Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Yfirfara öryggisráðstafanir í kjölfar skotárásar

28.01.2021 - 22:10
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra ætlar í samráði við ríkislögreglustjóra að yfirfara öryggisráðstafanir í kringum embættismenn í ljósi skotárásarinnar á bíl borgarstjóra. Hún segist líta málið alvarlegum augum.

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu rannsakar nú skotárás á bíl borgarstjóra fyrir framan heimili hans í síðustu viku. Tvær byssukúlur hafa fundist í bílnum en hann var mannlaus þegar árásin átti sér stað. Þá er einnig til rannsóknar hvort þetta mál tengist skotárás sem gerð var á húsnæði Samfylkingarinnar um svipað leyti. Svipaðar árásir hafa einnig verið gerðar á skrifstofur annarra stjórnmálaflokka.

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsálaráðherra segir þetta vera alvarlegt mál.

„Ég lít á þetta mjög alvarlegum augum, og eðlilega. Stjórnmálamenn eins og aðrar eiga að hafa öryggi heima hjá sér en því miður höfum séð þetta koma fyrir áður,“ segir Áslaug Arna.

Hún vill skoða hvort þörf sé á því að herða öryggisráðstafanir í kringum borgarstjóra og aðra embættismenn vegna þessa.

„Ég hef þegar rætt við ríkislögreglustjóra og við munum halda því samtali áfram,“ segir Áslaug. 

Höskuldur Kári Schram
Fréttastofa RÚV