
Óvissustigi vegna snjóflóðahættu aflétt á Norðurlandi
Veðurstofan aflétti óvissustigi á Austfjörðum og Norðurlandi seinnipartinn í dag. Óliver Hilmarsson, snjóflóðasérfræðingur hjá Veðurstofunni, segir að veður sé nú mun skaplegra.
„Veðrið er náttúrulega alveg gengið niður núna og komið bara fínasta veður. Það eru ekki miklar líkur á náttúrulegum flóðum eins og veðrið er núna.“
Á Hofsósi er þó enn viðbúnaður í höfninni vegna hættu af snjóhengju sem sprunga hefur myndast í fyrir ofan Vesturfarasetrið. Á Vestfjörðum hafa sex flóð fallið síðasta sólarhringinn. Þar er enn óvissustig í gildi.
„Það er nú svo sem alveg gengið niður hérna á Vestfjörðum núna, en því það eru vísbendingar um hvað snjórinn er veikur núna þá látum við þetta gilda lengur hér fyrir vestan. Metum svo stöðuna aftur í kvöld.“
Hann segir að jafnvel þótt að veðrið sé gengið niður ætti fólk á ferð í brattlendi eða undir bröttum hlíðum að sýna aðgát. Enn geti flóð farið af stað af mannavöldum.