Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Svíar rúlluðu yfir Katar í seinni hálfleik

Mynd: EPA-EFE / REUTERS POOL

Svíar rúlluðu yfir Katar í seinni hálfleik

27.01.2021 - 18:58
Einn af þremur leikjum í átta liða úrslitum á heimsmeistaramótinu í handbolta var viðureign Katar og Svíþjóðar. Svíþjóð var enn taplaust eftir sex leiki en Katar hefur tapað tveimur leikjum. Svíþjóð vann leikinn og mætir Frökkum í undanúrslitum.

Svíar mættu á þetta mót með heldur laskað lið en eftir að hafa gert tvö jafntefli í milliriðlum var liðið enn taplaust.

Leikurinn byrjaði rólega og tók það nokkurn tíma fyrir bæði lið að finna taktinn, Svíar náðu snemma tveggja marka forystu en Katar þó aldrei langt undan. Um miðbik hálfleiksins komust Svíar betur inn í leikinn og aftur náðu þeir forystu. Eftir góðan lokakafla leiddu þeir með fjórum mörkum í leikhléi 14-10.

Í seinni hálfleik var einungis eitt lið á vellinum til að byrja með, Svíar héldu góðum kafla undir lok fyrri hálfleiks áfram í þeim síðari og skildu Katar eftir í reyknum. Eftir 11-3 kafla var ljóst hvaða lið færi áfram í undanúrslitin nokkuð snemma í leiknum. Svíar léku á als oddi og unnu að lokum verðskuldaðan 35-23 sigur og mæta Frökkum í undanúrslitum.