Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Svandís og Þórólfur hafa rætt að flýta tilslökunum

Mynd: RÚV / RÚV
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra ræddi við Þórólf Guðnason sóttvarnalækni í gær um að slaka á takmörkunum innanlands áður en núgildandi reglugerð rennur út þann 17. febrúar. Nú hefur ekkert smit greinst utan sóttkvíar hér á landi í sjö daga og Svandís segir að það verði að vera samhengi milli stöðunnar á faraldrinum og þeirra takmarkana sem eru í gildi.

Taknrænt að Ísland sé grænt land

Svandís segir það mikið fagnaðarefni að Ísland sé nú flokkað sem grænt svæði í litakóðunarkerfi Sóttvarnastofnunar Evrópu með tilliti til útbreiðslu faraldursins. „Við sjáum hversu táknrænt og sterkt þetta er að sjá þennan græna punkt á kortinu. Við getum glaðst yfir því hversu vel hefur gengið í sóttvörnum hér innanlands og við höfum náð þeim árangri í langan tíma að vera með minnsta smittíðni og minnsta útbreiðslu í Evrópu,“ segir hún.

Hefurðu rætt við sóttvarnalækni um tilslakanir?

„Já, ég tala nú reglulega við Þórólf, síðast í gær, og við snertum aðeins á því í okkar samtali að það gæti komið til þess að við gerðum einhverjar tilslakarnir fyrr heldur en 17. febrúar, en það er þá sem núverandi reglugerð rennur út. En það kemur bara í ljós, við látum helgina líða áður en við förum að ræða það frekar,“ segir Svandís. 

Gæti það þá verið í næstu viku? 

„Ég get ekki svarað því.“

En hafiði rætt hvaða tilslakanir það yrðu?

„Nei, þetta eru þessir sömu hlutir sem við ræðum alltaf um. Fjöldahámarkið og tiltekin starfsemi sem yrði þá heimiluð sem er ekki heimiluð núna eða með takmörkunum. Við höfum gengið í gegnum þetta með fyrstu bylgjuna, þegar við vorum að fara til baka,“ svarar Svandís.

Þannig að það eru þá veitingastaðir og krár?

„Ég get ekki svarað því.“

Er forsvaranlegt að halda áfram þessum ströngu takmörkunum eins góð og staðan er?

„Sko, nú erum við að sjá sjöunda daginn í röð þar sem við greinum ekkert smit utan sóttkvíar. Við höfum alltaf sagt að árangurinn innanlands hafi áhrif á ákvarðanir um takmarkanir,“ segir Svandís.

Svo þér finnst að það eigi að slaka?

„Mér finnst, eins og öllum, að það eigi að vera samhengi milli þess hvernig gengur og hvaða takmarkanir við erum með. Við eigum ekki að beita takmörkunum nema það sé nauðsynlegt út af sóttvörnum,“ svarar Svandís að lokum.