Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

West Ham í Meistaradeildarsæti - Enn tapar Newcastle

Mynd með færslu
 Mynd: EPA

West Ham í Meistaradeildarsæti - Enn tapar Newcastle

26.01.2021 - 20:35
20. umferð ensku úrvalsdeildarinnar hófst í kvöld með tveimur leikjum. Gott gengi West Ham heldur áfram en liðið sigraði Crystal Palace á útivelli og er West Ham komið í Meistaradeildarsæti. Newcastle er hins vegar í vondum málum eftir tap gegn Leeds.

Á Selhurst Park í Lundúnum byrjaði leikur Crystal Palace og West Ham af miklum krafti. Það tók heimamenn aðeins rúmlega tvær mínútur að skora fyrsta markið. Wilfred Zaha átti þá laglegt þríhyrningsspil við Christan Benteke og skoraði með föstu og hnitmiðuðu skoti. Aðeins fimm mínútum síðar jafnaði Tomas Soucek leikinn eftir góðan undirbúning frá Pablo Fornals og Michail Antonio. Soucek var aftur á ferðinni á 24. mínútu þegar hann potaði boltanum í netið eftir góða fyrirgjöf frá Aaron Cresswell. Soucek var á mörkum þess að vera fyrir innan vörn Newcastle og tók heillangan tíma að fá niðurstöðu frá myndbandsdómara áður en markið var dæmt gott og gilt. 

West Ham var tvisvar nálægt því að bæta við forystu sína í fyrri hálfleik en liðið átti tvö stangarskot áður en flautað var til hálfleiks. Þriðja mark West Ham kom svo á 65. mínútu þegar Craig Dawson stökk manna hæst í teignum eftir hornspyrnu. Á lokamínútu uppbótartíma skoraði Michy Batshuayi sárabótarmark og minnkaði muninn í 3-2. Með sigrinum er West Ham komið í 4. sæti deildarinnar. 

Newcastle sogast að fallsvæðinu

Í Newcastle tóku heimamenn á móti nýliðum Leeds. Ekkert hefur gengið hjá Newcastle að undanförnu og hafði liðið ekki unnið í síðustu átta leikjum sínum fyrir leik kvöldsins, þar af hafa þeir tapað síðustu fjórum leikjum án þess að skora. Gengi Leeds að undanförnu er ekki mikið skárra en liðið hafði tapað síðustu þremur leikjum sínum án þess að skora.

Það voru lærisveinar Bielsa sem skoruðu fyrsta mark leiksins þegar að Leeds náði boltanum á vallarhelmingi Newcastle. Liðið þaut upp völlin og voru fjórir leikmenn Leeds gegn tveimur leikmönnum Newcastle. Patrick Bamford renndi boltanum til Rodrigo sem átti góða sendingu á Raphinha sem skoraði og kom Leeds yfir á 17. mínútu. 

Lið Newcastle sótti í sig veðrið eftir því sem leið á hálfleikinn en það var lið Leeds sem var þó nær því að skora næsta mark. Raphinha átti þá gott skot í stöng úr þröngu færi. Á 57. mínútu var komið að jöfnunarmarki Newcastle. Liðið vann þá boltann á hættulegum stað og Callum Wilson gaf á Miguel Almiron sem skoraði. Leeds var þó ekki lengi að svara og Jack Harrison kom þeim aftur yfir á 61. mínútu með virkilega góðu skoti eftir sendingu frá Raphinha. Ekki voru fleiri mörk skoruð í leiknum og Leeds því með mikilvæg þrjú stig.

Staða Newcastle er hins vegar mjög slæm og liðið sogast hratt í fallbaráttuna.