Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Stórt krapaflóð lokar veginum við Jökulsá á Fjöllum

26.01.2021 - 16:42
Mynd með færslu
 Mynd: Kristján Hermannsson
Þjóðvegi eitt yfir Jökulsá á Fjöllum á milli Mývatnssveitar og Egilsstaða var lokað síðdegis. Krapaflóð þekur veginn á um 300 metra kafla vegna krapastíflu undir brúnni. Vegagerðin er að senda stórvirkar vinnuvélar á staðinn til að hefja hreinsun sem gæti tekið töluverðan tíma.

Ís og krapi hefur átt það til að safnast upp undir brúnni yfir Jökulsá á Fjöllum undanfarin ár. Starfsmenn Vegagerðarinnar hafa fylgst með ánni síðustu daga og varað vegfarendur við því að ís og krap úr ánni gæti náð upp á veginn. Í morgun vantaði ekki nema rúma tvo metra í að ís og krapi næðu upp í brúargólfið og vatn hefur safnast fyrir því það á ekki greiða leið í gegnum krapastífluna.

Mynd með færslu
 Mynd: Kristján Hermannsson
Talið er að krapaflóðið hafi farið yfir veginn rétt fyrir klukkan fjögur í dag.

Vegagerðin bendir vegfarendum á veginn um norðausturströndina en þar hálka, snjóþekja og skafrenningur. 

Bjarni Pétur Jónsson
Fréttastofa RÚV