Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Yfir 150.000 dáin úr COVID-19 í Mexíkó

epa08863109 Health workers admit a person with COVID-19 to the General Hospital of the Ciudad Juarez border, in the state of Chihuahua, Mexico, 04 December 2020. Mexico reported on 04 December, over 12,000 new COVID-19 cases.  EPA-EFE/Luis Torres
 Mynd: epa
Yfir 150.000 dauðsföll hafa nú verið rakin til COVID-19 í Mexíkó. Þetta kemur fram í tilkynningu mexíkóska heilbrigðisráðuneytisins, daginn eftir að forseti landsins, Andres Manuel Lopez Obrador, staðfesti að hann hefði greinst með COVID-19. Í tilkynningu ráðuneytisins segir að 659 hafi dáið úr COVID-19 síðasta sólarhringinn og dauðsföll í landinu þar með orðin 150.273. Aðeins Bandaríkin, Brasilía og Indland hafa skráð fleiri dauðsföll af völdum farsóttarinnar.

8.521 bættust í hóp smitaðra í Mexíkó í gær, og eru staðfest tilfelli nú ríflega 1.770.000. Forsetinn Obrador tilkynnti á sunnudag að hann væri með COVID-19. Sagðist hann njóta aðhlynningar lækna og ekki finna fyrir miklum einkennum. Fjölskylda mexíkóska auðkýfingsins Carlosar Sims, eins ríkasta manns heims, tilkynnti í gær að hann hefði greinst með COVID-19, en væri ekki alvarlega veikur. 

Bólusetning gengur hægt - Spútnik-bólefni á leiðinni

Fjöldabólusetning hófst í Mexíkó á aðfangadag með bóluefni frá Pfizer-BioNTech. Hún hefur þó gengið hægar en að var stefnt vegna tafa á afhendingu bóluefnis.

Obrador tilkynnti í gær að Mexíkó hefði fest kaup á 24 milljónum skammta af rússneska Spútnik-bóluefninu, þrátt fyrir að mexíkósk heilbrigðisyfirvöld hafi enn ekki gefið grænt ljós á notkun þess.

Hæsta viðbúnaðarstig hefur verið í gildi í Mexíkóborg frá því um miðjan desember. Þar eru yfir 90 prósent sjúkrarúma upptekin og strangar sóttvarnareglur í gildi.