
Landlæknir styður afglæpavæðingu neysluskammta
„Enginn vafi leikur á því að málefni einstaklinga sem glíma við erfiðleika sökum neyslu eða misnotkunar vímuefna ber að nálgast fyrst og fremst sem heilbrigðisvanda,“ segir í umsögn landlæknis um frumvarp heilbrigðisráðherra.
Þar segir að um leið vilji embættið undirstrika að umfangsmiklar breytingar á þessum málaflokki kalli á heildræna nálgun. Erfitt gæti verið að einblína á einstakar aðgerðir í þessu sambandi án þrss að fjalla sérstaklega um mat á áhrifum þeirra. Því leggur landlæknir til að þessar breytingar verði ekki innleiddar nema sem hluti af opinberri stefnu um málaflokkinn.
Í frumvarpinu segir að með því að afnema mögulega refsingu vegna vörslu skammta ólöglegra vímuefna ætlaða til einkanota væri stigið stórt skref í átt að viðhorfsbreytingu í íslensku samfélagi gagnvart fólki sem notar vímuefni. Rannsóknir hafi ítrekað sýnt fram á að refsingar hafi lítil sem engin áhrif til breytingar á hegðun.