Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Óttast um afdrif hundraða Róhingja

29.01.2021 - 05:15
Erlent · Asía · Indónesía · Malasía · Mjanmar · Róhingjar
epa07166871 Rohingya refugees shout slogans during a protest against a disputed repatriation programme at the Unchiprang refugee camp near Teknaf, Bangladesh, 15 November 2018. According to the news reports  Bangladesh authorities are ready to begin
Frá mótmælum Róhingja í Bangladess í morgun. Mynd: EPA-EFE - EPA
Hundruð Róhingja er saknað úr flóttamannabúðum í Indónesíu. Óttast er að þeim hafi verið smyglað til nágrannaríkisins Malasíu. Að sögn Al Jazeera eru aðeins 112 flóttamenn eftir í flóttamannabúðum sem settar voru upp til bráðabirgða í Lhokseumawe á norðurströnd Indónesíu. 400 flóttamenn komu þangað á fjögurra mánaða tímabili í fyrra.

Hvorki yfirvöld í Indónesíu né Sameinuðu þjóðirnar gátu svarað hvar flóttamennina væri að finna. Al Jazeera hefur eftir Ridwan Jalil, yfirmanni flóttamannabúðanna, að óttast sé að þau hafi fengið aðstoð smyglara við að komast yfir Malacca-sundið til Malasíu. 

Alls flýðu um 750 þúsund Róhingjar ofsóknir sjórnarhersins í Mjanmar árið 2017. Rannsakendur á vegum Sameinuðu þjóðanna segja ofsóknirnar jaðra við þjóðarmorð. Fólkið fór fótgangandi til Bangladess, þar sem komið var upp flóttamannabúðum á víð og dreif. Þúsundir hafa greitt smyglurum fúlgur fjár til þess að komast frá Bangladess. Þaðan hefur tekið við margra mánaða sjóferð við þröngan kost til Indónesíu eða Malasíu.