Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Skotárásin mikið áfall og vekur alls konar tilfinningar

Mynd: Freyr Arnarson / RÚV
Dagur B. Eggertsson borgarstjóri er verulega sleginn eftir að skotið var úr byssu í gegn um farþegahurðina á bíl fjölskyldu hans. Árásin var að öllum líkindum gerð fyrir utan heimili fjölskyldu hans. Dagur segist ekki vilja trúa að þetta sé orðið einhvers konar norm í samfélaginu, að fólk í opinberum stöðum eigi á hættuað verða fyrir skaða, en nú sé mælirinn fullur. Hann segist hafa fengið hlýjar kveðjur frá langflestum samstarfsmönnum sínum í borgarstjórn, en þó ekki öllum.

Höskuldur Kári Schram fréttamaður hitti borgarstjórann í Ráðhúsi Reykjavíkur í dag, fimmtudag, og ræddi við hann um skotárárásina sem var gerð á bíl hans. Hægt er að horfa á viðtalið í heild sinni í spilaranum hér að ofan. 

Byssukúlur inni í farþegahurðinni

„Ég var við vinnu hér seinnipartinn á laugardag og konan mín sækir mig, við vorum á leið í matarboð. Ég er að stíga inn í bílinn og tek ég eftir gati á miðri farþegahurðinni sem vakti spurningar. Þannig að ég setti mig í samband við lögreglu sem brást mjög hratt og fagmannlega við, tók bílinn til rannsóknar og við fengum svo þær upplýsingar á sunnudeginum að það höfðu fundist kúlur inni í hurðinni.” 

Og er það rétt að það hafi verið lögregluvörður við heimili þitt um helgina? 

„Það var gripið til ráðstafana út af þessu. Við erum bara þakklát fyrir það.” 

Þetta gat var ekkert eðlilegt. Þetta er nýlegur og sterklegur bíll og þarna var gat í gegn. En þetta er samt eitthvað sem maður ýtir svolítið frá sér þar til maður fær staðfestingu á því, vegna þess að í mínum huga er brotið blað með svona atburði. 

Þið vitið ekki nákvæmlega hvenær þetta gæti hafa gerst? 

„Nei, ekki nákvæmlega. Málið er bara í höndum lögreglu og er þar til rannsóknar og ég held að lögreglan verði að fá frið til að vinna úr þessu. En auðvitað skiptir mjög miklu máli að það gangi hratt og vel.” 

Er alveg öruggt að þetta hafi gerst fyrir framan heimili þitt? 

„Það bendir allt til þess. En rannsókn lögreglu hlýtur líka að beinast að því.” 

- Hvernig varð þér um? 

- Illa. Það er auðvitað höggvið ansi nærri manni þegar heimili manns, því þar býr, ekki bara ég heldur fjölskylda mín og krakkarnir. Þannig að... já. Illa. 

Hvað segir konan þín og þau sem standa þér nærri? 

„Við höfum auðvitað bara reynt að halda sjó síðustu daga. Viðbrögð allra hafa einkennst af ótrúlegu æðruleysi. En þetta auðvitað tekur svolítið yfir lífið, ég neita því ekki, en um leið og við gefum lögreglu núna bara færi á að vinna málið þá vil ég bara slá skjóli um fjölskylduna og hafa það bara út af fyrir okkur.” 

Getur þetta verið til marks um að við séum að ganga inn í nýja tíma í pólítík á Íslandi? Þar sem þeir sem gegna opinberum stöðum geta átt von á svona hlutum? 

„Ég ætla sannarlega að vona ekki. En þetta, ásamt ýmsu öðru, held ég að ætti að verða okkur tilefni til að ræða hvernig við viljum hafa umræðuna, samfélagið. Það taka allir eftir þeirri hörku sem er hlaupin í ýmiss samskipti, það eru stór orð sem eru notuð og þar berum við öll sem samfélag ábyrgð. Hvar við drögum mörkin.”

„Hættan er alltaf sú að línan færi alltaf aðeins lengra... og í mínu hjarta þá er komið hingað og ekki lengra.” 

- Þú ert reiður, heyri ég. 

„Það bærast alls konar tilfinningar.” 

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Tvö göt eru á aftari farþegahurð bíls Dags. Byssukúlur fundust innan í hurðinni.

Áróðursmyndband með heimili Dags

Það hefur birst myndband, þar sem er keyrt fram hjá húsinu þínu. Þessu myndbandi tengjast andstæðingar þínir í pólitík. Hvað finnst þér um þetta myndband? 

„Ég lá ekkert á því á sínum tíma að það vakti með mér óhug og mér fannst þarna verið að fara í einhverja nýja átt sem við höfum ekki séð áður í íslenskri pólitík eða samfélagsumræðu - að birta auglýsingar sem beinast að heimili fólks. Og ég stend við það. Við vitum hins vegar ekkert um þetta atvik sem getur fengið mig til að fullyrða um einhver orsakatengsl. Þetta er bara hluti af þessu umhverfi sem við hljótum öll að vera hugsi yfir. Og þurfum að spyrna fótum við. Mér fannst það þá og ekki síður í dag.” 

Verður gripið til einhverra sérstakra öryggisráðstafana hér við ráðhúsið út af þessu? 

„Ég get ekkert farið út í það. Málið er í höndum lögreglu og það er metið að þeirra hálfu til hvaða ráðstafana er gripið hverju sinni. Það getur líka verið breytilegt eftir hvaða mat þeir leggja á það.”

Hefur hugsað ýmislegt síðustu daga 

Fær þetta atvik þig til að hugsa um hvort þú haldir áfram í pólitík? 

„Ég hef hugsað ýmislegt síðustu daga.” 

Hefurðu verið í samskiptum við þína kollega í borgarstjórn út af þessu? 

„Já, mér fannst ábyrgðarhluti að gera það ekki. Þannig að í samráði við lögreglu þá lét ég vita bæði inn í meirihlutann og gagnvart oddvitum minnihlutans. Þannig að fólki væri þetta ljóst og að þetta væri til rannsóknar hjá lögreglu.” 

„Ég fékk góðar kveðjur frá allra flestum.” 

- Ekki öllum samt? 

„Við skulum ekki hafa nein orð um það.”