Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Veirutækið líklega tekið í notkun í næstu viku

Mynd: Landspítalinn / Landspítalinn
Vonir standa til að hægt verði að greina sýni fyrir kórónuveirunni í nýju veirugreiningartæki í næstu viku á sýkla- og veirufræðideild Landspítalans. Forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar segir það ekki hafa gerst með leifturhraða að koma tækinu í notkun. 

Strax var ljóst í fyrravor að veirufræðideild Landspítalans gæti ekki greint öll sýni til að leita eftir kórónuveirunni sér í lagi eftir 15. júní þegar byrjað var að skima komufarþega. Tækjakosturinn var langt í frá nógu afkastamikill. 

Nýtt tæki var pantað en afhending dróst. Það komst á sinn stað á veirufræðideildinni í byrjun janúar nokkrum mánuðum á eftir áætlun. Í síðustu viku var lokið við að setja upp tækið. Í þessari viku er svo starfsfólkið að læra á tækið. Karl Kristinsson yfirlæknir segir vonir standa til að hægt verði að taka það í notkun í næstu viku. Það fari eftir því hvort öll hvarfefni í tækið verði komin. Tækið annar 3000 sýnum á sólarhring og önnur tæki deildarinnar 2000 sýnum. 

Hingað til hafa tæki Íslenskrar erfðagreiningar í Vatnsmýri verið notuð. Þar hafa átján starfsmenn veirufræðideildar Landspítalans séð um smitgreininguna. Ekki er að undra að fólk sé orðið langeygt eftir veirugreiningartækið komist loks í notkun.  

„En einhvern veginn þá hefur það nú ekki gerst með leifturhraða. En mér skilst að menn hafi einhvers konar vonir um að þetta stórkostlega tæki verði einhvern tíma komið í gagnið. Og þá flyst greiningin héðan og upp á veirufræði þar sem hún á að eiga sér stað og er fullt af góðu fólki til þess að sinna því,“ segir Kári Stefánsson forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar.