Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Ráðherra segir þorra þjóðarinnar bólusettan um mitt ár

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Eggert Þór Jónsson - RÚV
Bóluefni fyrir 33.500 manns ætti að berast til landsins í febrúar, segir heilbrigðisráðherra. Hún segir að um mitt ár verði búið að bólusetja meirihluta þjóðarinnar.

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra segir að í febrúar eigi að berast hingað 43 þúsund bóluefnaskammtar frá Pfizer, 10 þúsund frá Moderna og um 14 þúsund frá Astra Zeneca eða alls 67 þúsund skammtar sem duga fyrir 33.500 manns. Hún flytur Alþingi í dag munnlega skýrslu um öflun og dreifingu bóluefnis hér á landi. 

„Við urðum ekki fyrir vonbrigðum við því vorum ekki með viðmiðunartölur. Það getur brugðið til beggja vona í þessu,” segir Svandís um tafirnar á bóluefnunum. Aðalatriðið sé að halda dampi. Staðan hér á landi sé mjög góð varðandi sóttvarnir, og bólusetningar gangi vel, það er að segja að hér sé gott dreifingarkerfi og góð aðstaða til að sinna bólusetningunum sjálfum.

„Í febrúar erum við að fara í okkar elstu hópa af meiri krafti og við höldum okkar striki.” 

Stöðugt samband við framleiðendur

Svandís segir að við séum á sama stað og Evrópa. Lánist hins vegar að halda sóttvörnum hér góðum séum við í allt annarri stöðu til að beita bólusetningum inn í faraldurinn heldur en þjóðirnar í kringum okkur. Evrópusambandið brást harkalega við fréttum frá Astra Zeneca um að tafir yrðu á afhendingu bóluefnis. Svandís segir íslensk stjórnvöld í stöðugu sambandi við bóluefnaframleiðendur. Mikilvægast sé að halda rónni og áætlun, bólusetningaferlið sé hafið.

„Við látum ekki fréttir einstakra daga slá okkur út af laginu. Við erum á góðum stað og verðum að halda ró okkar,” segir Svandís. „Við erum að tala um að á miðju ári verði þorri þjóðarinnar bólusettur.”

Stærstu skrefin framundan séu að bólusetja viðkvæmustu hópana og þá gætum við fyrst farið að huga að því að slaka á í sóttvörnum.