Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Frakkar unnu Ungverja eftir framlengingu

Mynd: EPA-EFE / AFP POOL

Frakkar unnu Ungverja eftir framlengingu

27.01.2021 - 21:30
Frakkar tryggðu sér í kvöld sæti í undanúrslitum HM karla í handbolta eftir sigur á Ungverjum í framlengdum leik í 8-liða úrslitum. Úrsiltin urðu 35-32 en staðan eftir venjulegan leiktíma var 30-30.

Ungverjar byrjuðu leikinn mikið betur og komust í 7-1. Roland Mikler markvörður Ungverja var í stuði í fyrri hálfleik og varði 10 skot á fyrstu 20 mínútum leiksins. Frökkum óx þó ásmegin eftir því sem leið á leikinn og höfðu minnkað muninn niður í tvö mörk áður en fyrri hálfleik lauk, hálfleikstölur 14-12 fyrir Ungverjaland.

Frakkar jöfnuðu svo metin í fyrsta sinn í leiknum í stöðunni 19-19 og komust í kjölfarið yfir í fyrsta sinn í 20-19. Frakkar höfðu svo frumkvæðið og voru þremur mörkum yfir, 30-27 þegar lítið var eftir af leiknum. Ungverjar skoruðu hins vegar þrjú síðustu mörkin í venjulegum leiktíma og nældu sér þar með í framlengingu.

Í henni voru Frakkar þó sterkari og unnu 35-32. Frakkar mæta Svíum í undanúrslitum á föstudag. Horfa má á mestu spennuna úr leik Frakka og Ungverja frá því í kvöld í spilaranum hér fyrir ofan.