Vildi frekar beikonbát en að keppa á Ólympíuleikum

Mynd: History Channel / YouTube

Vildi frekar beikonbát en að keppa á Ólympíuleikum

27.01.2021 - 07:46

Höfundar

Leikkonan og fyrrverandi sundkonan Ragnheiður Ragnarsdóttir setti sér markmið að leika í sjónvarpsþáttunum Vikings. Hún skrifaði markmið sín niður á blað og sendi sér jafnvel tölvupósta með þeim. Að lokum skilaði það árangri og nú er nýbúið að sýna lokaþættina þar sem Ragnheiður lék stórt hlutverk.

Þegar Ragnheiður gerðist leikkona og fékk sér umboðsmann í Bandaríkjunum saup hann hveljur yfir nafninu og gaf til kynna að enginn myndi vilja vinna með henni ef fólk gæti ekki borið fram nafnið hennar. Hún sagði að það væri lítið vandamál, hún væri aldrei kölluð Ragnheiður Ragnarsdóttir og hún kæmi fram undir nafninu Ragga Ragnars. „Í skóla var ég alltaf kölluð Ragga frænka eða Ragga sund. Ég átti frænku sem var í sama árgang og Ragnheiður Gröndal var í sama árgangi. Þannig að það var Ragga G og svo Ragga frænka eða Ragga sund. Ég hef aldrei verið kölluð Ragnheiður, nema þegar mamma er að skamma mig,” segir Ragnheiður, en hún var gestur Felix Bergssonar í Fram og til baka á Rás 2. 

Ragnheiður sló fyrst í gegn sem sundkona og var ellefu ára þegar hún varð allt í einu góð í sundi. „Það gerðist bara á einni viku að ég synti allt í einu hratt,” segir Ragnheiður. Hún var mjög hávaxin á þessum aldri og gat nýtt líkamsbyggingu sína í að ná betri árangri. Þegar hún var 19 ára keppti hún á sínum fyrstu Ólympíuleikum sem voru haldnir í Aþenu árið 2004 og fjórum árum síðar keppti hún á leikunum í Peking í Kína. Ólíkt mörgum öðrum keppendum segist Ragnheiður ekki hafa fengið neitt menningarsjokk við komuna til Kína. „Ég fæ aldrei menningarsjokk. Það er eitt af því sem ég hef ekki skilið þegar fólk talar um það,” segir Ragnheiður sem fagnar ávallt að geta prufað eitthvað nýtt. „Ég fæ algjörlega andstæðuna við sjokk. Ég fæ meira að ég sé að prófa eitthvað nýtt. Það er milljarður manna í Kína sem býr svona og borðar þetta á hverjum degi og nú fæ ég að upplifa það. Þetta er eitt af því sem ég elska að gera,” segir Ragnheiður.

Stefnan var sett á Ólympíuleikana í Lundúnum árið 2012 en skömmu fyrir leikana varð Ragnheiður ólétt af syni sínum. Hún hafði æft mikið fyrir leikana og varð mjög veik í upphafi árs 2012. „Ég var orðin þreytt, ég fann að líkaminn var að biðja um hlé frá sundinu. En ég ætlaði að keyra í gegn og á Ólympíuleikana og ég var búin að ná ákveðnum lágmörkum og ég var alveg á góðri siglingu,” segir Ragnheiður. Hún æfði alveg fram að leikunum því hún ætlaði sér að keppa þrátt fyrir að vera ólétt. „Ég var bara of þreytt. Við vorum í Mónakó að keppa, þetta var síðasta stórmótið fyrir Ólympíuleikana. Það var verið að kalla upp í riðilinn á undan þeim sem ég var í og ég var inn á baði að gubba,” segir Ragnheiður.

Þegar hún beið að röðin kæmi að sér á mótinu stóð hún á bakkanum að borða kex þar sem líkaminn öskraði á kolvetni. Hún kláraði bæði kexið og sundið en synti þó ekki hratt. „Ég fann að líkaminn var að segja: „Hættu þessu, farðu heim og fáðu þér beikonbát á Nonnabita,” segir Ragnheiður.

Eftir að sonur Ragnheiðar kom í heiminn hætti hún í rauninni að æfa sund þrátt fyrir að taka þátt í nokkrum keppnum og hún vann meira að segja nokkra Íslandsmeistaratitla. Hún fann þó ekki löngunina til að æfa aftur. 

Ætlaði sér hlutverk í Vikings

Aginn og undirbúningurinn sem fylgir sundinu hefur einnig komið henni vel í öðrum verkefnum og þar á meðal í leiklistinni. Hún ákvað að taka leiklistarnámskeið í Los Angeles enda hefur hún alltaf kunnað vel við sig í Kaliforníu. Ragnheiður byrjaði á átta vikna námskeiði og ákvað í kjölfarið að skrá sig í eins árs nám. Hún hringdi svo í bróðir sinn og sagði honum að hann þyrfti líka að skrá sig. Hann tók hana á orðinu og þau systkinin voru saman í bekk í leiklistarskólanum og vinna bæði við kvikmyndagerð í dag. 

Ragnheiður segist aldrei hafa haft efasemdir um að ná árangri í leiklistinni. „Ég hafði aldrei neinar efasemdir um það hvort ég ætti möguleika. Þetta var spurning tíma hjá mér,” segir Ragnheiður. Ætlunin var þó alls ekki að slá í gegn með að leika í hverju sem er. Markmiðið var alltaf að leika í Vikings-þáttunum. Í náminu kynntist hún mörgum sem störfuðu í þessum iðnaði og hún var dugleg að spyrja fólk hvort einhver gæti komið henni í samband við starfslið Vikings-þáttanna.

Til að ná þessu markmiði sínu skrifaði hún markmið sín niður í litlar bækur auk þess að stofna nýtt netfang þaðan sem hún sendi tölvupósta á sjálfa sig með ítarlegum markmiðum. Þar útlistaði hún til dæmis að hún ætlaði sér að leika drottningu sem væri góð í að berjast. Eftir að draumurinn rættist sat Ragnheiður á kaffihúsi með meðleikkonu sinnu, Katheryn Winnick, og fór að segja henni frá skrifum sínum. Í upphafi trúði Katheryn henni ekki en Ragnheiður sýndi henni tölvupóstana sína og trúði Katheryn þá vart eigin augum. „Hún sagði: „Ég ætla að byrja að gera svona,” segir Ragnheiður. 

Þurfti að tímasetja pissupásur

Líf stórleikara í Vikings er þó ekki alltaf dans á rósum en Ragnheiður segir að fjölmargar manneskjur hafi hjálpað henni að komast í gegnum kalda og blauta daga í moldinni. Senurnar voru æfðar í litlum hlýjum skúr með mjúkum mottum á gólfinu. „Svo kemur þú út og þarft að vaða 10-20 sentimetra blauta mold, þarft að hlaupa upp brekkur og öskra,” segir Ragnheiður. Í tökunum þarf hún einnig að vera í öflugum búning, eins konar brynju sem hún segir vera eins og korsett. „Það er ekki auðvelt að fara í og úr þessu þannig að ég komst snemma að því að pissustopp væru ekki beint í boði. Ég drekk rosalega mikið vatn þannig að ég var farin að ákveða hvenær ég gæti drukkið vatn svo ég gæti pissað áður en ég fór í vinnuna og drekka svo eiginlega ekkert vatn yfir daginn fyrr en í lokin og þá mátti ég fara á klósettið aftur. Að fara í og úr var eiginlega klukkutíma verk,” segir Ragnheiður.

Þrátt fyrir að tökum á Vikings sé lokið situr Ragnheiður ekki auðum höndum og vinnur hún mikið í talsetningum fyrir tölvuleiki. Hún er einnig að vinna að bæði handriti og barnabók en í barnabókinni er hún að vinna með Sigurði Val Sigurðssyni, teiknara. „Nú er ég að kjafta frá því við erum ekki búin að segja neinum frá þessu. Þetta sparkar aðeins í rassinn á okkur að fólki viti af þessu.”

Hægt er að hlusta á þáttinn í heild sinni hér.