Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Vonar að árásin sé ekki merki um breytta framtíð

Mynd: RÚV - Eggert Þór Jónsson / RÚV
Forsætisnefnd borgarstjórnar fordæmir árásir á höfuðstöðvar stjórnmálaflokka og bifreið borgarstjóra. Pawel Bartoszek forseti borgarstjórnar vonar að árásirnar séu ekki merki um varanlegar breytingar í þjóðfélaginu þannig að kjörnir fulltrúar þurfi brynvarða bíla og öryggisverði.

Tilefni til hærra viðbúnaðarstigs

Forsætisnefnd bókaði samhljóða um árásirnar í dag og segir allt ofbeldi óviðunandi. 

„Vonandi þurfum við ekki að horfa fram á að um sé að ræða varanlega breytingu á íslensku samfélagi að hér þurfi kjörnir fulltrúar að ganga um með öryggisverði og að keyra um í brynvörðum bílum. Þannig að við að sjálfsögðu tökum til og bregðumst við þessu ástandi sem alla vega nú er að það virðist vera tilefni til aðeins hærra viðbúnaðarstigs en vonum síðan að við þurfum ekki að horfa upp á þetta sem eitthvað breytta framtíð,“ segir Pawel Bartoszek forseti borgarstjórnar og borgarfulltrúi Viðreisnar. 

Pawel var falið að ræða við borgarritara og lögregluyfirvöld og grípa til nauðsynlegra ráðstafana til að tryggja öryggi kjörinna fulltrúa. 

Strax um helgina þegar ljóst varð að skemmdarverk höfðu verið unnin á bíl borgarstjóra var viðbúnaður aukinn í kringum hann og Ráðhúsið. 

Víkur úr ráðum

Ólafur Kr. Guðmundsson, varaborgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, víkur úr þeim ráðum Reykjavíkurborgar þar sem hann hefur verið varamaður. Ástæðan er færsla sem hann birti á Facebook um Dag B. Eggertsson borgarstjóra. Hann tók færsluna síðan út. Eyþór Arnalds oddviti Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn segir þetta vera sameiginlega ákvörðun þeirra. Hann segist fordæma þessi ummæli Ólafs og öll ummæli sem ýta undir ofbeldi. 

Rannsókn á viðkvæmu stigi

Ekki er vitað hvers konar skotvopn var notað við skemmdarverkin á skrifstofum Samfylkingarinnar. Sumt bendir til þess að notaður hafi verið loftriffill eða loftskammbyssa. Þessi vopn geta verið mjög öflug. Lögreglan vill ekki staðfesta að götin á bíl borgarstjóra hafi verið eftir skotvopn. Hún segir málið á viðkvæmu stigi og verst frétta.