Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Mesta hættan við Jökulsá á Fjöllum liðin hjá

27.01.2021 - 20:11
Litlu munaði að krapi og jakahröngl færi á brúna yfir Jökulsá á Fjöllum í mikilli flóðbylgju í ánni í gær. Ekki er talin hætta á frekari flóðum þar í bili. Þjóðvegi eitt yfir Jökulsá var lokað aftur til öryggis í kvöld.

Það er eins og skriðjökull yfir að líta, svæðið við þjóðveg eitt yfir Jökulsá á Fjöllum, og brúin frá 1947 mitt í jöklinum. Eftir tæplega viku krapasöfnun í ánni myndaðist stífla sem brast með miklum látum um miðjan dag í gær.  

Mesta krapaflóð á þessum stað í langan tíma

„Þetta er með því mesta í langan tíma en hún á þetta til, en þá í minna mæli,“ segir Grétar Ásgeirsson, verkstjóri hjá Vegagerðinni á Akureyri. Hann segir engar skemmdir hafa orðið á veginum þarna eða brúnni, en ljósleiðari fór í sundur og vatnamælingaskúr lagðist á hliðina. Vestan við brúna liggur vegurinn mjög lágt á um 200 metra kafla. Þar ruddist áin yfir og setti allt á bólakaf. Krapi og jakahröngl fór þó langleiðina upp að brúargólfi Jökulsárbrúar.

Telur að áin hafi náð að ryðja sig

Um tíma var óttast að önnur krapastífla hefði myndast ofar í ánni sem gæti brostið og valdið annarri eins flóðbygju og varð í gær. „Já við vorum hræddir um það. En ég tel að hún renni öll hérna undir núna, undir klakanum,“ segir Grétar. „Lögreglan er hérna skammt fyrir ofan og er að fljúga dróna hérna yfir og af myndum af dæma virðist hún vera búin að ryðja sig hérna langleiðina niður undir brú. Þannig að ég tel að mesta hættan sé liðin hjá.“

Ekki von á svona atburðum þarna á næstunni

Og hann á ekki von á svona atburðum þarna á næstunni allavega. „Mesta hættan er eftir svona stórhríðarveður þar sem rekur snjó og verður krapamyndun í ánni.“
„Þannig að þetta er kannski búið í bili?“
„Já, ég vona það.“

Veginum lokað yfir nóttina til öryggis

Umferð var hleypt á veginn upp úr hádegi, en lokað aftur til öryggis þegar myrkur skall á um klukkan sex. Að öllu óbreyttu verður vegurinn opnaður um níuleytið í fyrramálið.