Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Krakkar horfa oft á mjög gróft klám á skólalóðinni

Mynd: RÚV / RÚV

Krakkar horfa oft á mjög gróft klám á skólalóðinni

29.01.2021 - 10:04

Höfundar

Í nýju hlaðvarpi ræða Indíana Rós og Mikael Emil um allt sem við kemur kynlífi, samböndum og samskiptum kynjanna. Þau fá til sín ýmsa gesti og sérfræðinga og ekkert er þeim óviðkomandi. Í fyrsta þætti beina þau sjónum sínum að einnar nætur gamani.

RÚV ætlar að setja kynheilbrigði á oddinn næstu vikurnar á öllum miðlum. Kynfræðslu í skólum er ábótavant og fjöldi rannsókna sýnir að strákar og stelpur leita í klám í von um að fá svör við spurningum sínum. „Við höfum fundið fyrir áhuga ungmenna á þessu málefni og ætlum því að gera okkar besta til að mæta óskum þeirra og setja kynheilbrigði á oddinn næstu vikunnar. Nýtt og opinskátt hlaðvarp Klukkan sex fer í loftið í dag, við hefjum sýningar á norskum hispurslausum sjónvarpsþáttum um kynþroska og bjóðum upp fullt af fróðlegu og áhugaverðu efni á UngRÚV.is. „Við ætlum ekkert að sykurhúða þetta, nálgumst þetta á opinn og einlægan hátt, sannfærð um að það sé rétt leið,” segir Ragnhildur Steinunn aðstoðardagskrárstjóri sjónvarps í Morgunútvarpinu í morgun. Hún og Indíana Rós Ægisdóttir, kynfræðingur og formaður Kynfræðifélags Íslands, fjölluðu um málið.

Hluti af fræðslunni er hlaðvarpið Klukkan sex sem kemur út vikulega en fyrsti þáttur er þegar kominn út. Í þessum fyrsta þætti beina þau sjónum sínum að einnar nætur gamani. 

„Við fórum í þessar COVID-pælingar og einnar nætur gaman. Hvernig þú ætlar að gera það og fylgja sóttvörnum, stunda kynlíf með sóttvarnir í lagi með einhverjum ókunnugum,” segir Indíana. 

Þá er ógleymd umræða um hvað gerist þegar kynlífi er lokið eftir einnar nætur gaman. Dagurinn eftir, eða jafnvel fyrr, getur oft vafist fyrir fólki. Vandræðalegheit við að mæta fjölskyldu hjásvæfunnar og jafnvel ákvörðun um áframhaldandi samskipti eru oft hluti af því, og málin geta flækst aðeins meir ef Filipo Berio-flaska lék stórt hlutverk í kvöldinu eins og fram kemur í hlaðvarpinu

Aðgengi að klámefni

Rannsóknir sýna að börn byrja mjög ung að horfa á klám, sérstaklega drengir, sem byrja oft að horfa á klám 10-12 ára. „Auðvitað er ekki gott ef skilaboðin koma bara þaðan, það er oft mjög brengluð mynd. Klám er náttúrulega alls konar. Staðreyndin er sú að unga fólkð vill vita hluti og þá googlar það og lendir inn á alls konar síðum. Við erum að vona að með þessu átaki getum við boðið upp á efni sem sýnir hlutina í réttu ljósi,” segir Ragnhildur Steinunn. Hún segir einnig að foreldrar átti sig oft ekki á hversu aðgengilegt klámefni er. „Krakkarnir eru oft á tíðum að horfa á mjög gróft klám á skólalóðinni sinni í símunum sínum. Þetta er aðgengilegt öllum stundum. Ég held að við fullorðna fólkið þurfum stundum að líta í eigin barm og átta okkur á því að aðgengi að þessu efni er allt annað en þegar við vorum ung,” segir Ragnhildur Steinunn.

Indíana Rós tekur einnig fram að markmiðið með fræðslunni sé ekki að banna klám. Hún segir nauðsynlegt að ræða klámáhorf líkt og er gert með annað efni sem er ekki ætlað börnum og ungmennum. „Við erum ekki að taka neinar umræður. Það er bara: „Nei, ekki horfa á það.” Það er ekki póllinn sem við þurfum að taka. Við þurfum að eiga samtalið: „Þú munt örugglega horfa á klám en þú verður að fatta að þetta er oft ekki eins og raunveruleikinn er,” segir Indíana.

Í sjónvarpsþáttunum Kynþroskinn er fjallað um kynþroska á skemmtilegan og áhugaverðan hátt. „Þessir norsku þættir hafa vakið verðskuldaða athygli og ég held að mér sé óhætt að segja að tepruskapurinn sé skilinn eftir heima. Í þáttunum er fjallað um þetta magnaða undur sem á sér stað í mannslíkanum þegar við verðum kynþroska; hárvöxt, raddbreytingarnar, stækkun og brjóstum og typpi svo eitthvað sé nefnt,” segir Ragnhildur Steinunn.

Á UngRÚV.is má svo finna fjölda örmyndbanda, sem unnin eru í samstarfi við Reykjavíkurborg, um samskipti kynjanna, fyrsta skiptið, leikna grínsketsa um vandræðaleg augnablik og umræður ungmenna um kynlíf.