Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Sóttvarnalæknir segir enga þörf á að loka landamærum

Mynd með færslu
 Mynd: Almannavarnir
Sóttvarnalæknir segir enga ástæðu til að fylgja fordæmi nágrannaþjóða og herða aðgerðir á landamærum hér. Tvöfalda skimunin hafi sannað gildi sitt, þó hún sé ekki alveg óbrigðul. Frekari aflétting takmarkana kemur til greina á næstunni.

 

Fá smit greinast hér þessa dagana og nýgengi hefur ekki verið lægra frá í júlí. Allt í kringum okkur glymja aftur á móti viðvörunarbjöllur og ný afbrigði, sem virðast meira smitandi, breiðast hratt út. Noregur lokaði í gær landamærum sínum fyrir nær öllum nema íbúum landsins, og yfir 20 ríki hafa gripið til svipaðra aðgerða. „Það er það eina sem þau geta gripið til núna einn, tveir og þrír með hraði, að loka nánast landamærunum, þau eru ekki búin að þróa aðferðafræði til að skima á landamærunum,“ segir Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir. Hér hafi aftur á móti verið skimað kerfisbundið frá í sumar og ekki þörf á þeirri nauðvörn að loka landamærunum.

Á varðbergi gagnvart breska afbrigðinu

Breska afbrigðið hefur greinst 48 sinnum á landamærunum og 8 sinnum innanlands í tengslum við landamærasmitin. Brasilíska og suður-afríska afbrigðið hefur ekki greinst hér enn. Þórólfur segir mikilvægt að vera á varðbergi gagnvart þessum nýju afbrigðum. 

Hér eru öll sýni raðgreind en Þórólfur segir það aðeins eiga við um lítinn hluta sýna í löndunum í kringum okkur. „Með þessari raðgreiningu sem við erum að nota þá sjáum við hvernig kerfið á landamærunum virkar, hvort við erum að missa veiru inn í samfélagið eða ekki og ég held við verðum að treysta því, þetta hefur gefist mjög vel og ég sé ekki ástæðu til að breyta því þó við séum með ný afbrigði af veirunni.“

Tvö eða þrjú smit sem greindust ekki í tvöfaldri skimun

Með tvöföldu skimuninni hefur tekist að greina 590 smit og Þórólfur segir afar fátítt að fólk greinist eftir að hafa reynst neikvætt í bæði fyrri og seinni skimuninni,  það séu tvö eða þrjú slík tilvik og ekki ástæða til að lengja skimunarsóttkví vegna þeirra. 

Núverandi sóttvarnareglur gilda til 17. febrúar en Þórólfur telur koma til greina að létta hömlum fyrr. Það þurfi þó að fara mjög varlega. Hann segir að það séu ekki miklar takmarkanir hér á landi ef miðað sé við ástandið víða erlendis. Lokað sé á börum og krám, og takmarkanir á opnunartíma veitingastaða. „En þetta er náttúrlega alger barnaleikur miðað við það sem nágrannaþjóðir okkar eru að fást við og ég held að við þurfum að halda því þannig heldur en að opna fyrir þann möguleika að hleypa annarri bylgju af stað.“