Vilja taka út heimild til að setja útgöngubann

26.01.2021 - 12:16
Mynd með færslu
 Mynd: Birgir Þór Harðarson - RÚV
Útgöngubann verður fellt úr frumvarpi að sóttvarnalögum og heimild til skyldubólusetningar á landamærum verður líka tekin út samkvæmt breytingatillögum meirihluta velferðarnefndar Alþingis. Þá verður ráðherra skylt að gefa þinginu skýrslu standi faraldur tiltekið lengi.

Velferðarnefnd Alþingis situr nú á fundi þar sem stefnt er að því að afgreiða frumvarp að nýjum sóttvarnalögum. Heilbrigðisráðherra mælti fyrir frumvarpinu í lok nóvember og síðan þá hefur það verið til umfjöllunar í velferðarnefnd. Fram kom í máli Helgu Völu Helgadóttur formanns nefndarinnar í síðustu viku að stefnt er að því að afgreiða frumvarpið frá Alþingi fyrir mánaðamót.

Ólafur Þór Gunnarsson þingmaður Vinstri grænna er framsögumaður nefndarinnar. „Það eru töluvert margar breytingar sem við leggjum til en kannski þær veigamestu snúa að því að við tökum útgöngubannið sem var mælt fyrir að væri heimild fyrir í frumvarpinu tökum það út. Við tökum út heimild til skyldubólusetningar á landamærum sem að hefur nokkuð verið rætt og setjum líka inn ákvæði um það að standi faraldur tiltekið lengi þá sé skylda á ráðherra að gefa þinginu skýrslu líkt og ráðherra hefur raunar gert í þessum faraldri en þarna er komið skylduákvæði í lög um það og þetta eru kannski veigamestu breytingarnar,“ segir Ólafur Þór.