Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Andi í efnisleit í Nýló

Mynd: Menningin / RÚV

Andi í efnisleit í Nýló

28.01.2021 - 10:15

Höfundar

Salthlaðið parísarhjól, ketilbjöllur úr leir og hráolía í glerkúpli er meðal þess sem ber fyrir sjónir á samsýningunni Veit andinn af efninu? sem var opnuð í Nýlistasafninu á dögunum.

Á sýningunni velta þau Sindri Leifsson, Ragnheiður Gestsdóttir og Sigrún Hrólfsdóttir því fyrir sér hvernig mannleg kerfi og náttúrulegir togkraftar móta daglegt líf okkar. 

„Aðdragandinn er svolítið skemmtilegur,“ segir Sunna Ástþórsdóttir, sýningarstjóri.  „Einu sinni á ári óskum við frá tillögum frá félögum safnsins a að sýningu og þau Sigrún, Ragnheiður og Sindri sóttu öll um í sitthvoru lagi. Stjórn Nýlistasafnsins kom auga á samhljóm en líka skemmtilegar andstæður í þeirra sýningum sem væri gaman að leiða saman í eina sýningu.“ 

Það sem bindur verkin saman að sögn Sunnu er listamennirnir eru allir að „velta fyrir sér manngerðum kerfum og öflum sem virka í okkar samfélagi og heiminum öllum og hafa  áhrif á daglegt líf okkar. En þau nálgast viðfangsefnið á mjög ólíkan hátt.“ 

Salthlaðið parísarhjól, ketilbjöllur úr leir og hráolía í glerkúpli er meðal þess sem ber fyrir sjónir á samsýningunni Veit andinn af efninu? sem var opnuð í Nýlistasafninu á dögunum. 

Á sýningunni velta þau Sindri Leifsson, Ragnheiður Gestsdóttir og Sigrún Hrólfsdóttir því fyrir sér hvernig mannleg kerfi og náttúrulegir togkraftar móta daglegt líf okkar.
 Mynd: Menningin - RÚV

Sindri Leifsson sýnir tvö verk á sýningunni. Hið fyrra nefnist Salt jarðar og er Parísarhjól úr stáli, sem snýr litlum hraukum af salti sem Sindri vann sjálfur úr sjónum við Laugarnestanga. 

„Saltið hefur verið mér hugleikið. Undanfarin hundrað ár eða svo hefur salt sem munaðarvara orðið miklu aðgengilegri. Það er líka eitthvað merkilegt við það að geta sótt sér salt til notkunar í næsta umhverfi. Parísarhjólið sem slíkt er ákveðin skemmtun en í virkni þess er að þú breytir svolítið um sjónarhorn.“ 

Ragnheiður Gestsdóttir er með þrískipt verk sem samanstendur af ljósmyndum frá byrjun 20. aldar, ketilbjöllum úr leir og burðarsúlu úr vaxi.

Hún segist hafa verið byrjuð að vinna með ketilbjöllurnar áður en þær urðu ein eftirsóttasta munaðarvara landsins.

„Þetta er ótrúleg tímasetning, að þetta smelli svona saman. En ég er að spá í hvernig listamenn nota líkamann til að búa hluti til og nota meðal annars þetta efni, leirinn sem hefur verið notaður frá upphafi alda í myndlist. Ég nota mínar eigin hendur til að búa til eitthvað til sem ætti síðan að nota til að móta líkamann. Svo verður þetta algjörlega gagnslaust því bjöllurnar eru innantómar og alltof léttar en þannig verður þetta líka að einhverjum skrautmuni.“ 

Segja má að myndir Sigrúnar Hrólfsdóttur séu límið sem bindur sýninguna saman en þær eru dreifðar um allt rýmið og búa til samtal milli verkanna. 

„Ég er málaði myndir af bönkum, gagnaveri og hlutum sem eru á netinu, t.d. fyrstu myndina sem Kylie Jenner birti af barninu sínu, Stormy, á Instagram. Í þessum myndum er kannski eitthvað samhengi sem er okkar samtími. Það hvernig hlutirnir eru að vinna saman, peningarnir og náttúrulegar bjargir eru nýttar til að miðla einhverju í gegnum netið þar er spilað með tilfinningar okkar. Þetta er það sem verður á vegi mínum í í mínum daglegum athöfnum.“ 

Fjallað var um sýninguna í Menningunni. Horfa má á innslagið hér að ofan.