Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Ók á móti umferð, yfir á rauðu og endaði á vegriði

28.01.2021 - 06:20
Mynd með færslu
 Mynd: Kristinn Gauti Gunnarsson - RÚV
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hafði í gærkvöldi afskipti af ökumanni sem sinnti ekki merkjum um að stöðva ökuferðina. Maðurinn ók gegn einstefnu og fór yfir á rauðu ljósi. Ferðin endaði með því að ökumaðurinn keyrði ítrekar utan í vegrið, samkvæmt því sem segir í dagbók lögreglunnar.

Hann er grunaður um akstur undir áhrifum fíkniefna og áfengis og var fluttur í fangaklefa.

Fljótlega eftir miðnættið hafði lögregla afskipti af ungum manni í annarlegu ástandi í hverfi 108. Hann hafði sparkað upp hurð fjölbýlishúss og skemmt hana. 

Þá var lögregla kölluð til í Kópavogi í gærkvöld þar sem kona reyndi að taka út lyfseðilsskyld lyf í apóteki fyrir aðra manneskju. Sá kannaðist ekkert við konuna og var hún vistuð í fangaklefa vegna rannsóknar málsins. Hún er einnig grunuð um akstur undir áhrifum.

Seinni partinn í gær barst lögreglu tilkynning um að ekið hefði verið á unglingsstúlku sem var nýkomin út úr strætisvagni. Hún kenndi sér eymsla í fæti og var flutt á slysadeild til aðhlynningar. 

bjarnir's picture
Bjarni Rúnarsson
Fréttastofa RÚV