Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Handtekinn í tengslum við skotárás á bíl borgarstjóra

30.01.2021 - 12:14
Mynd með færslu
Margeir Sveinsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn Mynd: Guðmundur Bergkvist - RÚV
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur handtekið karlmann sem grunaður er um að tengjast skotárásinni á bíl Dags B. Eggertssonar borgarstjóra sem uppgötvaðist á laugardaginn fyrir viku. Hann er nú í haldi lögreglu. Karlmaðurinn er á fimmtugsaldri. Margeir Sveinsson aðstoðaryfirlögregluþjón segir lögregluna líta málið mjög alvarlegum augum og að rannsókn hafi staðið linnulaust alla vikuna. Hann segist ekki gefa upp meira á þessu stigi.

Vísir.is greindi fyrst frá en þar segir að manninum hafi verið sleppt að loknum yfirheyrslum og að hann hafi réttarstöðu grunaðs manns. 

Í frétt visir.is er fullyrt að nokkuð af skotvopnum hafi fundist á heimili mannsins , meðal annars tveir .22 kalíbera rifflar en talið sé að slíku vopni hafi verið beitt á bíl borgarstjóra.  Þá segist miðillinn hafa heimildir fyrir því að maðurinn hafi lengi haft horn í síðu Samfylkingarinnar.

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu sendi frá sér tilkynningu í hádeginu. Þar kemur fram að karlmaður á fimmtugsaldri sé í haldi lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu í tengslum við rannsókn hennar á skemmdum sem voru unnar á bifreið borgarstjóra og húsnæði Samfylkingarinnar á dögunum. Málið sé litið mjög alvarlegum augum og hefur rannsókn þess verið í algjörum forgangi hjá embættinu.