Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Fjármálastjóri WOW ekki valdalaus að mati Hæstaréttar

29.01.2021 - 14:20
Mynd með færslu
 Mynd: Birgir Þór Harðarson - RÚV
Hæstiréttur hefur snúið við dómum Héraðsdóms Reykjavíkur og Landsréttar sem töldu að krafa Stefáns Eysteins Sigurðssonar, fyrrverandi fjármálastjóra WOW, uppá rúmar fjórtán milljónir ætti að njóta forgangs í þrotabú flugfélagsins. Hæstiréttur telur sýnt að fjármálastjórinn hafi stýrt daglegum rekstri félagsins, teljist þar af leiðandi nákominn og því eigi krafa hans ekki að njóta forgangs.

Almenna reglan við uppgjör þrotabúa hefur verið sú að þeir sem koma að rekstri félaga eigi ekki rétt á forgangskröfum. Þeir eru taldir vita meira um stöðu viðkomandi félags en venjulegir starfsmenn og um það var tekist í máli fjármálastjórans fyrrverandi.

Hæstiréttur segir að miðað við gögn málsins sé ljóst að Stefán Eysteinn hafi setið fundi stjórnar og veitt henni upplýsingar um fjárhagslega stöðu félagsins. 

Þá kom fram að gerð hefði verið viðbót við ráðningarsamning hans þar sem uppsagnarfrestur var framlengdur í tólf mánuði. Laun sem Stefán fengi hjá öðrum vinnuveitanda áttu ekki að dragast frá uppgjöri launa á uppsagnarfresti.

Í dómnum kemur fram að þetta hafi verið gert fyrir hóp starfsmanna sem áttu í viðræðum við hugsanlegan kaupanda félagsins. Hugsunin hefði verið sú að tryggja þyrfti að allt stjórnendateymið myndi ekki hverfa á braut við sölu félagsins heldur hefði nýr eigandi aðgang að því.

Hæstiréttur taldi því að Stefán Eysteinn hefði verið lykilstjórnandi og hefði sem framkvæmdastjóri fjármálasviðs haft yfirsýn yfir fjármál þess á hverjum tíma. Hann hefði stýrt daglegum rekstri félagsins og það breytti engu þótt eigandi félagsins og aðstoðarforstjóri hefðu jafnframt stýrt daglegum rekstri.  Var kröfu Stefáns því hafnað.