„Þú ert gæinn sem ert að koma öllum á þunglyndislyf“

Mynd: Purkur / Purkur

„Þú ert gæinn sem ert að koma öllum á þunglyndislyf“

26.01.2021 - 09:16

Höfundar

Baldvin Z leikstjóri segir gjarnan frá erfiðri lífsreynslu fólks í kvikmyndum sínum, sem hann byggir að hluta á eigin upplifun. Hann er með þrjár geirvörtur, sem er staðreynd sem hann segir veita sér ákveðna ofurkrafta í kvikmyndagerð, var tvisvar hafnað um inngöngu í kvikmyndaskóla en gaf drauminn aldrei upp á bátinn. Í dag er hann einn farsælasti leikstjóri Íslands.

Baldvin Z leikstjóri er Akureyringur, fæddur og uppalinn réttu megin við Glerána, að eigin sögn, þeim megin þar sem íþróttafélagið Þór ræður ríkjum. Það var ákveðið áfall að átta sig á því á fullorðinsárum að þau sem héldu með KA væru upp til hópa hið ágætasta fólki þrátt fyrir að hafa alist upp röngu megin við ánna. „Maður var búinn að alast upp við að þola þá ekki,“ segir hann sposkur. Hann kíkti í Mannlega þáttinn og sagði frá draumnum um að gera kvikmyndir, draumnum sem kom litlu öðru í lífinu að og rættist að lokum, og þeim verkefnum sem hann hefur tekið þátt í og er að vinna að í dag.

Datt í hug að gefast upp og snúa sér að öðru

Hann var orðinn 26 ára þegar hann loks tók þá ákvörðun að flytja sig um set frá Akureyri. Hann og eiginkonan fluttu til Kaupmannahafnar árið 2004 þar sem Baldvin reyndi fyrir sér að komast inn í kvikmyndaskóla. Hann sótti um í tvígang en í bæði skiptin var honum neitað um inngöngu. Höfnunin gerði það að verkum að um stund datt honum ekki í hug nein önnur leið en að gefa drauminn upp á bátinn og snúa sér að öðru. En köllunin var of sterk. „Ég hef eiginlega ekki gert neitt annað síðan ég var ellefu ára, hef ekki hugsað um neitt annað en kvikmyndir, stuttmyndir, bíó og sögur. Það komst lítið annað að en þetta.“

Heillaðist af David Lynch

Það fyrsta sem veitti honum innblástur voru Twin Peaks-þættir Davids Lynch. Hann var eini tíu ára krakkinn í vinahópnum sem gat alls ekki farið út að leika þegar þættirnir voru sýndir í línulegri dagskrá. „Ég var ótrúlega heillaður af þessu,“ segir hann. Fyrstu stuttmyndirnar sem hann gerði voru mjög litaðir af súrrealískum litum Lynch. „Ég sé það þegar ég horfi á fyrstu stuttmyndirnar mínar sem ég gerði í framhaldsskóla að þetta var mjög súrt og mikið ofbeldi í öllu,“ segir hann.

Hann lærði ljósmyndun í Kaupmannahöfn og sótti um vinnu á Íslandi. Árið 2008 fluttu hjónin heim og hann fór að vinna fyrir framleiðslufyrirtæki sem skömmu síðar varð gjaldþrota. „Ég hélt ég væri að fara í svaka partíi, en partíið endaði bara nokkrum vikum eftir að ég kom heim.“

Fékk fljúgandi start með Óróa

En partíið var í raun rétt að byrja. Tveimur árum síðar kom kvikmyndir Órói út sem fékk gríðargóðar viðtökur um allan heim. „Ég fæ fljúgandi start,“ viðurkennir Baldvin. Hann segir að það hafi verið ein hans mesta gæfa að kynnast framleiðendunum Júlíusi Kemp og Ingvari Þórðarsyni. „Þeir grípa mig á meðan ég bý úti,“ segir Baldvin. „Þeir hafa tröllatrú á mér sem ég veit ekkert hvaðan kemur og af hverju.“

Myndirnar byggjast að hluta á eigin reynslu

Síðan hefur Baldvin leikstýrt bæði bíó og sjónvarpsþáttum og hlotið mikið lof fyrir kvikmyndir á borð við Vonarstræti og Lof mér að falla sem báðar fjalla að hluta til um fíkn og erfiða reynslu. „Þetta er byggt á því sem maður hefur upplifað og farið í gegnum. Maður er einhvern veginn alltaf að sækja aðeins í sjálfan sig í þessum verkum og maður verður að geta tengt við það sem maður er að gera,“ segir hann. Hann ber virðingu fyrir öllu fólki og mætir hverjum einstaklingi og jafningjagrundvelli. „Mér finnst gaman að fólki sem sér myndirnar mínar, dæma karakterana fyrirfram en fá svo að kynnast þeim,“ segir Baldvin.

Þung, erfið og áhrifamikil umfjöllunarefni

Umfjöllunarefni Baldvins eru gjarnan þung og algengt að miklar og erfiðar tilfinningar hrærist innra með karakterunum og þeim sem horfir. Fólk hefur oft komið að máli við Baldvin og sagt honum að þau hafi átt erfitt með að ráða við tárin á meðan horft var á til dæmis Óróa, Vonarstræti og Lof mér að falla, og mörgum líður illa á meðan horft er. „Ég hitti eitt sinn fasteignasala sem sagði: Þú ert gæinn sem ert að koma öllum Íslendingum á þunglyndislyf,“ segir Baldvin glettinn. „En honum fannst myndin frábær.“

Karlmenn í krísu, glæpir og Vigdís Finnbogadóttir

Það er ný þáttaröð væntanleg eftir Baldvin sem heitir Vegferð sem fjallar fjallar um tvo karlmenn, sem Ólafur Darri og Víkingur Kristjánsson leika, sem ferðast um landið saman. „Þetta eru sex þættir um karlmenn, frá karlmönnum til karlmanna. Þeir ferðast um Ísland og díla við það að vera karlmenn,“ segir Baldvin. „Loksins, loksins, loksins er komin sería um hvíta karlmenn þar sem þeir fá smá rými til að anda,“ bætir hann sposkur við. Svörtu sandar sem er glæpasería sem einnig er væntanleg og svo eru þættir um Vigdísi Finnbogadóttur. Hún er leikin sería um ævi hennar.

Hann á fyrirtækið Glassriver ásamt fjórum vinum sínum. „Ég líki okkur við Avengers, við erum öll með okkar styrkleika,“ segir Baldvin. „Ég get flogið og ég er með þrjár geirvörtur. Það er minn helsti styrkleiki.“

Rætt var við Baldvin Z leikstjóra í Mannlega þættinum á Rás 1. Hér er hægt að hlýða á þáttinn í heild sinni.

Tengdar fréttir

Menningarefni

Þáttaröð um fyrstu fimmtíu ár Vigdísar í smíðum

Kvikmyndir

„Ég upplifði algjört svartnætti“

Kvikmyndir

Féll og klippti því ekki Lof mér að falla