
Mynd af Sanders færir góðgerðarfélögum milljónir
Myndina þekkja líklega flestir, þar sem Sanders situr í úlpunni sinni og með þykka lopavettlinga á höndum. Síðan hefur myndin farið víða, og það bókstaflega þar sem gárungar á vefnum stilltu Sanders upp við alls konar bakgrunn. Sanders nýtti myndina og prentaði á boli og annan varning, sem hefur selst eins og heitar lummur. Að sögn AFP fréttastofunnar seldist fyrsta prentun af bolum og peysum með myndinni upp aðeins hálftíma eftir að sala hófst á þeim í síðustu viku. Í yfirlýsingu segir Sanders að hann og eiginkona hans Jane séu ótrúlega ánægð með sköpunargleði netverja undanfarna viku. Þau eru einnig ánægð með að geta notað þessar óvæntu vinsældir til að aðstoða þá íbúa Vermont sem virkilega þurfa á að halda.
OFFICIAL CHAIRMAN SANDERS TSHIRTS small-3xl IN the store and CURRENTLY IN STOCK https://t.co/FQe7AaBNTJ pic.twitter.com/wxTsMHKDR0
— People for Bernie (@People4Bernie) January 24, 2021
Alls hefur 1,8 milljón bandaríkjadala safnast með sölunni, jafnvirði um 230 milljóna króna. Sanders segir það þó ekki koma í stað aðgerða stjórnvalda. Hann ætli að halda áfram að berjast fyrir því að þingmenn samþykki að koma vinnandi fólki í Vermont og víðar í Bandaríkjunum til aðstoðar í þessari djúpu kreppu.