Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Varað við svikahröppum á sölusíðum samfélagsmiðla

epa05951810 A person uses a computer displaying the Thai Facebook login page in Bangkok, Thailand, 09 May 2017. According to reports, Facebook has agreed to comply with Thai Government requests to restrict access to content on its site that violates Thai laws.  EPA/DIEGO AZUBEL
 Mynd: Diego Azubel - EPA
Lögreglan á Suðurlandi varaði í gær við fólki sem beitir blekkingum við kaup á munum á Netinu en allmörg slík mál munu undanfarið hafa skotið upp kollinum. Lögregla kveður algengt að kaupandi greiði fyrir vöru en seljandi efni ekki loforð um að senda hana eða afhenda.

Þetta segir lögregla fyrst og fremst eiga við um sölusíður á samfélagsmiðlum þar sem einstaklingar auglýsa vörur til sölu, en eigi ekki við vefverslanir viðurkenndra fyrirtækja. 

Iðulega lokar seljandinn svo aðgangi sínum eða útilokar þann sem borgaði vöruna. Því brýnir lögregla fyrir fólki að greiða ekki fyrir nokkurn hlut fyrr en hann hefur verið afhentur.  

Samfélagsmiðlar á borð við Facebook virðast hafa tekið við hlutverki smáauglýsinga dagblaðanna við að deila notuðum munum af ýmsu tagi.

Á Facebook er að finna síður þar sem verslað er með notaða bíla, fornbíla og -muni, skó og föt, búsáhöld, byggingavörur tölvur og farsíma svo dæmi séu tekin. 

Breki Karlsson formaður Neytendasamtakanna hvetur fólk til að fara mjög varlega í viðskiptum á samfélagsmiðlum. Ef fólk hefur greitt vöru með korti á það að geta fengið úrlausn sinna mála gegnum kortafyrirtækið eða bankann. 

Breki bendir á kaupalögin gildi um viðskipti milli tveggja einstaklinga þar sem meginreglan sé að kaupandinn gæti sín.

Algengt mun vera að svikahrappar búi til falska aðganga og reyni jafnvel að koma hlutum sem þeir ekki eiga í verð, eins þekkist að óprúttnir skipti oft um aðganga á samfélagsmiðlum og villi þannig á sér heimildir.

Við stutta leit á sölusíðum Facebook fundust tvær nýjar eða nýlegar viðvaranir um slíkt framferði en það fólk sem fréttastofa ræddi við og hafði lent í svindlurum var mjög ófúst að segja sögur sínar undir nafni. 

Frank Høybye stofnandi sölusíðunnar Brask og brall.is á Facebook segir að öllum þeim sem verða uppvís að því að reyna að hlunnfara aðra sé umsvifalaust hent út.

Hann segir reyndar mjög erfitt að hafa yfirsýn yfir allt það sem gerist á síðunni enda telur hún núna ríflega 161 þúsund manns.

Frank segir að viðvörunarbjöllur hringi þegar varað er ítrekað við einhverjum og mál viðkomandi sé þá skoðað mjög vel. Hann segist líka vilja taka á öllu bulli og almennum dónaskap á sölusíðunni.  

Fréttin var uppfærð klukkan 14:26.