Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Útgöngubann veldur miklum óeirðum í Hollandi

26.01.2021 - 02:17
epa08965126 A large group of young people seeks confrontation with the police and pelts the police present with stones and fireworks on Beijerlandselaan in Rotterdam, The Netherlands, 25 January 2021. Police's mobile unit is present and has carried out charges to clear the street. Some arrests have also been made and a water cannon has been used. Nationwide protest against coronavirus restrictions and curfew imposed by Dutch government broke out during the weekend in many Dutch cities, leading to some violent riots and clashes with Police.  EPA-EFE/KILLIAN LINDENBURG / MEDIATV
 Mynd: EPA-EFE - ANP
Óeirðir brutust út í Amsterdam, Rotterdam og fleiri hollenskum borgum í kvöld, þriðja kvöldið í röð, þegar þúsundir streymdu út á götur og torg til að mótmæla fyrsta útgöngubanninu sem sett hefur verið á í Hollandi síðan í heimsstyrjöldinni síðari. Útgöngubannið er liður í sóttvarnaaðgerðum stjórnvalda vegna COVID-19 og gildir frá níu á kvöldin til hálf fimm að morgni.

 

Yfir 150 mótmælendur voru handteknir í kvöld, samkvæmt hollenskum fjölmiðlum og í Rotterdam greip lögregla til þess að skjóta viðvörunarskotum og táragasi að óeirðaseggjum, þegar ljóst var orðið að þeir létu neyðartilskipun borgarstjórans sem vind um eyru þjóta. Mótmæli gegn útgöngubanninu hófust á laugardagskvöld og þróuðust fljótlega út í óeirðir og skemmdarverk.

Verstu óspektir í 40 ár

Óspektirnar á sunnudag voru þær verstu sem orðið hafa í Hollandi í 40 ár, að sögn lögregluyfirvalda. Samtals voru um 250 manns handtekin á hinum ýmsu stöðum í óeirðum sunnudagsins. Auk Amsterdam og Rotterdam hefur verið mótmælt í Den Haag, Eindhoven, Amersfoort, Geleen, Tilburg og fleiri borgum og bæjum.

Nær alstaðar hefur slegið í brýnu milli lögreglu og mótmælenda, sem sumstaðar kveiktu elda á götum úti og unnu skemmdarverk á byggingum, bílum, hjólum og öðru sem á vegi þeirra varð. Lögregla hefur beitt táragasi, kylfum og jafnvel háþrýstidælum til að leysa upp mótmælin.

Ekki mótmæli heldur glæpsamlegt ofbeldi

Mark Rutte, forsætisráðherra Hollands, segir óeirðirnar ólíðandi, allt venjulegt fólk hljóti að fyllast skelfingu við að horfa upp á aðfarir óróaseggjanna. „Það sem drífur þetta fólk áfram hefur ekkert með mótmæli að gera, þetta er glæpsamlegt ofbeldi og verður meðhöndlað sem slíkt," sagðir Rutte á fréttamannafundi.

Strangar sóttvarnareglur hafa verið í gildi í Hollandi síðan í október, þegar öllum krám og veitingahúsum landsins var gert að loka. Í desember var skólum lokað líka, sem og öllum verslunum sem ekki selja brýnustu nauðsynjar, svo sem matvöru- og lyfjaverslanir.