Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Telur líklegt að yfirvöldum í Brasilíu hafi skjátlast

Mynd með færslu
 Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon
Smitsjúkdómalæknir segir að nýtt kórónuveiruafbrigði í Brasilíu veki ákveðinn ugg. Hann telur þó líklegra en ekki að þau bóluefni sem hafa verið þróuð vinni á því. 

Það eru til mörghundruð afbrigði af kórónuveirunni sem veldur COVID-19 en þrjú stökkbreytt afbrigði hennar hafa verið mikið til umræðu síðustu daga; breska, suður-afríska og brasilíska afbrigðið. Þau eru talin meira smitandi og óljóst hvort öll bóluefnin virki á þau. Vísindamenn fylgjast sérstaklega vel með brasilíska stofninum. „Það sem að veldur nokkrum ugg er að þessi tiltekni stofn eða afbrigði í Brasilíu náði gríðarlega mikilli útbreiðslu á skömmum tíma á svæði þar sem menn töldu að mjög stór hluti íbúa væri þegar kominn með mótefni,“ segir Magnús Gottfreðsson, yfirlæknir á smitsjúkdómalækninga á Landspítala. 

Telur að heilbrigðisyfirvöldum í Manaus hafi skjátlast

Rannsóknir meðal blóðgjafa bentu til þess að 76% íbúa í milljónaborginni Manaus í Brasilíu væru komin með mótefni gegn veirunni, en nú greinast tugþúsundir smita á dag. Magnús telur líklegt að bóluefnin vinni á brasilíska afbrigðinu þar sem það er mjög svipað því suður-afríska og bóluefni virðist vinna á því. Hann telur ólíklegt að veiran hafi þróast þannig að hún geti sýkt fólk með mótefni. Hann telur líklegra að heilbrigðisyfirvöldum í Manaus hafi skjátlast í mati sínu á hjarðónæmi á svæðinu. „Að mjög stór hluti íbúa hafi ekki erið með neina vörn.“ Þá hafi einungis tekist að staðfesta eitt tilvik á svæðinu þar sem manneskja sýktist í tvígang. 

Verður baráttan við Covid-19 langvinn

Sumir telja að kórónuveiran verði þrálát eins og inflúensan, vísindamenn verði eins og köttur að elta mús, alltaf að reyna að aðlaga bóluefnið að nýjum stofnum. Magnús segir að sennilega myndi veiran þá slappast með tímanum, verða eins og venjuleg kvefpest eftir sirka tíu ár. „Það er svona líklegasta spáin sem ég myndi veðja á,“ segir Magnús. 

Margt á huldu að mati sóttvarnalæknis

Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir segir að margt sé enn á huldu varðandi nýju afbrigðin þrjú. „Mér finnst viðbrögðin vera svolítið mikil gagnvart  þessum afbrigðum að því leytinu til  að við þurfum að fá fleiri svör við okkar spurningum t.d. mun bóluefni virka það eru upplýsingar frá Pfizer og sömuleiðis Astra Seneca að bóluefnið virðist virka.“