Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Enginn klukknahljómur úr turni Akureyrarkirkju

30.01.2021 - 12:52
Enginn klukknahljómur hefur borist úr turni Akureyrarkirkju síðustu vikur því stýrikerfið fyrir klukkurnar er bilað. Sóknarpresturinn giskar á að þær hafi hreinlega gefist upp í samkomubanninu. Hann segist sakna þess að heyra ekki í klukkunum.

Þótt það sé heldur gróft að segja að Akureyringar viti ekki hvað klukkan slær þessar vikurnar, er dálítið til í því. Þar eru íbúarnir vanir að heyra hringingu úr kirkjuturninum á klukkutíma fresti allan daginn. En nú er klukkan í turninum þögul og hana hefur vantað tuttugu og fjórar mínútur í níu í rúmar þrjá vikur.

Stjórnbúnaðinn þarf að senda í viðgerð til Þýskalands

„Stjórnbúnaðurinn hennar er bilaður,“ segir Einar Tryggvi Thorlacius, kirkjuvörður.“
„Og er það tölvubúnaður eða hvað?“
„Ja, ætli hann sé ekki aðeins of gamall fyrir tölvukalla okkar nútímans, ég gæti trúað því. Þetta er tuttugu og þriggja ára gömul græja sem þarf að senda til framleiðandans úti í Þýskalandi til að átta sig á hvað er að.“ Og hann segist ekki vita hvað þetta ástand vari lengi í viðbót, en búnaðurinn sé rétt ófarinn úr landi.

Kvarta ef klukkan er ekki rétt - færri þegar hún stoppar

Einar segir ótrúlega fáa hafa kvartað yfir því að klukkan sé stopp. Miklu fleiri kvarti ef hún gengur vitlaust, sem gerist stundum. Til dæmist þegar safnast í kringum hana snjór. „Þá fáum við ábendingar ef hún er orðin vitlaus, en ég held að fólk átti sig á því ef hún er steinstopp á einhverjum kolvitlausum tíma, þá er eitthvað bilað.“ 

Eins og klukkurnar hafi gefist upp í samkomubanninu

En klukkan sem sýnir þeim tímann, sem horfa upp í turninn, er ekki aðalatriðið. Sama stýrikerfið er nefnilega fyrir sjálfar kirkjuklukkurnar og þær hljóma ekki á meðan það er bilað. Svavar Alfreð Jónsson, sóknarprestur, segist sakna klukknahringinganna. „Já, svo sannarlega sakna ég þess að heyra ekki í klukkunum. Þær biluðu mjög flótlega á nýju ári,“ segir hann. „Þetta er náttúrulega búið að vera allt svona frekar fábrotið hjá okkur og lítið um að vera, þannig að það er eins og þær hafi endanlega gefist upp á þessu. Þessum seinagangi öllum.“

Hringja einni klukkunni með handafli

Og það er auðvitað hvorki hægt að hringja almennilega inn í athafnir eða út. En það er leyst til bráðabirgða með því að hringja einni klukkunni með handafli. „Bara handhringing eins og í sveitakirkjunum hérna í kringum okkur,“ segir Einar.

„Það er mikið horfið þegar klukkurnar slá ekki.“

En Svavar telur að hljómurinn úr klukkum Akureyrarkirkju sé fyrir löngu orðinn hluti af tilveru Akureyringa, sem sakni þess nú að heyra þær ekki slá. „Ég heyrði einhvern segja að kirkjuklukkurnar, og þessi ferhenda eftir Björgvin Guðmundsson sem spilast hérna á hverjum einasta klukkutíma svona á meðan fólk er allavega á fótum, að þetta sé bara hluti af hljóðmynd Akureyrar,“ segir hann. „Það er mikið horfið þegar klukkurnar slá ekki.“