Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Um tvö hundruð konur þurfa að fara aftur í sýnatöku

Mynd með færslu
 Mynd: Þór Ægisson - RÚV
Kristján Oddsson, svæðisstjóri og fagstjóri lækninga hjá heilsugæslunni í Hamraborg segir að tíu til 15 prósent þeirra kvenna sem áttu leghálssýni í geymslu verði kallaðar í sýnatöku á ný vegna þess að rannsóknarstofa í Danmörku, sem samið hefur verið við um greiningu á þeim, getur ekki notað eldri sýnin til að frumugreina þau. Það eru á milli tvö og þrjú hundruð konur.

Skimanir færðust um áramótin yfir til heilsugæslunnar og þá voru sýnin 2000 sem höfðu verið í geymslu send á heilsugæsluna í Hamraborg.
 
Kristján segir að danska rannsóknarstofan hafi tekið að sér að greina sýnin og það hafi verið ódýrara heldur en ef það hefði verið gert á Landspítalanum. Danska rannsóknarstofan geti hins vegar ekki frumugreint sýnin.  
„Af því það er annar framleiðandi. Þegar þetta er greint og sýni reynast jákvæð að þá er það sett niður á sýnaglas. Ég held að það sé bara svo mikil átómatisering í þessu þannig að þeirra tækjabúnaður er ekki byggður fyrir tæki frá öðrum framleiðanda til að gera akkúrat þetta.“
 
Kristján segir að sýnin verði öll HPV greind hjá dönsku rannsóknarstofunni. 1000 sýni hafa þegar verið send til Danmerkur og von er á fyrstu svörum í dag. Restin verður send út eftir helgi. Þau sýni sem koma út jákvætt hefðu verið frumugreind en í stað þess verða konurnar kallaðar aftur í sýnatöku.

Gera má ráð fyrir að milli 10 og 12 prósent sýna séu HPV jákvæð. „Þannig ef að aldurssamsetning í þessum pappakassasýnahópi er mjög lág þá má kannski reikna með að tíðnin gæti verið hærri. Þannig að það gæti verið á bilinu 200 til 300 konur. Við höldum að það eigi ekki að vera meira.“