
Enn óvissustig – Flateyrarvegur verður opnaður í dag
Óvissustig vegna snjóflóðahættu er á norðanverðum Vestfjörðum, Norðurlandi og Austfjörðum. Staðan verður þó metin að nýju eftir hádegi á Norðurlandi og Austfjörðum þar sem veðurspá er nokkuð góð. Um 140 snjóflóð hafa verið skráð hjá Veðurstofu síðustu tíu daga, en þau eru eflaust fleiri.
Fimm flóð á Flateyrarvegi
Flateyrarvegur um Hvilftarströnd verður opnaður í dag. Hann hefur verið lokaður nær samfellt frá laugardagsmorgni. Fimm ný snjóflóð sáust þar í morgun sem höfðu fallið á veginn, að öllum líkindum á síðasta sólarhring.
Færð skánar
Greiðfært er á suðurhluta landsins en hálka eða snjóþekja á flestum leiðum á norðurhluta þess. Eitthvað hefur færð skánað á Vestfjörðum sem hefur verið með versta móti síðustu daga. Steingrímsfjarðarheiði hefur verið opnuð eftir um sólarhringsófærð og það sama á við um Klettsháls. Dynjandisheiði er enn lokuð og líka Þröskuldar sem hafa verið það síðan á mánudag.