Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Sölubann sett á bjórinn Loft

29.01.2021 - 12:50
Mynd með færslu
 Mynd: Vilhjálmur Þór Guðmundsson - RÚV
Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur hefur sett sölubann á bjórinn Loft vegna þess að umbúðir bjórsins bjóta í bága við lög um tóbaksvarnir. Mynd framan á dósum bjórsins sýna útigangsmanninn Loft Gunnarsson með sígarettu í munnvikinu. Framleiðendur bjórsins ætla að líma yfir rettuna.

Bjórinn Loftur kom á markað í síðustu viku á dánardægri Lofts Gunnarssonar útigangsmanns sem lést árið 2012 og rennur ágóðinn af sölu bjórsins í minningarsjóð, sem ætlað er að bæta hag útigangsmanna í Reykjavík ásamt því að berjst fyrir að lögbundin mannréttindi þeirra séu virt. Útlit bjórdósanna hefur vakið athygli. Greint var frá málinu í fréttum í vikunni.  Framkvæmdastjóri Krabbameinsfélags höfuðborgarsvæðisins sagði umbúðirnar vera skýrt brot á tóbaksvarnarlögum.

Hjá Vínbúðunum hafa gilt ýmsar reglur um það hvernig umbúðirnar mega vera. Á sínum tíma var til dæmis bannað rauðvín með nafni hljómsveitarinnar Motörhead af því að það þótti vísa til amfetamínneyslu. Einnig var bannaður drykkur af hálfberri konu og einnig bjór, páskabjór af því að umbúðirnar þóttu höfða of mikið til barna.

Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur sendi Vínbúðinni og framleiðandanum tilmæli um að stöðva skuli sölu á bjórnum vegna þess að vörumerkingar brjóti í bága við tóbaksvarnarlög. Þar segir:

„Bannað er enn fremur að sýna neyslu eða hvers konar meðferð tóbaks eða reykfæra í auglýsingum eða upplýsingum um annars konar vöru eða þjónustu og í myndskreytingu á varningi,“ segir í úrskurðinum.

Sigrún Ósk Sigurðardóttir aðstoðarforstjóri ÁTVR segir í samtali við fréttastofu að búið sé að taka bjórinn úr sölu en hann var í sölu í fjórum verslunum. Það sé nú í höndum framleiðendanna hvernig þeir vilja bregðast við. 

Ólafur Þorvaldz, einn af aðstandendum bjórsins segir að verið sé að leita leiða til að bregðast við úrskurðinum. Bjórinn verði tekinn úr sölu um stundarsakir á meðan unnið sé að lausn. Það sé ekki til skoðunar að endurpakka bjórnum, enda yrði lítill ágóði eftir til styrktar góðu málefni ef leggja þyrfti út í slíkan kostnað. Framleiðendurinir ætli að láta á það reyna hvort að unnt sé að líma yfir stubbinn og setja bjórinn þannig í sölu á ný. 

bjarnir's picture
Bjarni Rúnarsson
Fréttastofa RÚV