverðugleiki í huga hreppsnefndar Ásahrepps að virða skuli skipulagsvald sveitarfélaga. Slíkar yfirlýsingar eru hjómið eitt,“ segir í bókuninni. 

Mynd með færslu
 Mynd: Hólmfríður Dagný Friðjónsd - RÚV

Rangárþing ytra

Sveitarstjórn Rangárþings ytra hefur í þrígang sent inn umsagnir um málið, en nýjasta bókun þeirra er frá því í byrjun árs 2020. Samkvæmt svari frá sveitarstjóra eiga þau svör enn við. Í byrjun árs var bent á að „almennt sé ekki nægjanleg samstaða um að stofnað skuli yfir höfuð til þjóðgarðs sem nær yfir allt miðhálendi Íslands. Það sé því enn nokkuð í land að samhljómur sé hjá landsmönnum um slíka aðgerð og greina þurfi betur hverju slíkur allsherjar þjóðgarður, fyrir stóran hluta Íslands, skili þjóðinni. Við höfum því mælst til þess að málið verði rætt frekar og greint áður en lengra verður haldið. Þessi sjónarmið komu afar sterkt fram á fjölmennum fundum sem umhverfisráðherra hélt. Nær allir sem tóku til máls á fjölmennum fundi umhverfisráðherra á Hvolsvelli lýstu yfir efasemdum um málið eða töluðu mjög ákveðið gegn því að stofnaður yrði hálendisþjóðgarður. Það er því langur vegur frá því að sátt sé um málið á þessu stigi hér um slóðir,“ segir í svari Rangárþings ytra.

Mynd með færslu
 Mynd: Þór Ægisson - RÚV

Rangárþing eystra

Hið sama má segja um Rangárþingi eystra, það er að segja að sveitarstjórn hefur ekki gert bókun um málið frá því að frumvarpið var í samráðsferli. Afstaða sveitarfélagsins er hins vegar óbreytt og segir í umsögn þeirra að sveitarstjórn meti það sem svo að enn sé mörgum spurningum ósvarað varðandi fyrirkomulag og útfærslu við stofnun Hálendisþjóðgarðs og leggst hún því alfarið gegn stofnun hans að svo stöddu. Kallað er eftir því að málið verði betur útfært í miklu og góðu samráði við sveitarfélög og hagsmunaaðila. Þá undrar sveitarstjórn sig á þeim hraða sem á að vera á afgreiðslu málsins.

Mynd með færslu
 Mynd:

„Auk þess ber að geta þess að öll sveitarfélög á starfssvæði Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga vinna nú að semeiginlegu svæðissipulagi fyrir miðhálendið og er eðlilegt að horfa til þeirrar vinnu sem þar fer fram,“ segir í svari sveitarstjóra. 

Mýrdalshreppur

Sveitarstjórn Mýrdalshrepps leggst einnig gegn áformum um stofnun Hálendisþjóðgarðs í núverandi mynd og segir það bjóða upp á of mikla miðstýringu. Sveitarstjórn leggur til eftirfarandi breytingar á frumvarpinu:

Mynd með færslu
 Mynd: Orri Örvarsson - RÚV

Efni stjórnunar- og verndaráætlunar verði ekki háð reglugerð frá ráðherra heldur verði meginmarkmið hennar betur skilgreind í lögunum og endanleg útfærsla á hendi umdæmisráða.

  • Tryggt verði að ekki verði settar reglur um takmörkun á umferð nema til komi samþykki þess sveitarfélags sem fer með skipulagsvald á svæðinu.
  • Ekki verði innheimt gjöld innan þjóðgarðs án samráðs við það sveitarfélag sem fer með skipulagsvald á svæðinu og ef til slíkrar gjaldtöku kemur skal í það minnsta helmingur alls þess fjár renna til sveitarfélagsins.
  • Lögin verði orðuð þannig að svigrúm verði til þess að atvinnustefna þjóðgarðsins taki mið af ólíkum aðstæðum innan hans. Í því samhengi er nauðsynlegt að hafa í huga að óvíst er að sömu sjónarmið gildi um starfsemi sem rekin er á jöðrum þjóðgarðsins og hins vegar á hinu eiginlega hálendi Íslands.

Þetta segir í svari sveitarstjórnar við fyrirspurninni.

Skaftárhreppur

Í Skaftárhreppi eru skiptar skoðanir meðal sveitarstjórnarmanna. Eva Björk Harðardóttir, Jóna Björk Jónsdóttir og Heiða Guðný Ásgeirsdóttir styðja áformin og lögðu fram eftirfarandi bókun á fundi sveitarstjórnar í byrjun desember:

„Vegna reynslu okkar af Vatnajökulsþjóðgarði síðastliðin 12 ár í sveitarfélaginu fögnum við vinnu við frumvarp um hálendisþjóðgarð. Ávinningur þjóðgarðs og friðaðra svæða hefur sannað gildi sitt fyrir Skaftárhrepp í formi aukins hagvaxtar fyrir fyrirtæki og íbúa, stýringar og innviðauppbyggingar á tímum sem sveitarfélagið hefur haft fullt í fangi með sín lögboðnu verkefni. Með góðu samtali og samvinnu teljum við að þessi tvö stjórnsýslustig geti staðið mynduglega að friðun og uppbyggingu á dýrmætustu perlum okkar Íslendinga til framtíðar,“ segir í bókun þeirra.

Mynd með færslu
 Mynd: Lára Ómarsdóttir - RÚV

Bjarki Gunnarsson og Katrín Gunnarsdóttir telja það hins vegar ekki forsvaranlegt að leggja frumvarpið fram og segja að víðtæk sátt þurfi að vera mál sem tekur stóran hluta landsins undir þjóðgarð. 

Sveitarfélagið Hornafjörður

Hornfirðingar virðast hlynntir áformunum ef marka má umsögn sem sveitarstjórn sendi inn í janúar um drög að frumvarpinu. Í umsögninni er meðal annars vísað til þess að Vatnajökulsþjóðgarður sé mikilvægur sveitarfélaginu og ein af lykilástæðum þess að ferðamönnum hafi fjölgað mikið þar. 

Mynd með færslu
 Mynd: Þorsteinn Roy Jóhannsson - Aðsend mynd

„Það er mikilvægt fyrir sveitarfélagið að geta haft áhrif á starfsemi þjóðgarðsins með setu í stjórn og svæðisráði og haft þannig áhrif á stýringu á svæðinu og fjárhag þjóðgarðs í héraði. Það er alveg ljóst að Vatnajökulsþjóðgarður hefur verið undirfjármagnaður frá stofnun hans. Innviðir í Skaftafelli og Jökulsárlóni eru löngu sprungnir og því mikilvægt að hraða uppbyggingu þar,“ segir meðal annars. 

Þá segir jafnframt: 

„Markmið Hálendisþjóðgarðs eru í samræmi við núverandi markmið Vatnajökulsþjóðgarðs og tekur sveitarfélagið undir þau markmið og ekki síst það markmið að efla samfélag og styrkja byggð og atvinnustarfsemi í nágrenni þjóðgarðsins sem er 6. markmið þjóðgarðsins. Sveitarfélagið Hornafjörður hefur lagt á það áherslu að heimilt verði að beita þessu markmiði við leyfisveitingar þegar farið verður að beita atvinnustefnunni í þjóðgarðinum.“ 

Fljótsdalshreppur

Sveitarstjórn hefur ekki opinberað afstöðu sína til málsins, en sagði í svari sínu við fyrirspurn að  umsögn um frumvarpið yrði unnið á næstu vikum. Jóhann Frímann Þórhallsson oddviti Fljótsdalshrepps segir í samtali við fréttastofu að skiptar skoðanir séu um málið og að hann sé ekki andvígur hugmyndinni um þjóðgarð, en að vanda þurfi til verka. Þá séu allir hlynntir því að vernda hálendið og náttúruna, en það sé ekki sama hvernig það sé gert. Það geti líka falist tækifæri í frumvarpinu en sveitarstjórn hyggst senda inn umsögn við frumvarpið fyrir næstu mánaðamót. Hún hefur ekki borist enn.

Mynd með færslu
 Mynd: Landsnet - Á Fljótsdalsheiði

Múlaþing

Sveitarstjórn Múlaþings tók málið fyrir á fundi sínum í seinustu viku. Sveitarstjórnin leggst gegn áformunum en Jódís Skúladóttir, fulltrúi VG í sveitarstjórn styður áformin.Hildur Þórisdóttir, fulltrúi L lista, sat hjá við atkvæðagreiðsluna. 

Sveitarstjórnin tekur undir markmið frumvarpsins um verndun náttúru, sögu, bætt aðgengi almennings, eflingu rannsókna, aukið samstarf og eflingu og styrkingu byggða og atvinnulífs.

„Það er hins vegar mat sveitarstjórnar að stofnun þjóðgarðs í þeirri mynd sem gert er ráð fyrir í frumvarpinu sé ótímabær og lýsir sveitarstjórn því andstöðu sinni við að það verði samþykkt.
Sveitarstjórn telur að með stjórnunar- og verndaráætlunum þjóðgarða sé of langt gengið í því að takmarka skipulagsvald sveitarfélaga. Þó svo að meirihluti fulltrúa í umdæmisráðum komi úr sveitarfélögum á viðkomandi rekstrarsvæði þá er eftir sem áður gert ráð fyrir því að fulltrúar annarra sveitarfélaga og félagasamtaka geti tekið bindandi skipulagsákvarðanir innan sveitarfélags þó svo að fulltrúar þess sveitarfélags leggist gegn því.
Þá telur sveitarstjórn að þó að reynsla af rekstri Vatnajökulsþjóðgarðs sé um margt ágæt, þá sé langur vegur frá því að ríkisvaldið hafi fjármagnað starfsemi hans með fullnægjandi hætti eða staðið við þau fyrirheit um uppbyggingu innviða sem fylgja áttu í kjölfar stofnunar hans. Að mati sveitarstjórnar Múlaþings er það ærið og metnaðarfullt verkefni að byggja Vatnajökulsþjóðgarð upp með fjölgun starfa og auknum tækifærum í atvinnustarfsemi. Ekki verður séð að það hjálpi til við það verkefni að láta hann falla inn í ennþá stærri þjóðgarð.

Þá er einnig bent á að styrking flutningskerfis raforku sé mikilvægt verkefni til að styðja atvinnuuppbyggingu og byggðaþróun á Austurlandi. Flutningslínur þurfi að fara í gegnum  svæði innan þjóðgarðs og að nauðsynlegt sé að gera ráð fyrir þeim möguleika í regluverki sem gildir um þjóðgarða á því svæði.

„Sveitarstjórn Múlaþings vill og benda á að allt það land sem ekki er þegar friðlýst og stefnt er á að verði innan hins nýja þjóðgarðs eru þjóðlendur sem íslenska ríkið fer þegar með forræði á. Vekur sveitarstjórn sérstaklega athygli á því að enn hefur ekki verið fjallað um þjóðlendumörk innan miðhálendislínu í Suður-Múlasýslu og því er nokkur óvissa um fyrirhuguð þjóðgarðsmörk á því svæði. Í ljósi þess að ríkið hefur nú þegar forræði á megninu á því landi sem um ræður telur sveitarstjórnin hins vegar nærtækt að ríkisvaldið setji aukinn kraft í umsjón þessara landsvæða og minnir á að stofnun þjóðgarðs er ekki forsenda þess að ná þeim markmiðum sem greint er frá hér að framan heldur megi vinna að uppbyggingu innviða og jafnvel skipuleggja landvörslu á þeim svæðum þar sem þörf er á slíku á grundvelli gildandi laga um náttúruvernd. Þetta telur sveitarstjórn Múlaþings að sé vænleg leið til að auka traust á hugmyndinni um þjóðgarð á miðhálendinu, en eins og öllum má vera ljóst þá eru þau áform umdeild og deilur og andstaða eru sjaldnast heppilegt veganesti fyrir stórverkefni á borð við þetta sem samkvæmt uppleggi sínu eiga að vera þjóðinni allri til hagsbóta,“ segir í bókuninni.

Tillagan var samþykkt með 9 atkvæðum en 1 var á móti og 1 sat hjá.
Jódís Skúladóttir lagði fram eftirfarandi bókun:
VG í Múlaþingi hafnar þeirri bókun sem lögð er fram og telur hana bæði byggja á rangfærslum og ekki til þess fallna að koma þeim sjónarmiðum og áhyggjum sem íbúar sveitarfélagsins hafa um Hálendisþjóðgarð né sé hún til þess fallin að skapa sátt um málið. Fagleg yfirferð og beinar tillögur að úrbótum á frumvarpinu hefðu skilað sveitarfélaginu sterkari stöðu og þannig stutt við innviði samfélagsins.

Mynd með færslu
 Mynd: Aðsend mynd: Skúli Björn Gunn - RÚV

Norðurþing

Norðurþing er eitt þeirra sveitarfélaga sem á óbeina aðild að Hálendisþjóðgarði vegna aðkomu sinnar í gegnum Vatnajökulsþjóðgarð, en hluti hans er innan marka Norðurþings. Byggðaráð Norðurþings óskaði á fundi sínum fyrr í janúar eftir að sveitarstjórn sendi inn umsögn um málið. Sveitarstjórn tók málið fyrir á fundi sínum í seinustu viku. Sveitarstjórnin tekur undir markimið frummvarpsins um að verndun náttúru og sögu, og kallar eftir því að breið samstaða verði um málið.

Bókun sveitarstjórnar Norðurþings er svohljóðandi:

„Sveitarstjórn Norðurþings telur nauðsynlegt að um hálendisþjóðgarð ríki breið samstaða þegar frumvarp til slíkra laga er samþykkt. Sveitarstjórn tekur undir þau markmið sem sett eru fram í 3. gr. frumvarps um hálendisþjóðgarð, þar sem m.a. kemur fram að lögð sé áhersla á verndun náttúru og sögu, bætt aðgengi almennings, eflingu rannsókna, aukið samstarf og eflingu og styrkingu byggða og atvinnulífs. Vaxandi umsvif hafa fylgt þjóðgarðsstarfsemi í Norðurþingi undanfarin ár, einkum í Ásbyrgi og við Jökulsárgljúfur, sem nú teljast innan Vatnajökulsþjóðgarðs en myndu færast undir Hálendisþjóðgarð við samþykkt frumvarpsins. Hálendisþjóðgarður getur orðið mikilvæg undirstaða atvinnusköpunar í dreifðum byggðum umhverfis garðinn, þar á meðal innan Norðurþings. Vakin er athygli á því að í skýrslu þverpólitískrar nefndar er gengið út frá því að við Ásbyrgi verði ein af þjóðgarðsgáttum Hálendisþjóðgarðsins. Þá er bent á að tækifæri kunna að liggja í uppbyggingu þjónustu og innviða fyrir þjóðgarðinn við Grímsstaði á Fjöllum og nærliggjandi svæði innan Norðurþings nærri mörkum þjóðgarðs og hálendisins. Sveitarstjórn telur að reynsla af rekstri Vatnajökulsþjóðgarðs sé um margt ágæt, sérstaklega allra síðustu ár. Þó hefur framan af skort verulega á að fjármagn hafi fylgt nauðsynlegri starfsemi og uppbyggingu innviða sem nauðsynlegt er að bæta úr til frambúðar svo efla megi traust á að þjóðgarðurinn standi undir nafni.

Það er til mikils unnið að góð sátt ríki á sveitarstjórnarstiginu um þá leið sem farin verði og að skipulagsvald sveitarfélaga verði virt innan áformaðs Hálendisþjóðgarðs. Lykilatriði er að sveitarfélög séu ekki í einu og öllu bundin af stjórnunar- og verndaráætlun garðsins og þurfa ekki að taka allt sem þar kæmi fram inn í skipulag sveitarfélags. Þegar frumvarp sem hefur áhrif á það hvernig jafn stórum hluta landsins verði stjórnað og hvernig vernd innan svæðisins verður háttað þarf að tryggja sameiginlegan skilning á því að ekki sé verið að útiloka til framtíðar ákveðna uppbyggingu nauðsynlegra innviða þjóðarinnar m.t.t. raforkuflutninga og veglagningar sérstaklega. Þjóðhagslega mikilvæg mannvirki er tengjast sjálfbærri orkunýtingu eru á hálendinu og nauðsynlegt að þau geti áfram nýst með eðlilegum hætti og að orkunýting og flutningur samræmist áætlunum Alþingis þar um,“ segir í bókuninni.

Þrír fulltrúar Frammsóknar í sveitarstjórn bættu við bókunina og taka þar undir fyrirvara þingflokks Frammsóknarflokks sem lúta að stæðarmörkum, valdsviði umdæmisráða, fjármögnun og fleiri atriða.

„Sveitarstjórn Norðurþings sér ýmis tækifæri sem felast í formun hálendisþjóðgarðs til framtíðar. Undirrituð leggja á það áherslu að í meðförum þingsins verði leitað allra leiða til að ná þverpólitískri samstöðu um málið eins og starfshópur um miðhálendisþjóðgarð lagði upp með í skýrslu sinni. Undirrituð vilja taka undir fyrirvara sem þingflokkur Framsóknarflokks gera við frumvarp um miðhálendisþjóðgarð. Fyrirvaranir lúta að stærðarmörkum, valdsviði umdæmisráða, fjármögnun uppbyggingar, hefðbundnar nytjar, samgöngum, orkunýtingu, samtali um sátt auk reglugerðar um sjálfbæra beit og ábyrgð mismunandi stofnana ríksins. Það er mikilvægt að vandað sé til verka um jafn stórt og mikilvægt mál og þetta er fyrir land og þjóð. Það er til mikils að vinna að flýta sér hægt til að ná sem breiðastri samstöðu um málið.
Virðingafyllst, Bergur Elías Ágústsson, Hjálmar Bogi Hafliðason, Hrund Ásgeirsdóttir,“

Fulltrúi V-lista Kolbrún Ada bókaði sérstaklega um málið og lýsir afstöðu sinni svo:
„Málefni þjóðgarða hafa verið meðal áhersluefna V-lista innan meirihluta Norðurþings á síðustu árum. Auk náttúrverndar hefur mikill árangur náðst í starfseminni sjálfri undanfarið, m.a. með eflingu starfsemi innan Norðurþings, fjölgun starfsfólks, aukinni þjónustu og umtalsverðri fjárfestingu í innviðum. Full ástæða er til að ætla að tilkoma Hálendisþjóðgarðs muni hafa enn frekari jákvæð áhrif á samfélagslega þætti og rekstur innan Norðurþings,“ segir í bókun Kolbrúnar Ödu Gunnarsdóttur.
 

Mynd með færslu
 Mynd: Einar Rafnsson - RÚV

Skútustaðahreppur

Sveitarstjórn Skútustaðahrepps veitti umsögn þegar drög að frumvarpinu voru kynnt í byrjun árs og aftur nú í lok janúar 2021. Sveitarstjórnin er jákvæð í garð fyrirætlana um stofnun þjóðgarðs.

Mynd með færslu
 Mynd: Bjarni Rúnarsson - RÚV

Hluti Vatnajökulsþjóðgarðs er innan Skútustaðahrepps, og í lögum um Vatnajökulsþjóðgarð frá árinu 2007 er gert ráð fyrir að meginstarfsstöðvar Vatnajökulsþjóðgarðs skuli staðsettar í Ásbyrgi, Mývatnssveit, Skriðuklaustri, Hornafirði, Skaftafelli og Kirkjubæjarklaustri. Ríkið keypti nýverið húsnæði í Mývatnssveit sem ætlað er undir slíka starfstöð í Mývatnssveit. Í umsögn sveitarfélagsins sem send var inn fyrir helgi segir:

„Vísað er til fyrri um sagna sveitarfélagsins við vinnslu málsins. Sveitarstjórn Skútustaðahrepps er sem fyrr jákvæð gagnvart stofnun slíks þjóðgarðs og tekur undir þau sjónarmið sem fram koma um markmið Hálendisþjóðgarðs í 3. grein frumvarpsins. I fyrri umsögnum var meðal annars bent á áhyggjur sveitarstjórnar þess efnis að yrði frumvarp tillaga um Hálendisþjóðgarð að lögum yrði ekkert af fyrirhugaðri uppbyggingu gestastofu Vatnajökulsþjóðgarðs í Mývatnssveit líkt og lög um Vatnajökulsjóðgarð nr. 60/2007 kveða á um. Nú hefur það mál verið leyst með kaupum ríkisins á heppilegu húsnæði og því fagnar sveitarstjórn Skútustaðahrepps að komið hafi verið til móts við þær áhyggjur. Í fyrri umsögnum benti sveitarstjórn Skútustaðhrepps á mikilvægi þess að skipulagsvald sveitarfélaga yrði á engan hátt skert og lýsir ánægju sinni með breytingar á frumvarpinu í þá veru, en afar mikilvægt er að skipulagsvald sveitarfélaga verði virt og á engan hátt skert. Samspil skipulagsáætlana sveitarfélaga og stjórnunar- og verndaráætlunar verður að vera með þeim hætti að sátt ríki þar um. Því tengt má velta því fyrir sér hvort heppilegra væri að fjalla um stjórnunar- og nýtingaráætlanir og vísa þar til þess að vernd er aðeins eitt form landnýtingar til lengri tíma. Áætlanirnar myndu þannig fjalla um með hvaða hætti væri skynsamlegast að nýta land í þeim skilningi. Starfsemi Vatnajökulsþjóðgarðs hefur haft jákvæð áhrif á mannlíf og atvinnulíf í Skútustaðahreppi og engin ástæða til að ætla annað en að svo verði einnig komi til þess að Hálendisþjóðgaður verði stofnaður, takist vel til. Önnur mikilvæg atriði sem áður hefur verið bent á auk viðbóta:

-Mikilvægt er að tryggja fjármagn til starfsemi og rekstrar Hálendisþjóðgarðsins, ekki síst svo fulltrúar sveitarfélaganna sem sitja í svæðisráðum fái greidd laun fyrir stjórnarsetu en til þessa hafa sveitarfélögin borið kostnaðinn af stjórnarsetunni. Slíkt fyrirkomulag er nauðsynlegt þegar sett er upp jafn viðamikið stjónkerfi og lagt er upp með.

- Löng hefð er fyrir nýtingarétti á miðhálendinu eins og veiðirétti og upprekstrarrétti. Mikilvægt er að svo verði áfram svo sátt náist um starfsem i þjóðgarðsins.

- Löng hefð er fyrir minka- og refaeyðingu og vargeyðingu í Mývatnssveit til að vernda lífríki náttúrunnar eins og kveðið er á um í stjórnar- og verndaráætlun Mývatns og Laxár. Ekkert er minnst á þetta í frumvarpinu. Mikilvæ gt er að minka-, refa- og vargeyðing verði áfram heimil svo sátt náist um starfsemi þjóðgarðsins.

- Tillögur að helstu áherslum í atvinnustefnu og greining tækifæra með stofnun þjóðgarðs á byggðaþróun og atvinnulíf á eftir að útfæra og þarf að gerast í samráði við sveitarfélögin. Það á einnig við um verndar- og nýtingaáætlun.

- Enginn virkjunarkostur í Skútustaðahreppi fellur innan afmörkunar miðhálendislínununnar sem er í nýtingaílokki en Hrúthálsar eru í biðflokki. Engu að síður er mikilvægt að benda á að nýting endurnýjanlegrar orku á hálendinu getur skipt máli fyrir þjóðarhag. Mikilvægt er að miðhálendisþjóðgarður hamli ekki áfram haldandi rekstri orkumannvirkja en samkvæmt gildandi rammaáætlun og skýrslu verkefnisstjórnunar 3. áfanga eru virkjunarkostir í nýtingaflokki. Mikilvægt er að meta þessa hluti heildstætt og þar með þau áhrif sem friðanir og friðlýsingar munu hafa á nauðsynlega auðlindanýtingu í þágu orkuvinnslu enda getur hún farið mjög vel saman við meginmarkmið friðunar að öðru leyti, enda sé gætt ítrustu mótvægisaðgerða. I því ljósi er mikilvægt að vinnu við 3. áfanga verði lokið samhliða.

- Umræðan hefur snúist mikið um orkunýtingu og raforkuflutning en gert er ráð fyrir að orkunýting innan þjóðgarðs taki mið af stefnu stjórnvalda hverju sinni. Þriðji áfangi verndar- og orkunýtingaráætlunar (rammaáætlun) er enn óafgreiddur á Alþingi. Þá er ekki gert ráð fyrir að háspennulínur í lofti verði leyfðar innan þjóðgarðs. Enn fremur eru óútkljáð álitaefni t.a.m. hvað varðar virkjun vindorku. Það er álit sveitarstjórnar Skútustaðahrepps að nauðsynlegt sé að útkljá ágreining um þessi atriði.

- Tekið er undir að skynsamlegt er að skipta Hálendisþjóðgarði í nokkra verndarflokka, ekki er andstætt IUCN flokkun að skilgreina orkuvinnslusvæði innan þjóðgarðs.

Að lokum ítrekað er að upplifun sveitarstjórnar Skútustaðahrepps af samráði við vinnslu frumvarpsins er góð. Þó virðist sem sú sé ekki raunin meðal allra. Í því Ijósi veltir sveitarstjórn Skútustaðhrepps því upp í ljósi umfangs málsins og mikilvægis þess fyrir Islendinga alla, hvort ekki sé betra að sameinast um markmið frumvarpsins, en vinna það áfram í skrefum næstu ár með stækkun þess svæðis sem Vatnajökulsþjóðgarður nær nú yfir með formlegu samþykki sveitarstjórna. Þá er mikilvægt að samhliða samþykkt frumvarpsins liggi fyrir meginlínur í stefnumörkun þjóðgarðsins, t.a.m. hvað varðar atvinnustefnu og stjórnar- og verndaráætlanir (stjórnar- og nýtingaráætlanir),“ segir í umsögn sveitarfélagsins.

Mynd með færslu
 Mynd: Bjarni Rúnarsson - RÚV

„Sveitarstjórn telur jafnframt sameiningu Vatnajökulsþjóðgarðs og Hálendisþjóðgarðs sé jákvætt skref en gangi hins vegar ekki nógu langt. Sveitarstjórn ítrekar fyrri umsagnir sínar þar sem lögð var áherslu á að ekki verði búin til ný stjórnsýslueining með Hálendisþjóðgarði heldur verði allir þjóðgarðar landsins sameinaðir undir einni stofnun og þar með eitt rekstrarsvæði þar sem sveitarfélögin eigi sína fulltrúa í stjórn þjóðgarðsins. Með því næst betri yfirsýn um rekstur þjóðgarðanna og önnur friðlýst svæði, stefnumótunin verður markvissari og betri tenging við sveitarfélögin í landinu. Mikilvægt er að staða annarra þjóðgarða verði metin saman í þessu samhengi. Því leggur sveitarstjórn áherslu á að þjóðgarðarnir á Þingvöllum og Snæfellsjökli falli einnig um Hálendisþjóðgarðinn þannig að úr verði ný sameignleg og kraftmikil stofnun,“ segir í  fyrri umsögn sveitarfélagsins.

Þingeyjarsveit

Líkt og fleiri sveitarfélög sendi Þingeyjarsveit síðast inn umsögn um frumvarpsdrögin í janúar 2020. Sveitarstjórnin er jákvæð gagnvart stofnun þjóðgarðsins, en telur mikilvægt að nauðsynlegt sé að leysa úr ágreiningi um orkunýtingu og raforkuflutning innan þjóðgarðsins. 

Mynd með færslu
 Mynd: Sunna Valgerðardóttir - RÚV

„Umræðan hefur snúist mikið um orkunýtingu og raforkuflutning en gert er ráð fyrir að orkunýting innan þjóðgarðs taki mið af stefnu stjórnvalda hverju sinni. Þriðji áfangi verndar- og orkunýtingaráætlunar (rammaáætlun) er enn óafgreidd á Alþingi. Þá er ekki gert ráð fyrir að háspennulínur í lofti verði leyfðar innan þjóðgarðs. Það er álit sveitarstjórnar að nauðsynlegt sé að útkljá ágreining um þessi atriði. Hálendisþjóðgarður getur haft jákvæð áhrif á byggðaþróun í nærliggjandi byggðum en til þess að svo geti orðið þarf að tryggja fjármagn til innviðauppbygginga svo sem uppbyggingu vega og þjónustumiðstöðva sem tryggir gott aðgengi að garðinum,“ segir í umsögn sveitarstjórnar.

Núpá, haustið 2017
Núpá í Sölvadal (haustið 2017) Mynd: Sunna Valgerðardóttir - RÚV

Eyjafjarðarsveit

Uppfært 26.2.2021: Fréttastofu hefur borist uppfærð afstaða frá sveitarstjórn Eyjafjarðarsveitar. Út frá fyrri umsögn var afstaða sveitarstjórnarinnar metin jákvæð, en í uppfærðri umsögn þeirra leggst sveitarstjórn gegn frumvarpinu í núverandi mynd. Sveitarstjórnin sé aftur á móti hlynnt markmiðum frumvarpsins sem kemur fram í 3. grein þess. Skipulagsvald sveitarfélaganna sé skert verulega með frumvarpinu og að framtíðarmöguleikar í raforkuvinnslu séu skertar með stofnun garðsins. Því bætist Eyjafjarðarsveit í hóp þeirra sveitarstjórna sem leggst gegn áformunum.

Nýja umsögn sveitarstjórnar Eyjafjarðar má sjá í heild sinni hér að neðan:

„Sveitarstjórn Eyjafjarðarsveitar horfir jákvæðum augum til markmiða Hálendisþjóðgarðs sem fram koma í 3.grein frumvarpsins. Hinsvegar telur sveitarstjórn að töluvert þurfi að vinna með frumvarpið til að tryggja almenna sátt um það. Sveitarstjórn vill benda á eftirfarandi atriði sem brýnt sé að útfæra betur en fram að því sé ótímabært að afgreiða frumvarpið til laga. 

Sveitarstjórn telur að skipulagsvald sveitarfélaga skerðist í raun verulega með lagasetningunni. Þó jákvætt sé að nærliggjandi sveitarfélög samræmist um skipulagsmál innan hálendis í gegnum umdæmisráð sem bætir yfirsýn á svæðinu þá kemur mjög skýrt fram að umdæmisráðin hafi einungis tillögu- og umsagnarrétt er kemur að stjórnunar- og verndaráætlun þjóðgarðsins. Stjórn þjóðgarðsins tekur síðan við tillögunum og hefur heimild til að breyta tillögunum, að undangenginni umsögn viðkomandi umdæmisráðs, áður en stjórn sendir tillögur sínar til ráðherra.

Þá hefur ráðherra einnig rétt á að breyta stjórnunar- og verndaráætlun þjóðgarðsins áður en hún er samþykkt. Í þessu samhengi ber að horfa til þess að áætlunin er megin stjórntæki þjóðgarðsins og umráð yfir henni fela sér veruleg völd sem snúa að mörgu öðru en skipulagsmálum eingöngu. Orkunýting og orkudreifing eru verulega mikilvægir þættir fyrir landið allt og er umræðu um rammaáætlun ekki lokið.

Ljóst er að verði frumvarp um Hálendisþjóðgarð að lögum mun það hafa í för með sér að frekari umræða um virkjanakosti rammaáætlunar verður allt að því óþörf og að þeir virkjanakostir sem nú eru í biðflokk og standa utan jaðarsvæða þjóðgarðsins fá ekki möguleika á að komast í orkunýtingarflokk. Þá er einnig vert að benda á að þó virkjanakostir sem ekki eru þegar í orkunýtingaflokki séu innan jaðarsvæða er ekki víst að þeir komi til greina enda fer ráðherra með lokaákvörðun á stjórnunar- og verndaráætlun sem einnig tekur til jaðarsvæða þjóðgarðsins.

Sé horft til þess að aðferðarfræði verkefnisstjórnar rammaáætlunar byggist að nánast öllu leiti á náttúruverndarsjónarmiðum og ekki hafi verið tekið tillit til hagkvæmni eða samfélagslegra sjónarmiða í þeirra vinnu er vert að hafa miklar áhyggjur af þessu. Þá er mikilvægt að benda á að innan þjóðgarðsins mega ekki rísa háspennulínur utan jaðarsvæða og hefur það veruleg áhrif á framtíðarmöguleika til að efla dreifingu raforku um hálendið og þannig raforkuöryggi landsins alls.

Í frumvarpinu kemur fram að óheimilt sé að reka atvinnustarfsemi innan hans án þess að gerður sé um það tímabundinn samningur við þjóðgarðinn og í samráði við viðkomandi umdæmisráð. Ráðherra á að setja reglugerð um nánari skilyrði fyrir þessu. Hér er stórum spurningum ósvarað og hætt við að slíkar reglur muni draga úr getu lítilla staðbundinna þjónustuaðila, sem oft skila miklu til nær samfélaganna, til að keppa við stóra þjónustuaðila sem flestir hafa höfuðstöðvar sínar á höfuðborgarsvæðinu ef til dæmis til útboðs á þjónustu eða einkarétt til nýtingar á landsvæði er að ræða. Standa þarf vörð um að slíkar reglur séu útfærðar fyrst og fremst með byggðarsjónarmið nær samfélaganna að leiðarljósi auk umhverfissjónarmiða.

Aðkoma félagasamtaka í stjórn og umdæmisráðum má teljast óæskileg með öllu en brýnt er að þegar um svo stór hagsmunamál er að ræða bæði fyrir þjóðina í heild sem og fyrir nær samfélögin sjálf þá komi eingöngu kjörnir fulltrúar að ákvarðanatökum. Eðlilegt er, og krafa ætti að vera á, að samráð sé haft við félagasamtök á viðkomandi svæði en að kjörnir fulltrúar séu engu að síður einir með atkvæðarétt um þær afgreiðslur sem fyrir liggja hverju sinni.

Vald ráðherra er verulegt í framsetningu frumvarpsins en þó svo að ekki þurfi að draga í efa heilindi núverandi ráðherra til málsins þá má leiða líkur að því að í framtíðinni þurfi aðrir og óreyndari ráðherrar að reiða sig með auknu mæli á embættismannakerfið í kringum. Því er erfitt að horfa til þess að við lagasetninguna séu viðamiklar útfærslur enn eftir sem útfærða á með reglugerðum á síðari stigum. Á þessum tímapunkti er því ekki með nokkru móti hægt að átta sig á heildaráhrifum frumvarpsins hvorki fyrir þjóðina í heild né fyrir þau sveitarfélög sem aðild munu eiga að þjóðgarðinum. Þrátt fyrir að sveitarstjórn telji frumvarpið ekki tilbúið til afgreiðslu á þessu stigi þá má engu að síður horfa til þess að hugtakinu þjóðgarður fylgja engu að síður ýmis tækifæri. Má þar til að mynda nefna ferðaþjónustu, stýringu á umferð og uppbyggingu þjónustumiðstöðva í sátt við náttúru.

Með þjóðgarðinum er hægt að samræmast um sýn á stórum svæðum umdæmisráða og þá uppbyggingu sem þar mun fara fram en fyrst þarf að tryggja að frumvarpið sé afgreitt með almennri sátt um hugmyndafræði og heildaráhrif þess og ganga úr skugga um að engar efasemdir séu um heildaráhrif þess. Að þessu sögðu leggst sveitarstjórn Eyjafjarðarsveitar gegn því að frumvarpið sé afgreitt í núverandi mynd.

Akrahreppur og Sveitarfélagið Skagafjörður

Sveitarstjórn Akrahrepps og Skagafjarðar hafa ekki gefið út sérstakt álit á málinu nýverið, en vísa í sameiginlega umsögn sveitarfélaga á Norðurlandi vestra sem land eiga að þjóðgarðinum frá því á fyrri stigum málsins, það eru Húnavatnshreppur, Húnaþing vestra, sveitarfélagið Skagafjörður og Akrahreppur. Sú umsögn er síðan í janúar. Þar leggjast sveitarfélögin gegn stofnun þjóðgarðsins. 

Mynd með færslu
 Mynd: Fougerouse Arnaud - Flickr

„Sveitarfélögin leggja til að íslenska ríkið vinni að friðun svæði á miðhálendinu í samráði við einstök sveitarfélög og stefnu þeirra um landnotkun sem birtist í aðalskipulag. Ekki verði önnur svæði lögð inn í þjóðgarð en sveitarfélög samþykkja. Það er langt í land að fjallað hafi verið nægjanlega um hagsmuni að annarri landnýtingu á miðhálendinu, svo tímabært sé að taka ákvörðun um stofnun þjóðgarðs. Það hefur hvorki verið gert með heildstæðum né sértækum hætti vegna einstakra sveitarfélaga,“ segir í umsögninni. 

Byggðarráð Skagafjarðar var ekki á einu máli um umsögnina í janúar. Í bókun þess segir:

„Byggðarráð samþykkir umsögnina með tveimur atkvæðum Stefáns Vagns Stefánssonar (B) og Gísla Sigurðssonar (D). Ólafur Bjarni Haraldsson (BL) óskar bókað að hann styðji framangreinda umsögn. Bjarni Jónsson (Vg og óháð) óskar bókað að Vg og óháð standi ekki að umsögninni og bókar eftirfarandi: Miðhálendisþjóðgarður sem er í stjórnarsáttmála núverandi ríkisstjórnar stuðlar að náttúrvernd á einstöku svæði sem geymir ósnortnar vistgerðir fágætan gróður og dýralíf og sérstæðar jarðmyndanir. Hann yrði sá stærsti í Evrópu með tilheyrandi aðdráttarafli. Rannsókn sem gerð hefur verið á 12 svæðum hérlendis sýnir að beinn efnahagslegur ávinningur er ótvíræður af friðlýstum svæðum. Fyrir hverja krónu sem ríkið leggur til friðlýstra svæða skila að meðaltali 23 krónur sér til baka. Þjóðgarðurinn skapar störf bæði í þjónustu og landvörslu sem mikilvægt er tryggja að verði í heimabyggð. Leggja þarf áherslu á að unnið verði náið með heimamönnum í öllu ferlinu sem stjórnarflokkarnir þrír og ríkisstjórn tók ákvörðun um og hagsmuna heimafólks og sérstaklega bænda verði gætt í hvívetna. Eins og dæmi sanna getur þjóðgarður rennt stoðum undir hefðbundna landnýtingu sem heimil er rétthöfum landsins. Í gegnum stjórnunar- og verndaráætlun fyrir þjóðgarðinn fara svæðisráð hvers svæðis með afskipti og stjórnun um þetta,“ segir í bókun byggðarráðs.

Húnavatnshreppur

Sveitarstjórn Húnavatnshrepps leggst alfarið gegn stofnun Hálendisþjóðgarðs. Í svörum sveitarstjórnar kemur eftirfarandi fram um ástæður þess: 

Mynd með færslu
 Mynd: Dagný Hulda Erlendsdóttir - RÚV

„Þjóðlendur sem á að leggja inn í þjóðgarð eru nú á forræði forsætisráðuneytis og sveitarstjórna. Starfsemi og nýting svæðanna hvílir m.a. á landsskipulagi, aðalskipulagi sveitarfélaga og eigendastefnu forsætisráðuneytis um nýtingu þjóðlenda. Fyrirkomulagið er þar sem jafnvægi er milli aðkomu ríkis og nærsamfélags þar sem meginsjónarmið um náttúruvernd og sjálfbærni gilda nú þegar. Það eru engin sérstök náttúruverndarrök fyrir afmörkun þjóðgarðs heldur er lagt til að ákveðnar þjóðlendur falli þar undir. Sveitarfélagið metur náttúruvernd mikils og er tilbúið til að fjalla um afmörkun svæða sem ástæða er til sérstakrar friðlýsingar á. Slíkt samtal hefur ekki átt sér stað gagnvart sveitarfélaginu. Hugmyndir um Þjóðgarðsstofnun varða fyrst og fremst breytingu stjórnsýslulegum yfirráðum,“ segir í svari sveitarfélagsins við fyrirspurninni. 

Jafnframt segir að „bein áhrif eru m.a. að skipulagsvald sveitarfélaga mun nánast falla niður, enda er stjórnunar- og verndaráætlun grundvallar þáttur í stjórn þjóðgarðssvæða. Bráðabirgðaákvæði sem núverandi frumvarp gerir ráð fyrir hefur einungis takmörkuð og tímabundin áhrif.

Óbein áhrif eru minni tengsl nærsamfélags við starfsemi og nýtingu svæða. Þyngra ferli verður í ákvarðanatöku, m.a. varðandi einfaldar breytingar á núverandi starfsemi þ.m.t. um almenna afréttarnýtingu innan svæðisins. Kostnaður af stjórnsýslu á svæðunum mun aukast. Hætta er á að þjóðgarðs fyrirkomulagið muni letja nýsköpun og uppbyggingu ferðaþjónustustarfsemi, vegna kostnaðar og þungrar stjórnsýslu.

Almennt er hætta á því að tækifæri glatist til uppbyggingar og nýtingar hálendis út frá víðtækum hagsmunum þjóðarinnar eða vegna svæðisbundinna hagsmuna,“ segir í áliti sveitarstjórnar.

Húnaþing vestra

Húnaþing vestra ályktaði seinast um Hálendisþjóðgarð á fundi byggðaráðs og sveitarstjórnar í byrjun desember.

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Sögur frá landi

Byggðarráð tók undir andstöðusjónarmið sveitarstjórnar Bláskógabyggðar gagnvart þjóðgarðsstofnuninni og lögðu fram eftirfarandi bókun: 

„Í umsögnum fjölmargra sveitarfélaga er lýst verulegum áhyggjum af inntaki frumvarps um Hálendisþjóðgarð og ganga mörg þeirra jafnvel svo langt í bókunum sínum að leggjast alfarið gegn stofnun þjóðgarðs á hálendinu. Byggðarráð telur að sú sátt um stofnun þjóðgarðs á miðhálendinu sem tilgreind er í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar sé því bersýnilega ekki til staðar.“

Þessi bókun gekk til sveitarstjórnar til staðfestingar og var hún samþykkt, en ekki einróma þar sem tveir fulltrúar studdu hana ekki. Í bókun þeirra Þóreyjar Eddu Elísdóttur og Magnúsar Vigni Eðvaldssonar segir:

„Ísland hefur að geyma einstök víðerni. Með stofnun Hálendisþjóðgarðs yrði þeim meðal annars tryggð vernd, vistkerfi þeirra yrðu endurheimt og saga svæðisins varðveitt. Hálendisþjóðgarðurinn yrði sá stærsti í Evrópu og gæti hann skapað ótal tækifæri í ferðaþjónustu. Ferðaþjónustu sem með tækjum stýringar yrði búið svo um hnútana að allir gætu notið á sjálfbæran hátt. Að auki mun þjóðgarðurinn skapa störf á landsbyggðinni. Fulltrúar sveitarfélaganna yrðu skipaðir í stjórn Hálendisþjóðgarðs, í stjórn rekstarsvæða hans og ættu einnig fimm af níu fulltrúum í umdæmisráðum hans. Hafa fulltrúar sveitarfélaganna því aðkomu að ákvörðunartökum í öllu stjórnkerfi Hálendisþjóðgarðsins. Varðandi nytjar, þá segir í 22. gr í frumvarpi laga um Hálendisþjóðgarð að hefðbundin landnýting, svo sem búfjárbeit, fuglaveiði, hreindýraveiði og veiði í ám og vötnum, verður áfram rétthöfum heimil í Hálendisþjóðgarðinum séu þau sjálfbær. Vegna þessa teljum við að með stofnun Hálendisþjóðgarðs felist ýmis tækifæri fyrir Húnaþing vestra í formi beinna og afleiddra starfa, rannsókna, uppbyggingar á ferðamannstöðum og landverndar. Ætti sveitarstjórn Húnaþings vestra að fagna frumvarpinu og um leið sækjast eftir því að starfsstöð stofnunar um Hálendisþjóðgarð yrði staðsett í sveitarfélaginu,“ segir í bókuninni.

Borgarbyggð

Sveitarstjórn Borgarbyggðar hefur ekki gefið út afstöðu sína til þjóðgarðsins en samkvæmt svörum Þórdísar Sigurðardóttur sveitarstjóra hafa fulltrúar í sveitarstjórn ólíkar skoðanir á málinu. 

Mynd með færslu
 Mynd: Andreas Tille

Af þeim 23 sveitarfélögum sem hér hafa verið talin upp virðast 16 þeirra vera andsnúin áformunum, að minnst kosti í núverandi mynd. Sveitarfélög sem eru þegar með aðkomu að Vatnajökulsþjóðgarði virðast hins vegar vera jákvæðari gagnvart stofnun Hálendisþjóðgarðs, það er að segja sveitarfélög á Austurlandi og Norðurlandi eystra. 

Mynd með færslu
 Mynd: Hólmfríður Dagný Friðjónsd - RÚV

Mælt var fyrir frumvarpinu á Alþingi fyrir jól, en málið er nú í meðferð umhverfis- og samgöngunefndar. Umsagnarfrestur um málið er til 1. febrúar áður en málið verður afgreitt úr nefndinni og það kemur til 2. umræðu á Alþingi. 

Fréttin hefur verið uppfærð.

30.01.2021 - 09:00