Batahús fyrir fanga sem hafa lokið afplánun

27.01.2021 - 22:10
Agnar Bragason
 Mynd: Kikkó - Ruv
Nýtt áfangaheimili fyrir fanga sem hafa lokið afplánun hefur verið opnað í Vesturbæ Reykjavíkur. Forstöðumaður heimilisins segir að markmiðið sé að hjálpa fyrrverandi föngum að aðlagast samfélaginu á ný og koma í veg fyrir endurtekin afbrot.

 

Átta herbergi og stúdíóíbúðir eru í Batahúsinu sem var opnað formlega í dag. Góðgerðarfélagið Bati sér um rekstur húsnæðisins og hefur fengið til þess 25 milljóna króna styrk frá Félagsmálaráðuneytinu.

Agnar Bragason forstöðumaður Batahússins segir að tilgangurinn sé að bjóða fyrrverandi föngum upp á húsaskjól gegn vægu verði. Þar verður þeim einnig boðið upp á aðstoð til að vinna gegn fíknivanda og endurteknum afbrotum.

„Það er ákveðinn hópur sem fer margítrekað í fangelsi. Og það er kannski hópur sem hefur dottið á milli kerfa og er með mjög erfiða hegðun og svoleiðis. Og það er það sem við viljum hjálpa þeim að breyta. Það er hegðun og vinna í sínum tilfinningavanda og öðru sem að steðjar,“ segir Agnar.

Stofnun Batahússins byggir á skýrslu sem starfshópur á vegum félagsmálaráðherra skilaði árið 2019. Þar var talin þörf á frekari úrræðum fyrir fanga eftir að afplánun lýkur. Agnar segir að með Batahúsinu sé fyrst og fremst verið að skapa jarðveg sem notendur verði sjálfir að rækta.

„Við getum bara boðið upp á þessa þjónustu en það verður hver og einn að betra sig á sínum forsendum og svo framvegis. Það getur enginn betrað annan. Það þarf hver og einn að betra sig sjálfur. En með því að búa til þennan jarðveg þá vonumst við til þess að endurkomum í fangelsi fækki hjá þessum hópi,“ segir Agnar. 

 

Höskuldur Kári Schram
Fréttastofa RÚV