Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Hefur á tilfinningunni að umsóknin rati neðar í bunkann

Mynd með færslu
 Mynd: Guðmundur Bergkvist
Kona af pólskum uppruna, sækir um fjölda starfa á mánuði án árangurs. Hún hefur á tilfinningunni að umsóknir frá fólki með erlend nöfn rati neðarlega í bunka atvinnurekenda. Pólskur maður sem missti vinnuna í faraldrinum segir fólk reyna að lifa spart. 

Sækir um öll þjónustustörf

Izabela Wiszniewska var að vinna hjá ferðaþjónustufyrirtækinu Arctic Trucks, sem býður meðal annars upp á jeppaferðir upp á jökla. Hún hefur verið að leita að nýrri vinnu frá því í september og sendir tíu til fimmtán umsóknir á mánuði. „Ég sæki um þjónustustörf, klárlega, og skrifstofustörf, allt sem tengist skipulagi, verkefnum og bara því að þjónusta kúnna.“

Hún segir að það sé líf á atvinnumarkaði en hún fái ekki tilboð. „Það er mikið líf en ég fæ því miður ekki boðað viðtal, ég fæ svar um að það sé búið að ráða í starfið og 170 -300 manns búnir að sækja um.“ 

Meiraprófið næst á dagskrá

Izabelu finnst erfitt að sitja aðgerðalaus og lauk í haust bókhaldsnámskeiði á vegum Vinnumálastofnunar. „Og svo heldur maður áfram. Núna er ég að spá í að fara í meirapróf, til að bæta aðeins meira við.“

„Fólk sækir um hvar sem er“

Piotr Okręglicki vann hjá húsbílaleigu í fimm ár en missti vinnuna í september. Hann býr í Reykjanesbæ, þar sem fjórði hver íbúi er án atvinnu og segir lítið af störfum í boði. „Ég þekki líka fólk sem er að ráða inn og það segir mér að það rigni inn umsóknum, fólk sækir um hvar sem er.“ 

Mynd með færslu
 Mynd: Guðmundur Bergkvist
Piotr.

Konan hans er líka atvinnulaus, fékk uppsagnarbréf daginn sem hún kom aftur til vinnu úr fæðingarorlofi. 

Atvinnuleysi bitnar verst á erlendum ríkisborgurum

Um 40 prósent þeirra sem eru á atvinnuleysisskrá eru með erlent ríkisfang. Atvinnuleysið bitnar þannig illa á erlendum ríkisborgurum sem eru um 14% landsmanna. Heilt yfir er einn af hverjum tíu án atvinnu, en í hópi fólks með erlent ríkisfang á það við um einn af hverjum fjórum. „Fólk lifir á sparifénu og bótum og reynir að lifa spart,“ segir Piotr.

Betra ástand hér en í Póllandi

Andrúmsloftið í bænum sé frekar þungt og margir vondaufir. Fréttir af bólusetningum vekji ákveðna von um betri tíð. Hann segir að yngra fólk fari sumt heim í foreldrahús í Póllandi en þeir landar hans sem hafi skotið hér rótum, keypt hús og eignast fjölskyldu, bíði flestir storminn af sér. Atvinnuleysisbæturnar hjálpi og stjórnvöld hafi ráðist í miklar mótvægisaðgerðir. Staðan í Póllandi sé mun verri en hér, bæði hvað varðar faraldurinn og efnahagsástandið almennt, þar sé litlar bætur að fá. 

Ganga Íslendingar fyrir eftir kreppu? 

Piotr segir suma hafa áhyggjur af því að fyrirtæki láti Íslendinga ganga fyrir, þegar störfum fjölgar. Það sé líkega eðli allra samfélaga að passa upp á sitt fólk. Þetta tíðkist allavega í Póllandi. Oft fái vinir og venslafólk forstjóranna bestu störfin. 

Izabela hefur búið á Íslandi frá því hún var 12 ára og er með tvöfaldan ríkisborgararétt. Hún hefur á tilfinningunni að atvinnurekendur hunsi frekar umsóknir frá fólki með erlent nafn. Hún hefur stundum rætt þetta við fjölskyldumeðlimi af pólskum uppruna. „Við höldum að það sé þannig, fólk kannski viðurkennir það ekki en þegar þú ert búinn að fá 300 umsóknir og kannski 10% af því er með erlent nafn, þú opnar það ekki einu sinni. Það er það sem ég held að sé að gerast því allir vinnustaðir sem maður sér eru að ráða íslendinga inn.“ Hún segist verða vör við þetta á veitingastöðum, þar hafi flest starfsfólk verið af erlendum uppruna en nú séu íslenskir starfsmenn meira áberandi. 

Vonar að sumarið verði gott: „Við þurfum á því að halda“

Piotr er kominn með vilyrði fyrir hlutastarfi hjá bílaleigu, hann á að byrja í febrúar, svo er bara að sjá hvort verkefnunum fjölgi og hann fái fullt starf. 

Izabela segist heyra innan úr bransanum að ferðaviljinn sé mikill og bindur vonir við að sumarið verði gott. „Ég treysti á það, við þurfum á því að halda.“

arnhildurh's picture
Arnhildur Hálfdánardóttir
Fréttastofa RÚV