Reglugerðarbreyting takmarki atvinnufrelsi

27.01.2021 - 22:15
Mynd með færslu
 Mynd: RUV
Félag sjúkraþjálfara gagnrýnir harðlega ákvörðun heilbrigðisráðherra um að breyta reglugerð um endurgreiðslu kostnaðar þannig að sjúkraþjálfarar þurfi nú að vinna í tvö ár eftir útskrift til að fá samþykkta greiðsluþátttöku frá ríkinu. Formaður félagsins óttast að þetta vinni gegn nýliðun í greininni og leiði til verri þjónustu á landsbyggðinni.

 

Reglugerð um endurgreiðslu kostnaðar vegna þjónustu sjálfstætt starfandi sjúkraþjálfara var breytt í lok síðasta árs. Áður tók reglugerðin til þjónustu allra sjálfstætt starfandi sjúkraþjálfara en núna þurfa þeir að hafa starfað í tvö ár eða lengur og þá minnst í 80 prósenta starfshlutfalli til að falla undir ákvæði reglugerðarinnar.

Unnur Pétursdóttir formaður Félag sjúkraþjálfara telur að ráðherra sé með þessu að takmarka atvinnufrelsi þar sem nýútskrifaðir sjúkraþjálfarar komast ekki í viðskiptasamband við Sjúkratryggingar Íslands.

„Sjúkraþjálfarar fá sitt starfsleyfi eftir fimm ára háskólanám frá Landlækni. Hvers vegna ráðherra ákveður að takmarka það starfsleyfi sem Landlæknir hefur nú þegar gefið út er okkur algerlega óskiljanleg ákvörðun,“ segir Unnur.

Þetta hafi áhrif á nýliðun í greininni.

„Önnur alvarleg breyting er að það eru nú þegar miklir biðlistar eftir þjónustu sjúkraþjálfara og þeir gera ekkert nema að lengjast við þessa breytingu,“ segir Unnur.

Reglugerðin gildir til 30. apríl og Unnur segist binda vonir við að þessu verði breytt. Ef ekki geti það einnig haft alvarleg áhrif á þjónustu sjúkraþjálfara á landsbyggðinni.

„Það er alveg ljóst að landsbyggðin hefur um áratugaskeið treyst á nýliðun í gegnum nýútskrifaða sjúkraþjálfara bæði til að koma í afleysingar á sumrin og svo fá heim í hérað þá sjúkraþjálfara sem þaðan fara til náms. Þannig að þetta getur haft mjög alvarlegar afleiðingar fyrir þjónustu sjúkraþjálfara á landsbyggðinni,“ segir Unnur. 

 

Höskuldur Kári Schram
Fréttastofa RÚV