Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Búið að moka gegnum krapann en vegurinn er enn lokaður

27.01.2021 - 08:26
Mynd með færslu
 Mynd: Kristján Hermannsson
Búið er að moka í gegnum krapastíflu sem fór yfir þjóðveg eitt við brúna yfir Jökulsá á Fjöllum sunnan við Grímsstaði síðdegis í gær. Vegurinn er enn lokaður af öryggisástæðum samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni.

Uppfært klukkan tíu: Hreiðar Hreiðarsson, aðalvarðstjóri lögregunnar á Húsavík segir að brúin yfir Jökulsá á fjöllum sé ekki skemmd eftir krakastífluna. Við birtingu verður svæðið drónað og farið upp með ánni til að athuga hvort það séu fleiri stíflur í ánni, út frá því verður metið hvort það sé óhætt að hleypa umferð á veginn aftur. Þá þurfi að hreinsa klakkann betur frá veginum. Vegagerðin mokaði gögn í gegnum klakastífluna í gærkvöldi.

Stærsta flóð í manna minnum

Mývetningar sem fréttastofa náði tali af í morgun segja að oft hafi komið stífla í ána en aldrei svona mikið og stórt flóð eins og fór upp á veginn síðdegis í gær. Árin ruddi sig með látum og þykkur ís þakti þjóðveginn á um 300 metra kafla. Flóðið hefur náð alveg upp undir brúargólfið. Þar lá ljósleiðari sem fór í sundur.

Mikill klaki í ánni í gærkvöldi

Hólmgeir Eyfjörð mokaði leið í gegnum krapann í gærkvöldi. „Flóðið var alveg tveir metrar á þykkt. Þetta er rennandi blautt og klakar í þessu,“ segir hann. „Menn áttuðu sig ekki fyrr en þeir fóru að moka, hvað þetta var mikið. Það er ægilega mikil krapastífla upp undir allri á, kannski tvo til þrjá kílómetra, það sér ekki fyrir endann á því,“ segir Hólmgeir.

Það er ekki víst að áin hafi náð að ryðja sig í gær. Það verður metið í birtingu og ákveðið hvort óhætt er að opna veginn að nýju.