Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Um 11% Íslendinga undir láglaunamörkum

26.01.2021 - 08:33
Vesturbyggð Patreksfjörður
 Mynd: Jóhannes Jónsson Jóhannes Jó
Á Íslandi er þriðja hæsta miðgildi tímakaups í Evrópu sé það umreiknað í evrur en Danir hafa hæsta tímakaup í álfunni sé litið til þess mælikvarða. Hlutfall þeirra sem voru undir láglaunamörkum var 11,2% á Íslandi, en það eru laun sem reiknast undir 2/3 af miðgildi tímakaups hvers lands.

Norðurlöndin voru öll með lægra hlutfall undir láglaunamörkum en Ísland, hlutfall þeirra var lægst í Svíþjóð 3,6% en hæst 23,5% í Lettlandi. Hlutfallið á Íslandi er það áttunda lægsta í Evrópu.

Á vef Hagstofu Íslands er greint frá því að niðurstöðurnar byggi á samevrópskri rannsókn gerðri í október 2018 á launum og samsetningu þeirra. Slíkar rannsóknir eru gerðar á fjögurra ára fresti og birtust niðurstöður síðast á vef Eurostat 14. desember.

Þar kemur fram að tímakaup á Íslandi sé það áttunda hæsta í Evrópu að teknu tilliti til verðlags með svokölluðum jafnvirðisgildum (PPS). Það er tilbúinn gjaldmiðill en hugmyndin er að fyrir hverja einingu hans megi kaupa sama magn vöru og þjónustu í hverju landi fyrir sig.

Þannig sé tekið mið af verðlagi hvers lands. Tímakaup er laun í dagvinnu, vaktavinnu og yfirvinnu deilt með öllum greiddum stundum.