Hvað er í frumvarpi um Hálendisþjóðgarð?

Mynd með færslu
 Mynd: Bjarni Rúnarsson - RÚV
Frumvarp liggur nú fyrir Alþingi um stofnun þjóðgarðs á hálendi Íslands. Skiptar skoðanir eru meðal stjórnmálamanna á öllum stjórnsýslustigum um efni frumvarpsins. Frumvarpið felur í sér friðlýsingu innan marka þjóðgarðsins og nær hann yfir um 30 prósent landsins.

Talsverður hluti svæðisins er þegar friðlýstur. Samkvæmt frumvarpinu á landsvæði innan þjóðgarðsins að vera í ríkiseign, nema að sérstakar aðstæður mæli með öðru.

 

„Ríkissjóði er, að tillögu Hálendisþjóðgarðs, heimilt, eftir því sem fjárveitingar á fjárlögum leyfa, að kaupa fasteign, mannvirki og nytjaréttindi innan þjóðgarðsins eða í næsta nágrenni við hann. Hálendisþjóðgarði er heimilt að fengnu samþykki ráðherra að taka eignarnámi land, mannvirki og réttindi til að framkvæma friðun sem lög þessi mæla fyrir um. Um framkvæmd eignarnáms og ákvörðun bóta fer eftir almennum reglum,“ segir í frumvarpinu. 

Mynd með færslu
 Mynd: Bjarni Rúnarsson - RÚV

Stjórn þjóðgarðsins verður skipuð af ráðherra og í henni munu eiga sæti 11 fulltrúar. Þar af verða sex fulltrúar sveitarfélaga, einn frá hverju rekstrarsvæði, sem eru sex talsins. Í stjórn eiga einnig sæti fulltrúar samtaka um útivist, umhverfisvernd, ferðaþjónustu og bænda. Formaður stjórnar er svo skipaður af ráðherra. Ráðherra skipar einnig forstjóra til fimm ára yfir þjóðgarðinn.  

Í hverju rekstrarsvæði verður umdæmisráð þar sem sitja a.m.k. níu fulltrúar. Líkt og í stjórn þjóðgarðsins í heild er meirihluti nefndarmanna frá sveitarfélögunum eða fimm talsins. Hvert sveitarfélag innan hvers rekstrarsvæðis skal eiga að minnsta kosti einn fulltrúa í umdæmisráði. Einn fulltrúi skal svo sitja í umdæmisráði fyrir hönd útivistarsamtaka, einn fyrir umhverfisverndarsamtök, einn fulltrúi Bændasamtakanna og einn fulltrúi fyrir hönd ferðaþjónustunnar á svæðinu.

Hlutverk umdæmisráðs er meðal annars að gera tillögu að stjórnunar- og verndaráætlun fyrir viðkomandi svæði og vera forstjóra, þjóðgarðsverði og stjórn til ráðgjafar um málefni náttúruverndar á svæðinu. Stjórnunar- og verndaráætlum er meginstjórntæki þjóðgarðsins. 

„Í stjórnunar- og verndaráætlun skal gera grein fyrir markmiðum verndar á einstökum svæðum innan Hálendisþjóðgarðs, verndaraðgerðum, verndarflokkum, endurheimt vistkerfa, vöktun, landnýtingu, fræðslu, öryggismálum, mannvirkjagerð, stefnu stjórnar um staðsetningu og fyrirkomulag gestastofa og þjónustustöðva innan þjóðgarðs, samgöngum og öðrum innviðum á svæðinu. Þar skal fjallað um umferðarrétt almennings, aðgengi að svæðinu, not þess og takmarkanir sem gilda á einstökum svæðum. Þá skal stjórnunar- og verndaráætlun Hálendisþjóðgarðs einnig ná til jaðarsvæða þjóðgarðsins. Í stjórnunar- og verndaráætlun skal tilgreina almenn skilyrði sem sett eru fyrir atvinnustarfsemi innan þjóðgarðsins. Þar skal jafnframt koma fram almennt mat á því hvort og þá hvernig takmarka skuli atvinnutengda starfsemi innan þjóðgarðs með hliðsjón af ákvæðum 3. gr. Í stjórnunar- og verndaráætlun er heimilt að setja skilyrði um hvernig framkvæmdum skuli háttað og um eftirlit með þeim til að tryggja að þær raski ekki að óþörfu lífríki, jarðmyndunum, vatnafari, landslagi, víðernum eða menningarminjum í þjóðgarðinum. Ráðherra skal með reglugerð setja nánari ákvæði um efni stjórnunar- og verndaráætlunar,“ segir í frumvarpinu.

Mynd með færslu
 Mynd: Einar Rafnsson - RÚV

Í næstu grein frumvarpsins um málsmeðferð er tekið fram að ráðherra geti gert breytingar á áætluninni telji hann að hún brjóti í bága við lög um þjóðgarðinn eða reglugerð.

Ráðherra getur takmarkað umferð

Ráðherra getur sett í reglugerð bann við akstri vélknúinna ökutækja á einstökum svæðum allt árið um kring eða á tilteknum tímum ársins. 

„Í reglugerð sem ráðherra setur skal setja reglur um dvöl, umgengni og umferð í Hálendisþjóðgarði, þ.m.t. tjöldun og umferð gangandi, ríðandi og hjólandi vegfarenda, sem og um umferð vélknúinna ökutækja, báta, skipa, loftfara, flygilda og hvers konar annarra farartækja í þjóðgarðinum. Þá er heimilt að setja reglugerð um köfun og aðra útivistarstarfsemi innan Hálendisþjóðgarðs í því skyni að tryggja vernd náttúru og öryggi fólks.
Akstur vélknúinna ökutækja utan vega í Hálendisþjóðgarði er bannaður. Þó er heimilt að aka slíkum tækjum á jöklum og snævi þakinni jörð utan vega svo fremi sem jörð sé frosin eða snjóþekjan traust og augljóst að ekki sé hætta á náttúruspjöllum. Í reglugerð sem ráðherra setur er heimilt að banna akstur vélknúinna ökutækja á einstökum svæðum þjóðgarðsins allt árið um kring eða á tilteknum tímum ársins,“ segir í frumvarpinu.

Þá segir að hvers kyns mannvirkjagerð eða jarðrask sé óheimilt ef það samræmist ekki markmiðum þjóðgarðsins og ef ekki er gert ráð fyrir viðkomandi framkvæmd í stjórnunar- og verndaráætlun.

Mynd með færslu
 Mynd: Birgir Þór Harðarson

Ekki þarf sérstakt leyfi Hálendisþjóðgarðs samkvæmt frumvarpinu fyrir framkvæmdum sem gert er ráð fyrir í stjórnunar- og verndaráætlun. Slíkar framkvæmdir kunna eigi að síður að vera háðar framkvæmdaleyfi eða byggingarleyfi viðkomandi sveitarfélags. Ávallt skal hafa samráð við viðkomandi þjóðgarðsvörð áður en framkvæmd hefst. Ráðherra er heimilt að setja í reglugerð nánari ákvæði um réttaráhrif stjórnunar- og verndaráætlana.

„Hálendisþjóðgarður hefur eftirlit með framkvæmdum og að virt séu ákvæði laga þessara, reglugerðar um Hálendisþjóðgarð ásamt stjórnunar- og verndaráætlun og þeim skilyrðum sem framkvæmdum eru sett þar. Allir sem fara um Hálendisþjóðgarð og dveljast þar, svo sem vegna ferðalaga eða í atvinnuskyni, eru bundnir af stjórnunar- og verndaráætlun eftir því sem við á. Að öðru leyti gilda ákvæði laga um náttúruvernd um framkvæmdir í Hálendisþjóðgarði,“ segir í frumvarpinu. 

Um starfsemi innan þjóðgarðsins er nefnt í frumvarpinu að stjórn hans skuli móta stefnu fyrir atvinnutengda starfsemi innan þjóðgarðsins. Gera þarf tímabundinn samning um slíkt við stjórn þjóðgarðsins og skal hún vera í samræmi við atvinnustefnu þjóðgarðsins og ákvæði stjórnunar- og verndaráætlunar.  Eins þarf að fá leyfi Hálendisþjóðgarðs vegna skipulagðra viðburða og einstakra verkefna í Hálendisþjóðgarði sem krefjast aðstöðu, mannafla eða meðferðar tækja í þjóðgarðinum, svo sem kvikmyndunar, viðburða, samkomuhalds og rannsókna. Stofnuninni er heimilt að setja skilyrði fyrir leyfisveitingu. Ráðherra skal setja í reglugerð ákvæði um málsmeðferð slíkra leyfisveitinga. 

Mynd með færslu
 Mynd: Bjarni Rúnarsson - RÚV

Sjálfbær landnýting leyfileg

Tekið er fram í frumvarpinu að hefðbundin landnýting, svo sem búfjárbeit, fuglaveiði, hreindýraveiði og veiði í ám og vötnum, sé rétthöfum heimil í Hálendisþjóðgarði, enda séu uppfyllt ákvæði 3. gr. og þeirra laga sem um nýtinguna fjalla og að nýtingin sé sjálfbær. Innan hvers rekstrarsvæðis er gert ráð fyrir að verði starfsstöð þjóðgarðsins, þar sem hægt verður að nálgast upplýsingar og þjónustu tengda þjóðgarðinum. 

Í orkunýtingarhluta frumvarpsins er þess getið að ekki sé heimilt að starfrækja nýjar virkjanir, nema þær sem þegar eru í notkun, eða þær virkjanir á jaðarsvæðum þjóðgarðsins sem eru skilgreindar í orkunýtingarflokki 3. áfanga rammaáætlunar. Þá er einnig heimilt að setja upp virkjun til sjálfsþurftar fyrir starfsemi innan þjóðgarðsins, svo lengi sem það samræmist verndarmarkmiðum hans. 

Starfsmönnum þjóðgarðsins eru veittar heimildir til að stöðva för fólks um þjóðgarðinn sé það talið nauðsynlegt, stöðva framkvæmdir og aðrar athafnir sem brjóta í bága við lög um hann eða ef hætta er talin á verulegu tjóni. Framkvæmdir í heimildarleysi geta varðað fangelsi allt að tveimur árum. Alvarleg náttúruspjöll innan þjóðgarðsins getur varðað allt að 4 ára fangelsi eða sektargreiðslu að lágmarki 350.000 krónum.

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV

Frumvarpið liggur nú fyrir umhverfis og samgöngunefnd Alþingiss, og er umsagnarfrestur um frumvarpið til mánaðamóta. Nú þegar hafa yfir 60 sveitarfélög, félagasamtök, hagsmunaaðilar og einstaklingar skilað inn umsögn vegna frumvarpsins.  Stefnt er að því að afgreiða málið á vorþingi.  Hvort að að því verður mun tíminn leiða í ljós.

30.01.2021 - 08:30