Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Nýgengi smita ekki verið lægra síðan í lok júlí

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Ekki hafa jafn fáir greinst með kórónuveirusmit síðasta hálfa mánuðinn síðan í lok júlí. Nýgengi smita síðustu tvær vikur er nú 9,3 innalands og hefur ekki verið lægra síðan það var 7,9 þann 29.júlí. Tveimur dögum seinna voru aðgerðir hertar þegar fjöldatakmarkanir fóru úr 500 í 100 og tveggja metra reglan tók gildi að nýju. Þá var nýgengið þó hærra en það er í dag þegar aðeins 20 mega koma saman.

Alls hafa 23 greinst utan sóttkvíar í janúar, samkvæmt covid.is.  Enginn er í sóttkví eða einangrun í fjórum landshlutum. Að höfuðborgarsvæðinu undanskildu, þar sem 41 er í einangrun, eru færri en tíu með virkt smit í hinum landshlutunum þremur. 

Staðan í farsóttinni hefur ekki verið jafn góð síðan í lok júlí eða 29. júlí þegar nýgengi var 7,9.  Þetta var um það leyti sem önnur bylgja  farsóttarinnar var að gera vart við sig því tveimur dögum seinna, 31. júlí, voru aðgerðir hertar.

Þótt nýgengi sé svona lágt í dag gilda enn mjög strangar reglur. Aðeins mega 20 koma saman, grímuskylda er í öllum búðum og líkamsræktarstöðvar mega aðeins hafa opið að uppfylltum mjög ströngum skilyrðum. 

Þetta má væntanlega fyrst og fremst rekja til alvarlegrar stöðu í nágrannalöndunum. Í Danmörku er nýgengi smita 364, það er tæplega 669 í Svíþjóð og 134 í Noregi. Sóttvarnastofnun Evrópu hefur þar að auki biðlað til Evrópuríkja um að fara varlega í allar tilslakanir, ekki síst vegna þriggja nýrra afbrigða sem eru talin meira smitandi. Þau hafa verið kennd við Bretland, Brasilíu og Suður-Afríku.

Núverandi reglugerð á að falla úr gildi þann 17. febrúar og á morgun verður hálfur mánuður liðin frá því að slakað var lítillega á takmörkunum. Þríeykið hefur yfirlýsingum sínum ítrekað að það vilji fara varlega í sakirnar.

Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir, sagði í samtali við fréttastofu í síðustu viku að hann væri bjartsýnn á hægt yrði slaka fyrr á en varaði jafnframt við að aðeins þyrfti eitt partý til að koma af stað nýrri bylgju.  

Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn, taldi fullsnemmt að leggja til tilslakanir, jafnvel þótt allar tölur líti vel út. „Við höfum séð það eftir fyrri tilslakanir, þá hefur oft komið bakslag seinna en það.“ 

Og reynslan hefur sýnt að tilslakanir eiga það til að koma í bakið á yfirvöldum. Þann 7. september var til að mynda slakað á aðgerðum, 100 leyft að koma saman og eins metra regla tekin upp. Þá var nýgengi mun hærra en það er nú eða 13,4. 

Tæpum mánuði seinna var búið að herða aðgerðir verulega, aðeins 20 máttu koma saman og líkamsræktarstöðvum og krám hafði verið lokað. Þriðja bylgja faraldursins var þá að komast á fullt skrið og henni er enn ekki lokið.

Þegar önnur bylgja faraldursins var að hefjast sást líka glöggt hversu fljótt hlutirnar geta breyst.

Þann 28. júlí tilkynnti heilbrigðisráðuneytið að áfram yrðu 500 manna samkomutakmarkanir en varaði þó við „innfluttum smitum“. Margt benti engu að síður til þess að Íslendingar gætu gert sér glaðan dag um verslunarmannahelgina. Aðeins þremur dögum seinna var búið að herða samkomutakmarkanir og verslunarmannahelginni aflýst.     

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV