Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Spánverjar í undanúrslit eftir öruggan sigur

Mynd: EPA / EPA

Spánverjar í undanúrslit eftir öruggan sigur

27.01.2021 - 18:57
Spánn bókaði í kvöld sæti sitt í undanúrslitum heimsmeistaramótsins í handbolta í Egyptalandi með sigri á Noregi. Spánn vann leikinn 31-26 en Sander Sagosen meiddist í fyrri hálfleik og bið Norðmanna eftir gulli á stórmóti lengist enn frekar. Noregur hefur fengið silfur á síðustu tveimur heimsmeistaramótum.

Spánverjar hafa verið með tangarhald á norska liðinu í 24 ár en fyrir leikinn í kvöld hafði Noregur tapað 16 sinnum og einu sinni gert jafntefli í 17 leikjum gegn Spáni frá 1997.

Meiðsli Sagosen rothögg fyrir Noreg

Jafnt var á öllum tölum þar til í stöðunni 6-6 en þá kom frábær kafli þar sem allt gekk upp hjá Spánverjum. Sander Sagosen, stórstjarna Noregs, minnkaði muninn í stöðunni 13-9 en það reyndist dýrkeypt fyrir Norðmenn því hann meiddist og gat ekki spilað meira með.

Við þetta hrundi leikur norska liðsins sem fékk á sig 21 mark í fyrri hálfleiknum en það er í fyrsta skipti í sögunni sem Noregur fær á sig meira en 20 mörk í einum hálfleik á HM. Rodrigo Corrales var svo í miklum ham í marki Spánverja og reynsluboltar liðsins léku við hvern sinn fingur.

Staðan í leikhléi var 21-15 fyrir Spán og þessi munur hélst að mestu leyti út allan seinni hálfleikinn. Spánn vann að lokum með fimm marka mun, 31-26, og mætir heimsmeisturum Danmerkur í undanúrslitum á föstudag.