Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

„Vesturfarasetrið er þarna beint fyrir neðan“

27.01.2021 - 10:40
Samsett mynd
 Mynd: RÚV
Lögreglan á Norðurlandi vestra ákvað í nótt að loka hafnarsvæðinu á Hofsósi vegna snjóflóðahættu. Vesturfarasetrið á Hofsósi er staðsett undir stórum fleka sem lögreglan óttast að geti farið af stað. Björgunarsveitir vakta svæðið.

Bíða eftir að Veðurstofan meti ástandið

Í tilkynningu sem lögreglan sendi frá sér kemur fram að lokunin nái yfir hafnarsvæðið frá göngubrú yfir Hofsá við Frændgarð og yfir að Nöfum. Öll umferð um svæðið er bönnuð þar til annað verður ákveðið. Sigurður Hólmar Kristjánsson, settur lögreglustjóri á Norðurlandi vestra, segir að fylgst verði vel með svæðinu þar til Veðurstofan hefur metið aðstæður. „Við erum í rauninni bara að bíða. Það er að koma maður frá snjóflóðaeftirlitinu hjá Veðurstofunni að skoða þetta á eftir.“ 

„Vesturfarasetrið er þarna beint fyrir neðan“

Sigurður segir að tilkynning um sprungu í flekanum hafi komið í gærkvöldi. „Það var tilkynnt til manns í björgunarsveitinni og hann tilkynnti þetta áfram þannig að við fórum og ákváðum að loka til þess að tryggja að það yrði enginn undir. Vesturfarasetrið er þarna beint fyrir neðan og við teljum að það geti verið í hættu ef flekinn fellur niður frjálst.“

Er ekki óvenjulegt að það sé snjóflóðahætta á Hofsósi?

„Það er svo sem ekkert óalgengt að það komi hengja þarna í brekkuna en það er bara þessi sprunga, hún er orðin það breið og snjórinn það mikill að við töldum ekki stætt á öðru en að loka þessu þarna.“

Saumastofan lokuð

Sigurður reiknar með að lokunin hafi einhver áhrif á atvinnustarfsemi í bænum í dag. „Það er saumastofa þarna, fánasaumastofa sem er lokuð og jú ef það hefðu einhverjir smábátaeigendur ætlað að fara á sjó í dag þá er lokað niður á höfnina.“