Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

„Ég hefði getað verið kominn inn í skálann“ 

28.01.2021 - 16:42
Þrátt fyrir tugmilljóna tjón á skíðasvæðinu á Siglufirði eftir snjóflóð er stefnt að því að opna svæðið aftur innan fárra daga. Litlu munaði að starfsmaður hefði verið á svæðinu þegar flóðið féll.

Breitt og mikið flóð

„Þetta snjóflóð kemur hérna úr toppnum, Illviðrishnjúknum sem er hérna beint fyrir ofan svæðið og þar sést í brotstálið og þetta er bara nokkuð breitt og mikið flóð og það fellur bara beint á þessa húsaþyrpingu. Það eyðileggur skálann algjörlega, við erum hérna með fjóra gáma sem skíðaleigan okkar var í, það er allt farið. Snjótroðarinn okkar er sennilega nokkuð skemmdur og verkstæðisaðstaðan okkar hérna á svæðinu, við erum ekki farnir að sjá það ennþá,“  segir Egill Rögnvaldsson umsjónarmaður skíðasvæðisins í Skarðsdal.

Heppinn að verða ekki undir flóðinu

Nú er rúm vika síðan snjóflóðið féll á skíðasvæðið og ljóst er að tjónið er gríðarlegt. Minnstu munaði að umsjónarmaður væri staddur hér í miðasöluskúrnum þegar ósköpin dundu yfir.

„Á þriðjudaginn 20. janúar þá ákváðum við um morguninn að nú skyldum við ekki fara hérna beint upp eftir heldur ákváðum að fara inn í bakarí og fá okkur kaffi því veðrið var ekkert sérstakt og síðan ætluðum við að fara hérna upp eftir og ná í annan troðarann sem var hér geymdur, hinn var hérna niður í bæ. Og þegar við konum hérna svona korter í 10 þá komum við að þessu svona, allt í rúst og auðvitað svakalegt sjokk.“ 

Þannig að þið hefðuð allt eins geta verið hérna?

„Sko ég hefði getað verið kominn inn í skálann já, það er bara klárt.“ 

Skíðaskálinn var á skilgreindu hættusvæði, Egill segir að færa hefði átt svæðið fyrir mörgum árum síðan. „Það er náttúrlega búið að standa til í 10-12 ár að fara á annan stað, öruggari stað. Hann er hérna ofar í fjallinu og því miður þá hefur það ekki gerst en ef við hefðum verið búnir að færa okkur þá værum við ekki í þessu tjóni í dag.

Stefna á að opna aftur eftir 10 daga

Elías Pétursson bæjarstjóri Fjallabyggðar er vongóður um að hægt verði að opna svæðið fljótt aftur. „Nú er bara fram undan að hreinsa svæðið og síðan að byggja til bráðabirgða þannig að það sé hægt að opna það,“  segir Elías.

Þannig að þið stefnið ótrauð á að opna aftur í vetur?

„Já já klárlega. Það verður bara opnað eftir 10 daga ef veður verður þokkalegt.“  

Mynd með færslu
 Mynd: Óðinn Svan Óðinsson - RÚV
Mynd með færslu
 Mynd: Óðinn Svan Óðinsson - RÚV