Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

541 hótelherbergi í byggingu í miðbæ Reykjavíkur

Mynd: Freyr Arnarson / RÚV
Verið er að reisa samtals 541 hótelherbergi í þremur hótelum í miðbæ Reykjavíkur. Kórónuveirufaraldurinn virðist því ekki hafa sett mikið strik í reikninginn þegar kemur að frekari hóteluppbyggingu í bænum.

Fordæmalaus samdráttur hefur orðið í hótelgistingu hér á landi undanfarið ár. Samkvæmt tölum frá Samtökum ferðaþjónustunnar fækkaði gistinóttum á höfuðborgarsvæðinu um 89% milli áranna 2019 og 2020. Þá eru 34 af 58 hótelum á höfuðborgarsvæðinu lokuð, eða tæplega 60% þeirra.

Þrátt fyrir þetta er verið að reisa þrjú mjög stór hótel í miðbæ Reykjavíkur.

Bólusetning hefur áhrif

Á Landsímareitnum við Austurvöll er fasteignaþróunarfélagið Lindarvatn að reisa 163 herbergja hótel. Icelandair Hotels hafa gert 25 ára leigusamning við Lindarvatn, og ætla að reka þar hótel undir merkjum Hilton keðjunnar, og á það að heita Iceland Parliament Hotel.

„Það gengur bara nokkuð vel og það hefur verið rífandi gangur hjá okkur síðustu mánuði. Við erum að vona, ef ekkert óvænt kemur upp á, að geta klárað framkvæmdir í sumar. En það kemur í ljós hvernig það gengur,“ segir Jóhannes Stefánsson, framkvæmdastjóri Lindarvatns.

Jóhannes segir að faraldurinn hafi ekki dregið kraftinn úr mönnum í hótelgeiranum.

„Auðvitað er kannski spurning hvernig gengur að bólusetja heimsbyggðina og hvenær almennur ferðavilji kemst í gang aftur. En eins og ég segi, þá erum við ekki að tjalda til einnar nætur og hvort það verður í sumar eða haust eða eitthvað eftir það, þá erum við bara tilbúin þegar þar að kemur.“

Alveg sett á ís

Við Lækjargötuna eru svo Íslandshótel að reisa 125 herbergja hótel, sem kemur til með að heita Hótel Reykjavík.

„Það gengur þokkalega. Það mætti vera meiri slagkraftur í því, við erum bara að vinna með 18 manns í verkinu núna, bara út af þessu ástandi sem við höfum verið að upplifa. En við erum að klára að loka húsinu og það gengur vel,“ segir Ólafur Sæmundsson, byggingarstjóri.

Covid hefur sett strik í reikninginn hjá ykkur?

„Já það hefur gert það. Eigendur ákváðu að draga saman seglin í apríl og þá var framkvæmdin eiginlega alveg sett á ís í fimm eða sex mánuði. Svo fannst mönnum vera að rofa til í þessum túristamálum og þá ákváðu þeir að fara allavega í að loka húsinu til að verja það skemmdum og annað. En við erum bjartsýnir á að fá að fara að setja allt á fullt og setja fullan slagkraft í þetta.“

Til stendur að opna Hótel Reykjavík vorið 2022.

Á lokastigi

Og við hlið Hörpu er verið að ljúka við fimm stjörnu hótel, Reykjavík Edition, sem verður rekið af Marriott hótelkeðjunni. 253 herbergi verða á hótelinu. Töluverð leynd hvílir yfir verkefninu, og sem dæmi má nefna að myndatökur innandyra eru ekki leyfilegar fyrir opnun þess. Richard L. Friedman, forstjóri Carpenter & Company, sem stendur að byggingunni, segir í skriflegu svari til fréttastofu að hótelið sé á lokastigi framkvæmda, og að það verði opnað í vor.