Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Átta börnum rænt af munaðarleysingjaheimili

27.01.2021 - 04:32
epa08337609 A Nigerian policeman checks movement of motorists during lockdown in Abuja, Nigeria 01 April 2020. Nigerian President Muhammad Buhari announced the total lock down of Abuja, Lagos and Ogun state. Fears are high that should the coronavirus SARS-CoV-2 which causes the Covid-19 disease gain traction in Africa it could have a devastating impact on some of the poorest and most vulnerable people on the planet.  EPA-EFE/GEORGE ESIRI
Ströng öryggisgæsla er í stærstu borgum Nígeríu vegna útgöngubanns. Mynd: EPA-EFE - EPA
Vopnaðir menn rændu um helgina átta börnum og tveimur fullorðnum af munaðarleysingjaheimili í borginni Abuja í Nígeríu. CNN hefur eftir talsmanni heimilisins að ræningjarnir hóti að drepa börnin ef stjórn heimilisins greiðir ekki lausnargjald að jafnvirði rúmlega þriggja milljóna króna. 

Alaje Odewu, heimildamaður CNN, segir mennina hafa beint rifflum að börnunum sautján sem búa þar. Þeir völdu eldri börnin og rændu þeim ásamt forstöðukonunni, sem var með innan við ársgamalt barn í fanginu, og öðrum starfsmanni. Skömmu síðar var forstöðukonunni sleppt lausri ásamt unga barninu og annarri stúlku.

Þegar ræningjarnir ráku á eftir lausnargjaldinu sagðist stjórnin ekki hafa efni á því. Odewu segir ekki vitað hverjir voru að verki, en lögreglan sé komin á sporið. Mannrán af þessu tagi eru ekki ný af nálinni í landinu. Hundruð nemenda var rænt í desember í Katsina héraði í norðvestanverðri Nígeríu. Rúmlega viku síðar fann nígeríski herinn nemana og bjargaði þeim úr klóm hryðjuverkasamtakanna Boko Haram. 

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV