Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Fimm frekar furðuleg fyrir helgina

Mynd með færslu
 Mynd: UMG - Talking Reality Television Blues

Fimm frekar furðuleg fyrir helgina

29.01.2021 - 12:40

Höfundar

Fimman er frekar furðuleg í enda janúar þegar flest gleðjast yfir því að vera búin með 2021-átakið. Það er boðið upp á alls konar franskt þar, Wax Tailor vinnur með Mark Lanegan og SebastiAn endurhljóðblandar Y.O.G.A. Einnig kemur Darkside-dúettinn við sögu og auk þess Steven Wilson og Tom Jones... já, ég sagði Tom Jones.

Wax Tailor með Mark Lanegan – Just A Candle

Franski hipphoppmógúllinn Wax Tailor sendi frá sér breiðskífunna The Shadow of Their Suns 8. janúar. Á skífunni koma ýmsir góðir gestir við sögu eins og t.d. rappararnir Del the Funky Homosapien og D Smoke, gamla fönkgoðsögnin Gil Scott-Heron, söngkonan Adeline og grunge-tarfurinn illa stemmdi, Mark Lanegan úr The Screaming Trees, sem virðist reyndar liggja nokkuð vel stemmdur í laginu Just a Candle.


Darkside – Liberty Bell

Tónlistarmennirnir Nicolás Jaar og Dave Harrington kynntust þegar þeir voru við nám í Brown-háskóla og stofnuðu eftir stutt samstarf sveitina Darkside. Þeir hafa ýmislegt brallað saman þótt platan Spiral, sem kemur út í vor hjá Matador, sé það fyrsta sem kemur frá þeim síðan 2013 en þá endurgerðu þeir plötu Daft Punk, Random Access Memories undir nafninu Daftside.


Y.O.G.A. – Your Devotion (SebastiAn Remix)

Þegar það vantar smá stuð í lagið er hringt í franska stuðboltann SebastiAn hjá Ed Banger Records og hann reddar málunum hið snarasta. Að þessu sinni er það sveitin Y.O.G.A. sem hringdi eftir hjálp en sá franski hefur komið víða við og endurhljóðblandað og samið lög auk þess að stjórna upptökum fyrir listamenn eins og Charlotte Gainsbourg, Daft Punk, Beastie Boys, Bloc Party, Editors, Kavinsky, Frank Ocean og fleiri auk þess að gefa út tvær plötur.


Steven Wilson – King Ghost

Tónlistarmaðurinn og lagahöfundurinn Steven Wilson hefur, eins og franski SebastiAn, unnið bak við tjöldin með ansi mörgum þekktum tónlistarmönnum í á löngum ferli og er með Elton John, Tears for Fears, Roxy Music, XTC, Ultravox og marga fleiri á ferilskránni, auk fjögurra tilnefninga til Grammy-verðlauna. Í dag kemur út sjötta sólóplata hans, The Future Bites, sem hefur fengið prýðilega dóma og inniheldur lagið King Ghost.


Tom Jones – Talking Reality Television Blues

Velski stórsöngvarinn og ellilífeyrisþeginn Tom Jones jók á óreiðuna og óvissuna í heiminum með því að senda frá sér rokklagið Talking Reality Television Blues um miðjan janúar. Það sem er kannski langskrítnast við þá atburðarás er að lagið, sem hljómar eins og blanda af Radiohead og Tom Waits, er bara ansi gott.


Fimm á föstudegi