Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Telur kreppuna ekki hafa skaðað hagkerfið mikið

27.01.2021 - 12:37
Mynd með færslu
Jón Bjarki Bentsson, aðalhagfræðingur Íslandsbanka Mynd: Íslandsbanki
Aðalhagfræðingur Íslandsbanka vonar að í sögubókum verði kórónuveirukreppunnar minnst sem stystu efnahagsdýfu í sögu landsins. Í nýrri þjóðhagsspá bankans er því spáð að hagur fari að vænkast á þessu ári. Efnahagsbatinn ráðist þó að miklu leyti af því hversu hratt og vel ferðaþjónustan nær vopnum sínum. 

 

Verður árið 2021 árið eftir kreppuna? 

Í spánni, sem var birt í dag, er því velt upp hvort árið 2021 verði raunverulega árið eftir kórónuveirukreppuna. Það er talið líklegt en þó ekki víst. Líklega verði fárið ekki um garð gengið fyrr en á næst ári. Framhaldið veltur á því hvernig faraldrinum vindur fram og hversu vel gengur að bólusetja. Stærsti óvissuþátturinn snýr að ferðaþjónustunni.

Ferðamenn láti sjá sig á seinni hluta árs

Bankinn vann þrjár sviðsmyndir. Grunnspá bankans gerir ráð fyrir 700 þúsund ferðamönnum í ár, eða þriðjungi þess fjölda sem kom árið 2019. Flestir komi þeirr á seinni hluta árs. Árið 2022 verði þeir orðnir 1,3 milljón. Gangi þetta eftir gerir bankinn ráð fyrir rúmlega 3 prósenta hagvexti á árinu og 5% á því næsta. Atvinnuleysi fari þó ekki að láta undan fyrr en á seinni hluta árs og verði 9,4% að meðaltali í ár en tæp 5% á næsta ári.

Bankinn spáir því að viðskiptajöfnuður við útlönd verði jákvæður um rúmlega eitt prósent á árinu, krónan styrkist og verðbólga verði komin undir 2,5% markmið Seðlabankans í lok árs. Stýrivextir verði áfram í lágmarki. 

Bjartari sviðsmynd bankans gerir ráð fyrir því að hingað komi milljón ferðamenn í ár. Bankinn telur að atvinnuleysi myndi þá hjaðna hratt með vorinu. Dekkri sviðsmyndin spáir 400 þúsund ferðamönnum, þá yrði atvinnuleysið þrálátara, hagvöxtur lítill og hætt við að heimili og fyrirtæki lendi í vandræðum. 

Ekki varanlegur skaði

Fram kemur að traust staða flestra heimila dempi hagsveiflunna og dragi úr sveiflum á íbúðamarkaði. Þá hafi seðlabankinn mildað gjaldeyrissveiflur umtalsvert með aðgerðum sínum. Því er spáð að íbúðaverð hækki um 8% á næstu þremur árum og raunlaun um 2% á ári. 

Í spánni segir að faraldurinn hafi sýnt fram á styrk hagkerfisins en líka dregið fram hversu mikið það á undir ferðaþjónustunni. Jón Bjarki Bentsson, aðalhagfræðingur Íslandsbanka segir að veiran hafi ekki valdið hagkerfinu miklum varanlegum skaða. „Ef við höldum rétt á spöðunum og faraldurinn rennur sitt skeið fyrr en síðar mun kórónuveirukreppan á endanum fara í hagsögubækurnar sem ein krappasta en að sama skapi ein stysta efnahagsdýfa í nútíma hagsögu landsins.“ 

 

arnhildurh's picture
Arnhildur Hálfdánardóttir
Fréttastofa RÚV