„Ég var svo harmi lostin yfir að veikjast á geði“

Mynd: RÚV / RÚV

„Ég var svo harmi lostin yfir að veikjast á geði“

30.01.2021 - 09:07

Höfundar

Fljótlega eftir fráfall föður síns varð Elísabet Kristín Jökulsdóttir ástfangin, og svo lenti hún í ástarsorg. Skömmu síðar veiktist hún á geði og greindist með geðhvörf. Elísabet skrifar um þessa atburði í sjálfskáldsögunni Aprílsólarkuldi sem nýverið hlaut Íslensku bókmenntaverðlaunin í flokki fagurbókmennta.

Elísabet Kristín Jökulsdóttir hlaut í vikunni Íslensku bókmenntaverðlaunin fyrir æviskáldsögu sína Aprílsólarkuldi. Bókin er byggð á brotum úr ævi höfundar og fjallar á tilfinningaríkan hátt um föðurmissi, ást, sorg og geðheilbrigði. Stuttu eftir að tilkynnt var um tilnefningar til verðlaunanna tók Elísabet Kristín rútu frá heimili sínu í Hveragerði og hitti Eirík Guðmundsson í Víðsjá. Elísabet var hæstánægð með tilnefninguna og síðar auðvitað verðlaunin. „Ég er mjög glöð, þakklát og allur regnbogi tilfinninganna,“ sagði hún.

Fylgir eins og perlufesti

Á leið sinni til Reykjavíkur kom henni á óvart hve margir þekktu hana grímuklædda og væru meðvitaðir um áfangann. „Þegar ég kom í rútuna var kona í skósíðum pels, eldri kona með loðhúfu og allar græjur. Hún þekkti mig í gegnum grímuna og óskaði mér til hamingju,“ segir Elísabet. „Svo tek ég leigubíl frá Mjóddinni og þá var leigubílstjórinn með þetta alveg á hreinu. Þetta fylgir mér eins og perlufesti,“ segir hún.

„Þetta hafði gerst allt saman“

Bókin hefst á því að aðalsöguhetjan fær fregnir af andláti föður síns og fljótlega eftir það er ástin komin í spilið og það fer að fjara undan hjá henni. „Þetta er byggt á minni eigin sögu og ég skrifaði þetta þónokkru eftir að ég veiktist á geði,“ segir hún. „Þetta hafði allt saman gerst og pabbi minn dó. Þetta kom í kjölfarið á því öllu saman.“

Vildi vita hvers vegna hún veiktist á geði

Umfjöllunarefni bókarinnar nálgaðist hún í fyrstu sem ákveðna rannsóknarvinnu. Hún vildi komast að því hvernig hún veiktist og hvaða atburðir leiddu til þess. „Ég hugsaði þetta eins og vísindamaður, það er mikið af vísindamönnum í fjölskyldunni,“ segir hún. „Ég var svo harmi lostin yfir að veikjast á geði og vildi vita út af hverju.“

„Held við séum voða mikið bipolar á Íslandi“

Elísabet áttaði sig á því að hún hefði fengið áfall þegar faðir hennar lést og svo annað þegar kærastinn yfirgaf hana. „Þá var þetta áfall ofan í áfall,“ segir hún. „Þá gat ég fundið skýringuna á veikindunum, fyrir utan að þetta er náttúrulega rammættgengt.“

Hún telur báða foreldra sína einnig hafa verið með geðhvörf. „Þetta kemur frá öðru hvoru eða báðum foreldrum mínum. Ég held við séum voða mikið bipolar á Íslandi,“ segir hún.

Algjör rússíbanareið

Gagnrýnendur hafa sumir lýst bókinni sem agaðri en margt af því sem Elísabet hefur áður sent frá sér. „En ég hef heyrt lesendur segja að þetta sé algjör rússíbanareið þessi bók, og að hún sé skrifuð í einum andardrætti,“ segir Elísabet. „En það er visst dræv í þessari sögu, hún keyrist vel áfram og er mjög einbeitt. Kannski er það það sem gerir hana agaða.“

Í spilaranum hér fyrir ofan má hlýða á viðtalið við Elísabet Kristínu Jökulsdóttur og heyra hana lesa brot úr Aprílsólarkulda.

Tengdar fréttir

Bókmenntir

Elísabet, Arndís, Hulda og Sumarliði verðlaunuð

Bókmenntir

Hvergerðingar sérfræðingar í að taka á móti furðufuglum