„Stundum var bara allur dagurinn ónýtur“

Mynd: RÚV / RÚV

„Stundum var bara allur dagurinn ónýtur“

30.01.2021 - 12:37

Höfundar

Söngkonan Lay Low glímdi við mikinn kvíða og sviðsskrekk á fyrstu árum ferilsins og oft velti hún hreinlega fyrir sér hvers vegna hún valdi sér ekki aðra leið í lífinu. Með reynslunni hefur henni þó tekist að vinna bug á óttanum við sviðsljósið að mestu og núna nýtur hún þess að koma fram þó stressið láti enn á sér kræla.

Tónlistarkonan Lovísa Elísabet Sigrúnardóttir, eða Lay Low eins og hún kallar sig, kom fyrst fram á sjónarsviðið þegar hún lék með hljómsveitinni Benny Crespo's gang. Með sveitinni spilaði hún á synþa, hljómborð og gítar og öskraði jafnvel stundum í hljóðnemann.

Sólóferilinn fór á flug árið 2006 þegar hún byrjaði að semja lög fyrir sjálfa sig og birta á samfélagsmiðlinum Myspace. Þar vakti hún strax mikla athygli, ekki síst fyrir klassískan smell sinn Please don't hate me sem spurðist hratt út og vakti lukku.

Hún gaf út samnefnda plötu seinna sama ár, var tilnefnd til fimm verðlauna á íslensku tónlistarverðlaununum 2006 og vann þrenn. Lay Low var því strax, örfáum mánuðum eftir að ferillinn hófst, kjörin besta söngkonan, hlaut verðlaun fyrir besta plötuumslagið það ár og var auk þess kosin vinsælasti flytjandi ársins.

Þessi skjóti frami var yfirþyrmandi fyrir söngkonuna sem glímdi við afar mikinn sviðsskrekk. „Þetta gerðist allt mjög hratt,“ rifjar Elísabet upp í Tónatali hjá Matthíasi Má Magnússyni í kvöld. „Ég var enn að vinna í að koma fram og fannst það rosalega erfitt fyrst.“

Það var nóg um að vera hjá Lay Low fyrstu árin enda einn vinsælasti tónlistarmaður landsins og allir vildu bóka hana til að spila, um allt land og einnig erlendis. Hún sagði já ef hún hafði tök á að taka giggið að sér en sá oftast eftir því.

Stundum hvarflaði að henni að hún hefði átt að velja sér annan starfsvettvang. „Ég hugsaði það eiginlega bara alltaf; Af hverju sagði ég já við að spila? Svo var ég bara svona titrandi og jarmandi og ég skil ekki hvernig í ósköpunum fólk meikaði að hlusta á mig,“ segir hún.

Þegar hún vandist því að spila á tónleikaferðalögum um heiminn með öðrum listamönnum fór hún að venjast sviðinu og áhorfendum á Íslandi líka. Í dag mætir hún nokkuð örugg á svið með gítarinn þó óttinn láti stundum á sér kræla. „Núna finnst mér þetta allt í lagi. Auðvitað er maður smá stressaður annað slagið en ekkert þannig að það eyðileggi heilu vikurnar. Stundum var bara allur dagurinn ónýtur.“

Tónatal er á dagskrá á RÚV í kvöld klukkan 19:45. Í þessum fimmta þætti Tónatals spjallar tónlistarkonan Lay Low við Matthías um söngferilinn og vefur spjallið saman við nokkur af helstu lögum hennar í bland við áhrifavalda Lay Low.

Tengdar fréttir

Tónlist

Svona byrjaði fyrsti rappararígur Íslands

Tónlist

Sonurinn fattar ekki að pabbi syngur Hvolpasveitarlagið